13 september 2009

Ítalska dramað

Í ágúst fékk ég hjálparbeiðni á sófagestasíðunni frá ítalskri konu sem hafði komið til landsins í boði gamallar vinkonu (hún er líka ítölsk) sem eins konar au pair í 3 vikur. Planið var að hún passaði börnin hennar þrjú svona 5 - 6 tíma á dag og gæti svo túristast þess á milli. Annað kom á daginn þegar hún var kominn til landsins og hún endaði í algjörri þrælavinnu 11 tíma á dag. Ekki var nóg með að hún þyrfti að passa börnin heldur stóð hún í stórhreingerningum upp á hvern dag því bæði var húsið alltaf fullt af sófagestum og gestum í Bed and Breakfast sem frúin rekur. Einn daginn eftir uppákomu milli þeirra að ítölskum sið fékk mín nóg og sendi út neyðarkall. Ég svaraði því og þannig fékk ég einn af mínum skrautlegu og skemmtilegu sófagestum í heimsókn :)
Hún mætti útkeyrð og vansvefta og næsta dag var hún orðin fárveik með hita og var rúmliggjandi í 3 daga. Frúin hringdi reglulega og reyndi að lokka hana til sín aftur án árangurs auðvitað. Hún leigir líka út heimilisbílana og þær höfðu verið búnar að ganga frá því að Vale og tveir aðrir Ítalir fengju bíl á leigu og stóð við það. Ekki leist mér nú á gripinn enda pústið ónýtt og hávaðinn eftir því. Upphófust nú hringingar og ítalskur æsingur og á endanum var bíllinn tekinn aftur og lappað upp á pústið áður en þau lögðu í hann hringinn í kringum landið og fóru fyrst suðurleiðina.
Þau komust á Mývatn en þá datt stýrið hreinlega af. Þar voru þau nú strandaglópar og Frúin sagði þetta ekki vera sitt mál, þau gætu bara skilið bílinn eftir þarna og sett lyklana í geymslu á hótelinu. Enn voru þrír dagar eftir af leigunni en hún þvertók fyrir að endurgreiða þeim þá daga.
Annar samferðamaður Vale er lögfræðingur sem skilur ekkert hvað lögfræðingar gera á Íslandi fyrst það eru ekki nema tvö til þrjú morð á ári hahhahahaha. Hann var að sjálfsögðu ekki sáttur við að fá ekki endurgreitt og eftir mörg símtöl og ítalskan æsing hafði hann það loks í gegn að fá þessa þrjá daga endurgreidda.
Nú var loks komið að því að Vale myndi yfirgefa þetta (að því að henni fannst) guðsvolaða land en nei þá tók nú ekki betra við. Daginn áður en hún átti flug fékk hún tölvupóst frá Iceland Express þar sem þeir tilkynntu að flugið hennar klukkan 7 morguninn eftir hefði verið fellt niður og hún væri bókuð klukkan 17 í staðinn. Þá fékk mín nú fyrst taugaáfall því hún átti bókað flug frá London til Bologna klukkan 15. Sú litla enska sem hún getur talað hvarf gjörsamlega og hún grét og barmaði sér svo ég tók það að mér að tala við British Airways til að reyna að fá breytt fluginu. Þeir voru afskaplega almennilegir þar og breyttu fluginu þar til morguninn eftir þrátt fyrir að búið væri að loka fyrir breytingar. Að vísu þurfti hún að borga ein 200 pund á milli því auðvitað voru bara dýrustu sætin eftir. Ég bauð henni að vera hjá mér í tvo daga í viðbót til að fá ódýrara far en í hysteríunni vildi hún bara komast frá þessu hræðilega landi strax. Þegar svo átti að borga mismuninn með kreditkorti þá reyndist hún bara vera með debetkort. Afgreiðslumaður British Airways heyrði viðbrögðin þegar ég útskýrði fyrir henni að hún gæti ekki borgað með því nema rafrænt og var svo elskulegur að bjóða henni að borga bara þegar hún kæmi á flugvöllinn í London.
Ekki er allt búið enn, ég ákvað að keyra hana á flugvöllinn til að vera viss um að hún kæmist örugglega úr landi því ef eitthvað kæmi upp á þá var hún nánast mállaus og hysterísk. Þegar við komum á völlinn þá sé ég að búið er að FLÝTA fluginu án þess að láta hana vita. Brottför var nú 16.20 í stað 17!!!! Eins gott ég var með henni! Á endanum komst hún svo úr landi og gisti á flugvellinum í Gatwick um nóttina og komst heilu og höldnu til Ítalíu daginn eftir.

30 ágúst 2009

Haustið í nánd

Ingileif benti mér á að ekki hefðu allir gefist upp á því að kíkja hér inn og það gladdi mig mikið. Svo nú er sumarfríið búið hjá Netfrænkunni sem lofar að skrifa hér oftar. Eftir danska daga og austurferð lagðist ég í tveggja vikna pest og síðan hefur verið fullt hús af gestum eins og vanalega :) Eins og er eru tvær miðaldra sænskar frúr hjá mér á vegum sonar annarrar þeirra en hann er í sófaklúbbnum og bað mig fyrir þær. Þær eru afskaplega viðkunnanlegar og þægilegar konur sem reka saman fótaaðgerðastofu í Jönköping svo nú á ég heimboð í gestahúsið hennar Moniku og fótanudd- og snyrtingu hjá þeim ef ég fer í Svíþjóðarreisu. Í gærkvöldi buðu þær mér út að borða á Indian Mango sem er alveg frábær staður. Þær voru búnar að bjóða mér fyrr í vikunni en vildu ekki segja mér hvaða staður það væri því þær vildu koma mér á óvart. Mér fannst þetta ægilega spennandi og var búin að bíða spennt eftir þessu. Það var því mjög ánægjulegt þegar þær stoppuðu fyrir framan Indian Mango því ég hef einu sinni farið þangað áður og er mjög hrifin af þessum stað. Í dag eru þær í Gullfoss og Geysi ferð í glampandi sól og blankalogni og eru held ég bara afskaplega ánægðar með þessa Íslandsferð sína. Sonurinn sendi mér skilaboð áðan því enginn hefur heyrt í þeim frá því þær fóru síðasta mánudag og hann var greinilega orðinn áhyggjufullur hahahaha.
Ég er nýbúin að upplifa annað ítalskt drama sem ég get sett í bókina mina sem ég mun skrifa á efri árum um sófagestaævintýrin mín. Sú saga kemur hér fljótlega.

11 júlí 2009

Danskir dagar
Hersingin á Sægreifanum.
Freya úðaði í sig harðfisknum sem Danirnir voru ekkert sérlega spenntir fyrir. Henni þótti Hrefnukjötið líka gott :)


Það hafa svo sannarlega verið danskir dagar hér í Einholtinu síðustu vikuna. Sebastian og Miriam, danskir sófagestir, komu á sunnudagskvöld. Jakob mágur Sigurbjargar og Rasmus komu á mánudag. Á þriðjudagsmorgun fóru Sebastian og Miriam en þá komu Jósef og Ása tengdaforeldrar Sigurbjargar. Á miðvikudag komu Sigurbjörg, David og Freya og Carsten vinur þeirra með 10 ára dóttur sína Lærke þannig að þá nótt gistu 8 manns hjá mér og gekk bara vel. Svo heppilega vill til að Valur er úti á sjó svo ég tók herbergið hans traustataki og sendi Jakob, Rasmus og David þangað. Þeir höfðu það afskaplega notalegt í kjallaranum með tölvu, tónlist og sjónvarp og gátu fengið sér öl í friði hahahaha. Öll hersingin fór út að borða á miðvikudagskvöldið á Sægreifann sem sló heldur betur í gegn. Hvalkjötið þótti algjört lostæti og humarsúpan ekki síðri. Í dag fækkar í hópnum því foreldrar Davids og Jakob og Rasmus leggja af stað austur á bóginn. Ég ætla að keyra austur á morgun og tek Beth og Travis með. Svo hittumst við öll á Egilsstöðum í afmælismat hjá Kristínu systur á mánudagskvöldið. Þetta er búið að vera alveg rosalega gaman að hafa þau öll hérna og verið ótrúlega lítið mál þrátt fyrir lítið pláss.

20 maí 2009

TravisÉg gisti hjá Beth og Travis litla á laugardagskvöldið, vorum með Júróvisjón partý að sjálfsögðu. Hann er búinn að vera með magakveisu en er eitthvað að lagast. Er farinn að skreppa út í göngutúr og sefur eins og engill á eftir.

Starraflærnar eru byrjaðar að hrella mig. Það er sjálfsagt hreiður í þakrennunni beint fyrir ofan svefnherbergisgluggann minn. Ég get ómögulega sofið með lokaðan glugga sem þýðir að ég vakna útbitin á morgnana. Nú tek ég ofnæmistöflur fyrir svefninn og finn minna fyrir því.

Ég byrjaði að kenna í Keflavík í morgun. Er að kenna mánudaga - föstudaga frá 10 - 12 atvinnulausum útlendingum. Kláraði námskeiðið í Reykjavík í gær og við ákváðum að hafa útskriftina úti í góða veðrinu. Löbbuðum um miðbæinn eins og túristar. Þau grínuðust með að þau ættu eiginlega að haldast í hendur eins og leikskólakrakkar. Ég var auðvitað leiðsögumaðurinn og fræddi þau um hitt og þetta þar á meðal Alþingishúsið sem ekkert þeirra vissi hvar var. Við komum við í Ráðhúsinu og skoðuðum stóra kortið af Íslandi og sáum ljósmyndasýningu um íslenskt mannlíf, náttúru o.fl. Við enduðum svo í garðinum á kaffi Hressó og þar var þessi fína útskriftarathöfn með munnlegu prófi sem allir stóðust, misvel auðvitað. Þau gáfu mér blóm og hálsmen og eyrnalokka þessar elskur. Þetta var alveg einstaklega skemmtilegur hópur og ég er strax farin að sakna þeirra.

Ég var með tvo skemmtilega sófagesti frá Napólí sem fóru frá mér í morgun. Í dag er þýskur ljósmyndari hjá mér og á morgun kemur ung kanadísk kona sem er að fara á sumarnámskeið í íslensku í Háskólanum. Á föstudagskvöldið er planið svo að skreppa á tónleika með hjónum frá Kanada. Einn fyrrverandi nemendinn minn er í hljómsveitinni Esju sem er að spila þá um kvöldið. Sem sagt nóg að gera hjá mér þessa dagana. Á morgun ætla ég að kíkja á kaffihús með Kai (ljósmyndaranum) og líta svo aðeins við hjá Beth og Travis.

30 apríl 2009

Heim á ný

Loksins fékk Beth að fara heim af fæðingardeildinni í dag. Það gekk eitthvað erfiðlega að ná niður blóðþrýstingnum en á þriðjudag fékk hún ný blóðþrýstingslyf sem virðast virka betur. Hún var alveg búin að fá nóg eftir viku spítalamat og sjúkrarúm. Ekki slæmt að komast heim í rúmið sitt og matinn hennar Önnu Gerðar ;) Að öðru leyti hefur hún það fínt og skurðurinn grær vel. Sá litli dafnar prýðilega og var held ég bara ánægður að koma heim til sín. Fyrsta nóttin er að vísu ekki ennþá liðin. Ég kíkti aðeins við hjá þeim í kvöld og sníkti auðvitað mat hjá Önnu. Ég var að kenna í nágrenninu en það var að byrja nýtt námskeið hjá mér sem ég kenni frá 19 - 21. Svolítið strangir dagar framundan en þetta verður nú bara þar til viku af júní.
Ég er búin að vera bíllaus frá því fyrir páska en fékk loksins hjólalegu í gær. Aron ætlar að skipta um hana fyrir mig svo kannski fæ ég bílinn um helgina. Það hefur svo sem verið fínt að labba enda hefur mér ekki veitt af hreyfingunni og orkan aukist heilmikið en það tekur óskaplegan tíma að komast á milli staða og fyrst ég er byrjuð að kenna þetta kvöldnámskeið þá verð ég eiginlega að vera á bíl annars kemst ég aldrei í háttinn fyrir miðnætti.
Valur er úti á sjó núna og enn á nýjum bát, Sighvati GK. Hann er svo heppinn að skipstjórinn á Páli Jónssyni spurði hann hvort hann mætti ekki mæla með honum við aðra skipstjóra sem Valur sagði auðvitað sjálfsagt og það hefur sannarlega skilað sér. Þetta er annar skipstjórinn sem hringir í hann. Ennþá hefur hann bara fengið afleysingar enda ekki mörg pláss sem losna en hann er nokkuð öruggur um fast pláss á einhverjum af Vísisbátunum um leið og það losnar.

24 apríl 2009

FæðingarsaganBeth fékk verki klukkan 8 á miðvikudagskvöldið og um 11 voru þeir orðnir reglulegir með 7 mínútur á milli. Við ákváðum því að drífa okkur á spítalann í Hreiðrið en þar sem blóðþrýstingurinn var mjög hár vorum við sendar yfir á fæðingarganginn. Þar kom í ljós að útvíkkun var ennþá bara einn sem venjulega þýðir að konan er send aftur heim en blóðþrýstingshækkunin gerði það að verkum að það var ákveðið að hún færi ekki heim að svo stöddu. Hún fékk lyf til að lækka blóðþrýstinginn og verkjalyf til að ná að sofa. Hún var með stöðugar hríðir og um morguninn var útvíkkun komin í 3 en sá litli var orðinn þreyttur og búinn að hafa hægðir í legvatnið. Þá var ákveðið að sprengja belginn, við það hörðnuðu hríðirnar mikið og blóðþrýstingurinn hækkaði aftur verulega hjá Beth. Til þess að ná honum niður var ákveðið að hún fengi mænudeyfingu, þar sem það var frídagur voru færri á vakt svo hún þurfti að bíða þó nokkurn tíma áður en mænudeyfingin kom. Allan daginn var hún með harðar hríðar en leið betur út af mænudeyfingunni. Um fimmleytið voru þau bæði orðin mjög þreytt en útvíkkun var enn bara 4 svo það var ákveðið að taka hann með keisaraskurði. 17.40 kom hann svo loksins í heiminn og ég fékk hann í fangið og hélt á honum meðan verið var að ganga frá skurðinum. Ég grét að sjálfsögðu þvílíkt en sem betur fer var ég með grímuna svo horið var ekki út um allt hahahahaha og svo byrjaði hann á að pissa á mig sem er víst mikil blessun sagði Beth :D Hún fékk hann svo í fangið um leið og við vorum komnar út af skurðstofunni og lagði hann strax á brjóst sem hann var ægilega ánægður með :D Hún fær einhverja nýja verkjameðferð sem þýðir að hún fær líklega að fara heim eftir 2 til 3 daga og fær þá ljósmóður heim daglega. Anna Gerður kemur til hennar á laugardagskvöldið og verður í einhverja daga hjá henni Beth til mikillar gleði.

23 apríl 2009

Lítill keisari kominnÉg grét og hann pissaði á mig þegar hann fæddist :D
Núna er ég alveg búin á því eftir að vaka í nærri 40 tíma svo ég læt myndina nægja að sinni. Sá stutti var rétt rúmar 12 merkur og 50 cm. Þeim heilsast vel en eru auðvitað bæði mjög þreytt, ekki síst Beth.

20 apríl 2009

Útkallsæfing

Beth hringdi í mig á laugardagsnóttina og var á leiðinni upp á spítala. Ég hentist í föt og heim til hennar og svo upp á spítala. Hún var tengd við síritann og þar sem hríðarnar voru nokkuð reglulegar þá leit allt út fyrir að sá stutti væri loksins að láta sjá sig. Við nánari athugun reyndist útvíkkun ekki vera nema 1 og smám saman dró úr verkjunum svo við vorum bara sendar heim aftur. Aðeins smáæfing greinilega. Ég var hjá henni allan daginn í gær og nótt og ætla að vera hjá henni þar til yfir lýkur. Skrapp í vinnuna í dag enda allt í rólegheitum hjá henni bara smá verkir sem vonandi þýða að útvíkkunin sé að mallast áfram.
Á sama tíma var ég með fjóra sófagesti, krakka frá Belgíu og Sviss sem eru í skiptinámi í Noregi. Ég skildi þau bara eftir heima og hitti þau smástund í morgun áður en þau fóru. Alveg indæliskrakkar sem skildu betur við sig en þau komu að íbúðinni. Svo teiknuðu þau voða sætt þakkarkort handa mér með sjálfsmyndum af sér :)
Bíllinn er ennþá bilaður svo ég fæ nóga hreyfingu þessa dagana. Er að kenna í Borgartúni á morgnana og labba þangað (bara svona 15 mínútur) klukkan 12 rölti ég til baka á Hlemm og tek strætó í Hafnarfjörðinn á skrifstofuna sem er á besta stað í miðbænum. Svo er það auðvitað strætó til baka að Klambratúni enda stutt að labba þaðan heim. Í morgun bættist við að ég þurfti fyrst að fara heim frá Beth áður en ég fór í Borgartúnið og svo að koma við heima áður en ég fór í Hafnarfjörðinn og það í þessu hífandi roki (og smá rigningu) sem er í dag.
Nú vona ég að sá stutti fari að láta sjá sig, hann átti að koma 18. apríl svo það hlýtur eitthvað að fara að gerast. Ég set inn mynd af honum við fyrsta tækifæri þegar hann er fæddur.

05 apríl 2009

Vordísin komin :D

Já hún kom með vorið til mín frá Danmörku :D Við fórum út að borða á Santa Maria í gærkvöldi og erum að hafa það huggulegt saman að dönskum sið í dag. Á morgun byrja ég svo í 8 - 4 vinnunni minni. Það verður skrítið að vera komin með eigin skrifstofu og reglulegan vinnutíma eftir óreglu síðustu 7 ára. Staðsetningin er alveg frábær í miðbæ Hafnarfjarðar og húsið gamalt og kósý. Strax eftir páska byrja ég svo að kenna atvinnulausum útlendingum á vegum Vinnumálastofnunar.

Við Beth fórum til ljósmóðurinnar á föstudaginn og allt er klárt fyrir komu litla mannsins. Hann er búinn að skorða sig vel og getur komið hvenær sem er. Ég er að vona að hann drífi sig í heiminn um páskana og Beth er að sjálfsögðu farin að bíða með óþreyju enda kúlan orðin stór og fyrirferðamikil.

Ég á von á hefðarfrú mikilli frá Mexíkó í heimsókn næstu daga. Mamma hans Ricardo er í heimsókn á landinu og að sögn Tamöru tengdadótturinnar er hún með mikið hreinlætisbrjálæði og býr þar að auki í risavillu með þjónustufólk á hverjum fingri. Systir hennar kom með en hún er að bjóða sig fram sem borgarstjóri í borginni sem þau koma frá. Þær systur tala bara spænsku svo Ricardo verður að vera túlkur. Ég er að reyna að missa mig ekki alveg í að þrífa í hengla fyrir heimsókninna (eins og Tamara gerði), þær verða bara að lifa af rykið hjá mér hahahahaha. Ég vona bara að nágrannarnir verði á rólegu nótunum á meðan hehehehe

29 mars 2009

Á fæðingarvaktinni

Ég er á fæðingarvaktinni þessa dagana. Verð líklegast viðstödd þegar strákurinn hennar Beth fæðist (áætlað 18. apríl) er nefnilega staðgengill Önnu Gerðar hérna í bænum. Að sjálfsögðu er ég farin að bíða eins og Beth og í nótt dreymdi mig að ég væri að gera allt klárt fyrir heimafæðingu, var að tína til hrein lök og sjóða vatn eins og í gamla daga hahahaha. Ég ætlaði sko að vera sjálf ljósmóðirin :) Ég hef tvisvar verið viðstödd fæðingar og hlakka mikið til. Það er svo stórkostlegt að upplifa lítið barn fæðast í heiminn :D Beth ætlar að stefna á Hreiðrið enda fær hún að vera þar í 24 tíma eftir fæðingu. Á fæðingardeildinni er manni víst hent út eftir 2 - 3 tíma ef allt er eðlilegt. Það hefur aldeilis breyst frá því ég átti Gunnar Björn á Fæðingarheimilinu, þá mátti ég ekki einu sinni stíga í fæturna fyrstu tvo dagana. Það má nú alveg fara milliveginn finnst mér.

25 mars 2009

Á uppleið

Ég er búin að vera eins og hlýðinn hundur síðustu daga. Fer samviskusamlega í sund eða ræktina daglega og hringi í Hrönn á hverju kvöldi að gefa skýrslu. Fannst vissara að fá eitthvað aðhald til að hjálpa mér að komast í rútínu og bað því Hrönn að taka það að sér að fylgjast með mér. Ég finn strax smá mun á mér.
Í morgun var mér boðið 75% fast starf hjá Jafnréttishúsi í Hafnarfirði sem felst í því að halda utan um íslenskukennsluna. Ég byrja með íslenskunámskeið fyrir atvinnulausa útlendinga eftir páska og verð með tvo hópa. Það er sem sagt næg vinna framundan hjá mér og þá skiptir máli að halda dampinum í hreyfingunni svo ég hafi nú orku í allt þetta. Ég er samt ekkert hætt við doktorsnámið en fresta því kannski eitthvað.

22 mars 2009

Endurhæfing

Ég er komin í markvissa endurhæfingu til að komast yfir síþreytuna. Fór til læknis í vikunni sem sagði ekkert annað duga ef ég ætti að ná mér aftur, þetta væri einskonar andleg þreyta í kjölfar taugaáfallsins sem ég fékk fyrir nærri tveimur árum.Fólki gengi oft erfiðlega að ná sér aftur á strik þegar það lendir í þessu. Í gær var fyrsti dagur í endurhæfingu og byrjaði ég á því að fara í sund, rétt slefaði 200 metrana sem er hrikalegt miðað við hvað ég hef verið vön að synda. Kom svo við í Bónus á heimleiðinni og verslaði grænmeti. Bjó mér til þennan líka góða hummus með grænmetinu nammmmi. Sennilega var þetta meira að segja heldur mikið fyrir mig því ég lá alveg bakk það sem eftir var dags. Hefði alveg eins getað verið að ljúka maraþoni miðað við líðanina. Flökurt og með verki um allan skrokk, lá bara og hlustaði á tónlist allt kvöldið því ég gat hreinlega ekki reist höfuð frá kodda. Þegar mér tókst að safna kröftum til að skreiðast inn í rúm þá rotaðist ég næstu 12 tímana. Er á leiðinni í sund aftur en er að hugsa um að fara bara 150 metra til öryggis því ég er ennþá frekar búin á því eftir gærdaginn.
Kunningjakona mín sem á litla líkamsræktarstöð var svo yndisleg að gefa mér 10 tíma í bekkina sína og ætlar að hjálpa mér að komast yfir erfiðasta hjallann. Ég fæ nudd og alles hjá henni og hlakka til að fá sjálfa mig aftur til baka.

17 mars 2009

Góðir gestirLitli frændi hann Eldar Bóas kom í heimsókn með foreldrum sínum og Beth frænku. Að sjálfsögðu þurfti Beth að æfa sig aðeins áður en litli strákurinn hennar kemur í heiminn í apríl :D
Ég bakaði auðvitað pönnukökur í tilefni dagsins og sófagesturinn minn frá Bandaríkjunum tók vídeómynd af íslenskum pönnukökum til að sýna vinum sínum hvernig þær eru framreiddar.

08 mars 2009

Undur náttúrunnar
Alveg er það nú ótrúlegt hvað íslenskar jurtir eru öflugar. Ég er með krónískar kinnholsbólgur sem hafa lengi verið að gera mér lífið leitt og gert það að verkum að ég vakna alltaf þreytt á morgnana sama hvað ég sef lengi. Ástæðan er kolstíflað nef og partur af morgunverkunum verið miklar snýtingar. Í vikunni fékk ég send þurrkuð vallhumalsblóm frá mömmu og bjó mér til te úr þeim fyrir svefninn. Þau stórkostlegu undur gerðust að í fyrsta skipti í marga mánuði og ja eiginlega mörg ár, vaknaði ég úthvíld og ekki vottur af nefstíflu!! Þvílíkur munur að geta andað alla nóttina og nú eru allar morgunsnýtingar úr sögunni. Ég hreinlega trúi þessu varla. Nú verður sko farið á stúfana í sumar og tíndir bílfarmar af þessum töfrablómum.
Félagslífið hefur verið með miklum blóma hjá mér þessa vikuna. Á fimmtudagskvöld var ég boðin út að borða með hópi tungumálakennara frá Belgíu, Finnlandi, Ítalíu og Svíþjóð ásamt gestgjöfum þeirra í Alþjóðahúsi. Sat svo fund með þeim allan föstudaginn um tungumálakennslu, þetta er eitthvað Grundtvig samstarf sem Alþjóðahús er hluti af. Í gærkvöldi buðu Ricardo og Tamara mér út að borða á Boston. Rosalega kósý staður á Laugaveginum, maturinn alveg meiriháttar góður, ódýr og vel útilátinn.
Ég keyrði Adriënne á flugvöllinn í morgun eftir ægilega notalegar tvær vikur hjá mér. Hún var samt farin að hlakka til að koma heim og undirbúa fæðingu barnsins og að fara í vorverkin í garðinum.
Valur kemur í land eldsnemma í fyrramálið og fer aftur út seinnipartinn. Ég vona að hann fái far í bæinn annars þarf ég að keyra til Grindavíkur klukkan sjö í fyrramálið.
Ég er með aukakennslu næstu tvær vikurnar og grunnskólafræðslu svo það verður nóg að gera hjá mér í mars. Þar að auki er fullbókað af sófagestum þennan mánuð.

01 mars 2009

Öppdeit

Hummm ég er ekki alveg að standa mig í bloggskrifum.
Síðasta mánudag fór ég með fræðslu um fjölmenningu og fordóma í 9. bekk í fyrsta grunnskólanum af sjö. Það gekk bara nokkuð vel fannst mér, ég var með þrjá bekki í röð sem allir voru mjög ólíkir. Fyrsti var afskaplega "krefjandi" eins og kennararnir orðuðu það en mér fannst þau nú bara mjög skemmtileg þó þau væru ansi lífleg hahahaha. Adriënne vinkona mín er hjá mér núna og er að leiðbeina mér í sambandi við umsókn um doktorsnám og styrki í Danmörku. Ég finn að með hækkandi sól kemur aukin orka í mig og er bara orðin nokkuð spennt að takast á við þetta. Það var svo yndislegt veðrið í gær að ég fékk mér göngutúr í bæinn og kíkti í Kolaportið. Þar úði allt og grúði af fólki og varningi en ég lét mér nægja að kaupa fjallagrasaflatbrauð eins og venjulega þegar ég lít þarna inn.
Valur er að fara á sjóinn á þriðjudaginn, fékk afleysingatúr á þessum fína línubát frá Grindavík. Eitthvað annað en ryðdallurinn sem hann var á um daginn.

18 febrúar 2009

Ljóðaslamm Bríetar


Skotta

Skotta hún er skrítið skott
skoppar mjög svo vel
hoppar, skoppar, glettir glott,
sér um að ég frjósi ekki í hel.

Skarlett

Skarlett hún er svört og smá
borðar hvað sem er
segir voða sjaldan mjá
enda gömul er.

Það er ekki amalegt að fá gesti í heimsókn sem þakka fyrir sig í bundnu máli :)Þær mæðgur Hrefna, Bríet og Rán brugðu sér af bæ og gistu hjá mér eina nótt.

04 febrúar 2009

Kreppurof?

Dauðaþögn síðustu mánaða hefur verið rofin af LOFTPRESSU hér fyrir utan. Ég rauk á fætur og út í glugga til að athuga hvort svo ólíklega skyldi vilja til að framkvæmdir væru hafnar að nýju við stúdentagarðana hér hinum megin við götuna. Að sjálfsögðu reyndist svo ekki vera og þeir verða líklegast áfram fjarlægur framtíðardraumur. Mér sýnist þetta vera starfsmenn Reykjavíkurborgar að bauka við einhvern tittlingaskít, svona klukkutíma verk sjálfsagt sem enginn verður feitur af.
Valur fór á sjóinn í gær á "nýjan" bát. Ekki leist okkur á blikuna þegar við mættum á bryggjuna í Hafnarfirði. Annan eins ryðdall höfum við ekki séð ef frátaldir eru rússneskir togarar sem stundum hafa dagað uppi mánuðum saman einmitt í Hafnarfjarðarhöfn. Valur leit þó jákvæðum augum á þetta, hann gæti alltaf sagt barnabörnunum söguna af því þegar hann hér um árið var á honum Skafta, það var nú aldeilis skítadallur krakkar mínir!

Litli sófagesturinn minnSvona líka fyrirmyndar gestur, afskaplega skrafhreifin og brosmild lítil dama :D Ég hefði svo sannarlega verið til í að hafa hana lengur hjá mér en þær mæðgur tóku rútuna norður í morgun. Í kvöld kemur svo kona frá Japan til mín. Fyrsti Japaninn sem gistir hjá mér svo ég hlakka til. Þar að auki talar hún víst ekki mikla ensku hahahaha en ég er nú vön að tala við "mállaust" fólk ;)

01 febrúar 2009

Grátt eða blátt eða kannski ekki neitt

Það má reikna með að gráu hárunum fjölgi verulega á höfðinu á mér á næstunni. Ég keypti að vísu lit í gær til að flikka upp á útlitið en varð heldur betur um þegar ég sá verðið. Síðast þegar ég keypti hárlit kostaði hann um 1100 kr en er núna á tæpar 2.600 kr !!! Daníel stakk upp á því að ég krúnurakaði mig bara og hver veit nema það verði næsta sparnaðaraðgerð hjá mér.
Í dag kom til mín yngsti sófagestur sem ég hef hýst og mun varla hýsa þá yngri. Þetta er lítil þriggja og hálfsmánaðargömul stelpa og algjört krútt. Mamma hennar er þýsk en pabbi hennar frá Gíneu. Hún er hérna með mömmu sinni sem hefur verið á Íslandi oftar en einu sinni og er núna á leiðinni norður á Sauðárkrók að heimsækja vinafólk. Þær mæðgur verða hjá mér í þrjár nætur og ég er himinlifandi yfir heimsókninni.
Valur tók sig til og gekk á Esjuna í gær. Hann týndi vettlingunum, húfunni, sólgleraugunum og batteríunum úr myndavélinni í ferðinni. Ég þakkaði bara fyrir að hann komst heilu og höldnu niður af fjallinu. Hann fer út á sjó á morgun á einhvern ísfisktogara úr Hafnarfirði.

28 janúar 2009

Fastir liðir eins og venjulega

Í gær byrjaði ég aftur að kenna. Er með tvö námskeið í röð frá 17 - 20.20 þrisvar í viku. Loksins segi ég nú bara, þetta er hreinlega skemmtilegasta starf sem ég hef unnið við og ég var full eftirvæntingar að byrja. Ég er búin að vera með einhverja undarlega pest í næstum tvær vikur en sem betur fer virðist hún vera að fjara út. Ennþá er ég ekki alveg laus frá háskólanum, þeir sem féllu hjá mér þar þurftu að skila aftur lokaskýrslum sem ég hef verið að fara yfir og þarf að skila af mér á föstudaginn. Nú verð ég að setjast niður og skrifa grein upp úr ritgerðinni minni á íslensku og ensku. Þessi pest setti strik í reikninginn en nú dugir ekki annað en að koma skipulagi á daglega lífið.
Ég held að veturinn sé kominn fyrir alvöru, það kyngir niður snjó og ég sé fram á tröppumokstur næstu daga.

20 janúar 2009

Ný stefna

Jæja þá er ég búin að taka ákvörðun um að sækja um doktorsnámið í Danmörku. Adriënne vinkona mín kemur í febrúar og verður hjá mér í 3 vikur, hún er með þetta allt á hreinu hvernig umsóknarferlið er svo ég fæ hana til að aðstoða mig. Svo er bara að krossa fingur og vona það besta. Ef ég kemst inn þá fæ ég laun frá skólanum sem eru víst bara ágæt (rosalaun í íslenskum krónum auðvitað).
Eins og nærri má geta þá hefur dregist saman í íslenskukennslunni en ég er þó víst með þrjú örugg námskeið hjá sama fyrirtækinu og ég hef verið að kenna hjá sl. ár. Fékk að vita þetta síðasta föstudag en er ekki byrjuð ennþá. Kannski eins gott því ég er búin að vera með einhverja lumbru í mér frá því á laugardag. Lét það þó ekki aftra mér frá því að heimsækja Amal upp á Akranes í gær og gisti hjá henni. Lærði nýja bráðholla uppskrift og að sjálfsögðu fljótlega og ódýra. Ég er bara að verða búin að viða að mér þó nokkrum slatta af arabískum uppskriftum frá henni og fæ að sjálfsögðu einkakennslu :) Gunnar Björn er svo notaður sem tilraunadýr þegar ég prufukeyri uppskriftirnar.

10 janúar 2009

Ameríski mánuðurinn

Ég kveikti á netsjónvarpi enska Aljazeera í kvöld til að horfa á fréttir frá Gaza. Þið getið ímyndað ykkur undrun mína að sjá Geir Haarde á skjánum!! Því miður var það ekki vegna þess að Ísland hefði slitið stjórnmálasambandi við Ísrael heldur var þáttur um fjármálakreppuna á Íslandi. Ég náði nú bara síðustu mínútunum en þetta virtist nokkuð ítarleg umfjöllun þar sem var m.a. rætt við Geir, Hörð Torfa, konu sem ég náði ekki nafninu á, Sverri Ólafsson og einn mann í viðbót. Þó nokkrar landslagsmyndir voru sýndar sem skila sér kannski í nokkrum túristum með fulla vasa af gjaldeyri. Talandi um túrista, það er heilmikil traffík á sófanum hjá mér þessa dagana og svo virðist sem janúar ætli að verða ameríski mánuðurinn því 4 af 5 eru Bandaríkjamenn.

04 janúar 2009

KreppuklippingValur ákvað að spara sér 3.500 kall í klippingu og þeir Daníel hjálpuðust að við rúninguna á Gamlárskvöld og tókst bara vel upp. Ég býst við að gera það sama enda orðin vön því. Maður hefur nú sjaldan haft efni á þeim lúxus sem fátækur námsmaður enda er ég orðin bara nokkuð lúnkin við snyrta sjálf á mér hárið.