25 september 2008

Er á lífi!

Ég þori ekki annað en að gefa frá mér smá lífsmark, fólk er farið að hafa áhyggjur :-) Ég er enn að ströggla við ritgerðina en NÚNA er loksins farið að sjá fyrir endan á þessu. Ætti að ná að klára um helgina. Ég er líka byrjuð á fullu í kennslunni og er komin með þrjá hópa alla eftir hádegi frá mánudegi til fimmtudags. Á föstudagsmorgnum er ég með hópinn í háskólanum og ætla að láta þetta duga. Fínt að hafa morgnana til að undirbúa kennslu svo ég fái kvöldin frí.

Heimilishjálpin mín er búin að fá vinnu (bæði tvö) og íbúð og flytja sennilega inn á morgun. Þau eru komin til Íslands til að setjast að fyrir fullt og allt og ég ætla að sjá um að kenna þeim íslensku þegar ég verð búin. Ég er náttúrulega búin að tryggja mér "barnabörn" þegar þau koma og ætla að vera íslenska amman :-D 

Valur sá um matseldina í kvöld og steikti snitsel sem beið mín þegar ég kom heim úr vinnunni. Hann langaði í brúnaðar kartöflur með og þessi fyrsta tilraun hans tókst bara ágætlega. Ég var ekki einu sinni nálægt til að hjálpa honum, sem betur fer því ég tek alltaf stjórnina. Hann segist vera kominn með mission, að elda reglulega. Í fyrradag var það bolognese sem er hans spesíalitet. 

Ég lofa því að um leið og ég er búin að skila þá verður það tilkynnt hérna stórum stöfum :-)

Já og Ólöf og Benni, TIL HAMINGJU MEÐ BARNABARNIÐ!!!!!!!

17 september 2008

Au pair

Ég er komin með mexíkóska heimilishjálp, tvöfalda meira að segja. Þetta eru ung hjón sem eru að flytja til landsins og verða hjá mér fyrst um sinn. Hér verður sem sagt mexíkóskur matur á borðum á næstunni og séð um uppvask og þrif fyrir mig jibbbíííí!!!!!!!

Skrifin ganga bara nokkuð vel og 98% öruggt að ég skili á mánudaginn. Í gær leit út fyrir að ég væri að fá pest var með hálsbólgu og dúndrandi höfuðverk. Sauð mér fjallagrasaseyði og dældi í mig C vítamíni og sólhatt og eftir góðan nætursvefn er ég allt önnur. Guði sé lof að þetta er að verða búið!

14 september 2008

Myrkraverk

Það er ekki ljós á einum einasta ljósastaur í götunni hjá mér og má sennilega kenna um framkvæmdunum milli Einholts og Þverholts. Þar sem ekkert hefur verið að gerast í þeim síðustu mánuði þá lítur út fyrir að við verðum ljóslaus lengi enn sem mér líst ekkert á. Í gærkvöldi var ég á leið út í sjoppu í myrkrinu og sá móta fyrir stórum og að því er mér virtist, frekar hoknum manni framundan mér. Ég gekk auðvitað rösklega enda ekkert vel við að paufast þarna í myrkrinu. Sem ég kem upp að hlið mannsins heyrist hátt stutt urr frá honum og trúið mér hjartað tók tíu aukaslög og hárin risu á höfðinu. Tunglið var fullt og vel er þekkt að þá fara varúlfar á kreik. Fyrstu viðbrögð voru því að snúa við og flýja öskrandi heim en sem betur fer harkaði ég þó af mér enda kom í ljós að þetta var bara nágranni minn sem er langt frá því að líkjast varúlfi og urrið kom frá smá kjölturakka kvikindi sem hann var með í kvöldgöngu :)

09 september 2008

Á fleygiferð

Ég náði góðri hvíld um helgina og svaf fram að hádegi í gær. Allt annað líf og nú flæðir textinn frá mér jibbbíííí :)

06 september 2008

Í kapp við tímann

Jæja ég fékk frest í rúmar tvær vikur og er ekkert lítið fegin. Þá er bara að ná að klára áður en líkaminn gefur sig aftur. Ég er farin að ganga verulega á mig og hef lítið úthald þannig að allt stefnir í sömu átt og fyrir ári síðan með tilheyrandi handskjálfta og svima. Ég er ákveðin í að klára þetta svo ég geti farið að vinna í að ná heilsunni aftur. Verð bara að vera dugleg að taka djúpslökun inn á milli, það virkar alveg ótrúlega vel. 

Fékk bréf frá Davíð frænda í gær, verðum víst að fara að hysja upp um okkur og koma út tilkynningu um Rauðholtsættarmótið. Hann óskaði eftir sjálfboðaliða í að halda utan um skráningargjöld og að sjálfsögðu bauð ég mig fram í það. Mér líst miklu betur á það en að vera í matar- eða skemmtinefnd, annars skilst mér að austanfólk ætli að sjá um matinn. Það toppar nú samt örugglega ekki matinn á Þorkelsmótinu!!

Valur var að byrja í kvöldskólanum í FB og tók bara einn áfanga á fyrstu önninni svona til að aðlagast skólaumhverfinu á ný. Það er ekkert auðvelt að byrja aftur eftir allt niðurbrotið í grunnskólanum. Ég verð enn bara reið þegar ég hugsa um þá martröð og legg ekki í að byrja að skrifa það sem mér finnst um íslenska skólakerfið því það yrði svo langur reiðipistill. Núna ætla ég að skríða snemma í háttinn og sofa út í fyrramálið svo ég verði í góðum vinnugír.

Góða helgi!