30 desember 2007

Stolt guðmóðir




Þetta er hann Baldur Logi sem varð guðsonur minn í dag. Hann var nú orðinn soldið lúinn eftir daginn og fékk sér blund í fangi guðmóðurinnar. Hann er algjör engill og tók öllu umstanginu með stóískri ró.

29 desember 2007

Mér vera þig velkomna...

Eitthvað á þessa leið hefur það litið út þegar ég ætlaði að slá um mig á ítölsku. Eins og Roberto svaraði þá er Babelfish alveg glatað þýðingarforrit. Ég hef nú samt getað notað það til að stauta mig fram úr því sem Rafael vinur minn skrifar á spænsku. Nú veit ég sem sagt að það er ekki Rafael sem er glataður í spænsku (þó ekki væri, enda móðurmál hans) heldur er þýðingarforritið svona lélegt ha ha ha. Roberto er ítalskur sófagestur sem ætlar að passa kettina og íbúðina fyrir mig á meðan ég er í Danmörku. Hann er á leiðinni í líffræðinám í HÍ og vantar húsnæði í einhverja daga eftir að hann kemur.

Talandi um kisur. Ég hef verið að veigra mér við því að blogga um hana Snædísi mina en nú held ég sé kominn tími á það. Ég tók þá erfiðu ákvörðun fyrir u.þ.b. mánuði síðan að láta svæfa hana eftir að hún var byrjuð að taka upp á því að æla alltaf lyfjunum. Ég var búin að verða vör við ælur hér og þar í smátíma og skildi ekkert í þessu, hélt að maturinn væri að fara eitthvað illa í þær. Einn daginn varð ég svo vör við að mín fór bara beint fram og ældi eftir að ég hafði gefið henni lyfin. Þá fór ég nú að fylgjast með frökeninni og jú jú hún var eins og versta bulimia og ældi umsvifalaust eftir að hafa fengið lyfin. Þetta þýddi að hún var aftur byrjuð að pissa hér og þar og var þar að auki í stöðugri paranoju gagnvart fólki. Ég sá það að þetta var ekkert líf fyrir litla skinnið og ekki um annað að ræða en að láta hana sofna svefninum langa. Ég grét svo mikið á meðan hún var að sofna að Helga dýralæknir varð hálfmiður sín og er þó sjálfsagt ýmsu vön. Í skjóli nætur tók ég gröfina hennar í blómabeðinu í garðinum mínum við hliðina á honum Amor. Hún hélt á sínum tíma utan um hann í heilan dag þegar hann var að deyja enda voru þau óaðskiljanleg. Mér skilst að maður megi ekki grafa gæludýr í húsgörðum en er sko nokk sama. Þetta blómabeð er minn einkagrafreitur fyrir mínar kisur. Scarlet hefur gengið Skottu í móðurstað eftir að Snædís fór og sýnir henni einstakt umburðarlyndi og ástúð.

26 desember 2007

Dásemdarlíf

Þvílíkir dásemdardagar og hvít jól að auki. Kertaljós, konfekt og ljúf tónlist. Þetta gerist ekki betra. Ég fékk svo ansi góðar jólagjafir og hef verið að njóta þeirra í gær og í dag. Í gærkvöldi var Johnny Cash kvöld hjá mér sem endaði á því að ég horfði á Walk the Line sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í dag var ég að hlusta á Mugison og Hjálma sem ég hafði pantað í jólagjöf frá sonum mínum. Ég ætla að geyma mér að njóta jólagjafarinnar frá systrum mínum sem er borvél með öllum græjum. Hún verður samt tekin í gagnið mjög fljótlega því hér hafa beðið myndir mánuðum saman eftir því að komast upp á vegg. Svo get ég líka notað hana til að skrúfa með, algjört þarfaþing. Á morgun byrjar svo vinnan aftur, ég á nú eftir að sjá hvernig mér gengur að vakna í fyrramálið þar sem svefntími hér á bæ er stilltur á jólasvefn. Ég er allavega vel úthvíld.

25 desember 2007

Gleðilega hátíð!

Í dag er besti dagur ársins hinn hefðbundni náttfatadagur. Ég dröslast fram úr og fæ mér að borða en síðan er skriðið aftur upp í með bók meðferðis. Ég hef nokkrar bækur að lesa svo ég er vel birg þetta árið. Sem betur fer á ég ekki sjónvarp sem glepur mig frá bókalestrinum. Annars einkennast þessi jól af mikilli innri ró hjá mér sem lýsir sér í því að ég hef aldrei verið jafn afslöppuð með þrif og fyrir þessi jól og viti menn jólin komu fyrir því!
Á Þorláksmessukvöld rölti ég Laugaveginn eins og alltaf, þetta er ein af mínum hefðum enda bý ég rétt hjá honum. Það er alveg ótrúlegt hvað veðrið er alltaf gott þetta kvöld. Í ár fannst mér miklu meiri ró yfir fólki en oft áður en kannski var það bara ég sem var rólegri. Ég tók eftir því að barðastórir hattar eru í tísku hjá körlum á miðjum aldri og upp úr. Sveitarstjórinn í Hvalfjarðarstrandarhreppi var ansi reffilegur með sinn hatt og í brúnum frakka.
Núna sitjum við Skotta við stofugluggann og horfum á snjóinn mulla niður í kyrrðinni úti. Fuglarnir syngja í trjánum í garðinum, nokkrar gæsir flugu gargandi yfir áðan og meira að segja krunkaði hann krummi fyrir okkur.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og innri friðar.

21 desember 2007

Hjúúúkkkk!!!!!!!

Þá er þessi törn á enda. Ég veit nú orðið varla hvað ég heiti en til allrar hamingju þá er ég búin með öll jólainnkaup og get því bara dúllað mér hér heima um helgina. Mér til mikillar ánægju þá er HÍ bara grand á því og gaf okkur jólagjöf, eðalkonfekt frá Belgíu. Nei ég kíkti ekki í pakkann! Kassinn er bara með slaufu utan um svo ég komst ekki hjá því að lesa utan á hann. Mér dettur náttúrlega ekki í hug að opna hann fyrr en á aðfangadagskvöld.

Ég er með einn sófagest fram á sunnudag, það er hann Harry frá Ástralíu sem verður 19 ára í byrjun janúar. Alveg einstaklega kurteis og ljúfur strákur sem er gaman að hafa í heimsókn. Hann fór á kaffi París í kvöld að hitta eitthvað fólk og er víst búinn að mæla sér mót við Val og Daníel á Gauknum seinna í kvöld á einhverja hiphop tónleika. Ég á nú eftir að sjá hann vakna sjö fyrramálið til að þrælast Gullna hringinn í rútu ha ha ha.




10 desember 2007

Jólagosið

Bara svo þið vitið það þá hefur allt leikið á reiðiskjálfi hjá Upptyppingum síðustu tvo daga. Svo sem ekkert stórir skjálftar en alveg mýgrútur af þeim. Varð bara að deila þessum skjálfta áhuga mínum með ykkur. Ég gæti allt eins trúað því að von sé á jólagosi og þá á ég ekki við kóklestina frá Vífilfelli.

Á fjórum fótum

Bakið á mér gaf sig endanlega í dag. Ég skreiðist á fjórum fótum ja eða höndum og fótum eiginlega, en næ að rísa á fætur af og til. Er stokkbólgin og dofin í mjóbakinu og langt niður á rasskinnar. Búin að maka á mig voltaren kremi og hakka í mig íbúfen fyrir svefninn. Ekki mjög heppilegur tími að lenda í þessu en hvenær er svo sem heppilegur tími? Er í prófyfirsetu í HÍ næstu tvær vikurnar og var að fá 32 möppur frá nemendum mínum þar, sem þýðir að ég þarf að sitja næstu vikurnar við að lesa. Er svo að klára íslenskukennsluna í Plastprent og útskrifa þar á fimmtudaginn. Mon Dieu!!!

09 desember 2007

Stuð hjá þessum

Brúsi og Pippilínus ættu að sjá þennann snilling!!

Laufabrauð og magadans

Í gær var bakað laufabrauð hér í Holtinu. Sem höfuð fjölskyldunnar hér á höfuðborgarsvæðinu þá sé ég um að smala börnum og systkinabörnum saman til mín til að halda við þessari skemmtilegu hefð. Því miður komust ekki allir, Valur var út á sjó og Daníel þurfti að vinna. Að sjálfsögðu er notast við uppskrift frá Hafursá sem er miklu betri en þessar búðarkökur. Ég var því miður í prófyfirsetu til klukkan eitt þannig að við byrjuðum ekki fyrr en seinnipartinn. Við látum okkur nú nægja að gera eina uppskrift og eitthvað var ég kærulaus við flatninguna í ár því við fengum tíu kökum færri en í fyrra. Í staðinn var samt fullt af afgöngum sem er heldur ekki slæmt. Í dag ákvað ég að hafa náttfatadag og njóta þess að vera í fríi með kisunum mínum. Ég dundaði mér þó aðeins við hilluþrif á milli þess sem ég tók nokkrar mjaðmasveiflur enda að fara að læknisráði. Kolbrún grasalæknir setti mér nefnilega það fyrir að dansa magadans á hverjum degi, ekki slæmt læknisráð það og ég mæli eindregið með því. 

06 desember 2007

Máttur Norðurljósanna

Sarah frá Alaska fræddi mig á því að Japanir flykktust á hennar heimaslóðir á veturna í leit að Norðurljósum. Þeir munu víst trúa því að barn sem getið er í skini Norðurljósanna verði einstaklega farsælt og hamingjusamt barn. Það fylgdi þó ekki sögunni hvort þætti jafnvænlegt til árangurs að geta barnið undir þaki hótelsins. Þá veit maður hvað allir þessir Japanir eru að gera hérna í kringum áramótin, þeir halda kannski að flugeldarnir séu Norðurljós.

04 desember 2007

Gaman gaman!!

Ég er aldeilis að njóta lífsins þessa dagana með sófagestunum mínum. Karine hin franska er algjör himnasending og við erum búnar að hafa það frábært saman. Fórum út á Gróttu á sunnudaginn að leika okkur í vindinum og sandinum og í gær tók ég mér frí vegna veðurs til að fara með henni upp að Tröllafossi í Mosfellsdal. Skelltum okkur svo í sund og heitu pottana þegar ég var búin að kenna. Í fyrramálið ætlum við að fara í Bláa Lónið saman og Sarah frá Alaska sem kom í morgun ætlar að slást í för með okkur. Mér veitti ekki af að taka mér smáfrí því í næstu viku byrjar mikill vinnutörn hjá mér fram til 21. desember. Karine fer til Akureyrar á fimmtudagsmorguninn og ég á sko eftir að sakna hennar við skemmtum okkur svo vel saman. Tökum morgunleikfimi fyrir letingja á morgnana og eldum saman kvöldmat. Í gærkvöldi var hún með sýningu fyrir mig á listaverkunum sínum sem hún er að fara að sýna á Akureyri. Hún kom með ææææðislega góða osta handa mér og ég á heimboð hjá henni í París. Sarah kom í morgun og stoppar fram á fimmtudagsmorgun, hún er að flakka um heiminn og fer næst til Þýskalands. Allgjör snilld þessi sófaskipti.