31 júlí 2007

Eeiiinnn.....hættu að telja þetta er ÉG

Ég var að telja saman hversu margir úr stórfjölskyldunni minni eru á MSN hjá mér og þau eru orðin 32 og þetta er bara fólk úr móðurfjölskyldunni! Ef einhver sem þetta les heldur að hann sé ekki kominn inn hjá mér þá láttu mig vita. Takmarkið er að ná öllum inn sem nota MSN í fjölskyldunni.

26 júlí 2007

Kötturinn með ljáinn

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is í dag þar sem sagt er frá kettinum Óskari sem býr að mér skilst á elliheimili í Bandaríkjunum. Hann hefur það fyrir sið að hreiðra um sig við hliðina á einhverju gamalmenninu og undantekningarlítið þá deyr viðkomandi nokkrum klukkustundum síðar. Starfsfólkið er farið að taka það mikið mark á þessum heimsóknum hans að það gerir fjölskyldu "þess dauðadæmda" viðvart þegar það sér að Óskar er mættur svo þau geti eytt síðustu klukkutímunum saman. Ég verð að viðurkenna að ef Snædís tæki upp á að kúra hjá mér þá myndi mér ekki verða um sel því í fyrsta lagi þá er hún enginn kúruköttur, enda skíthrædd við að koma nálægt mér eftir öll lyfin sem ég er búin að pína ofan í hana. Í öðru lagi þá gerði hún nákvæmlega þetta þegar Amor minn dó. Það var eins og hún vissi að hann væri að fara. Þegar ég fór í vinnu um morguninn þá lá hún og hélt utan um hann og var enn í sömu stellingu þegar ég kom heim. Um leið og ég kom inn til þeirra þá stökk hún fram en Amor minn dó 10 mín. seinna í fanginu á mér.
Annars er það af henni að frétta að hún er búin að vera lyfjalaus í tvær vikur og hegðar sér enn eins og eðlilegur köttur, ég krosslegg fingur!

22 júlí 2007

Öskjuhlíð og Harðaflugan ógurlega

Ég er byrjuð að þjálfa mig fyrir Esjugöngu ja eiginlega líka bara til að auka orkuna mína. Tvo daga í röð er ég búin að fara í rösklega göngu í Öskjuhlíðinni og komið endurnærð heim. Að sjálfsögðu get ég ekki farið troðnar slóðir frekar en venjulega og klöngrast því á milli trjáa og steina enda er það bara betra fyrir líkamann. Ég þarf líka að fylgjast með plöntum og trjám og fann eitt blóm í kvöld sem ég var ekki viss um hvað heitir fyrir utan að það væri einhver depla. Fletti því upp þegar ég kom heim og jú jú þetta er Hárdepla.
Annars varð mér hugsað til göngutúrs í Öskjuhlíðinni fyrir þó nokkuð mörgum árum með manni sem ég var að kynnast og pínlegu atviki því tengdu. Eftir göngutúrinn bauð ég honum í kaffi heima og sem við sitjum og spjöllum rek ég þá ekki augun í flugu á handleggnum á mér. Ég ætlaði að strjúka hana af mér þegar ég sá mér til skelfingar að þetta var Harðaflugan ógurlega á fleygiferð upp handlegginn á mér. Í miðju samtali stekk ég sem sagt á fætur æpandi og öskrandi, berjandi mig alla að utan og djöflast í hárinu á mér eins og geðsjúklingur. Stekk síðan gólandi inn á bað, ríf mig úr fötunum og undir sturtuna. Eftir dágóða stund kem ég fram heldur kindarleg á svipin og mér til undrunar situr maðurinn ennþá við borðið, að vísu með skelfingarsvip á andlitinu ha ha ha ha ha ha!!

18 júlí 2007

Ofvirkir ánamaðkar

Fyrir þá sem það ekki vita þá er kaffikorgur afskaplega góður í garðinn því ánamaðkarnir virðast sólgnir í hann. Einar A sagði mér einhvern tíman að á bæ einum í Fljótsdal hefði húsfreyjan alltaf hent korginum út um eldhúsgluggann og þar var hægt að ganga að stórum og bústnum ánamöðkum vísum fyrir veiðiferðir. Ég fór að velta þessu fyrir mér eftir að hafa séð heimildamynd um kaffi í sjónvarpinu um daginn. Í henni var sagt frá því að geitasmali nokkur hefði uppgötvað kosti kaffis eftir að hafa séð geiturnar sínar svona eiturhressar og sprækar þegar þær voru búnar að gæða sér á rauðum berjum kaffitrésins. Ætli ánamaðkarnir séu svona sólgnir í kaffikorginn af því þeir verða svo hressir af honum? Aha! Þá hljóta þeir að afkasta miklu meira í jarðvinnunni og éta meira sem er þá ástæðan fyrir hvað þeir verða feitir og stórir.

Nú býð ég öllum ánamöðkum hverfisins í kaffiveislu og hendi korginum í óræktarbeðin í garðinum mínum. Sem meðlæti fá þeir fjallagrasaúrgang og tel ég nokkuð víst að næsta sumar þurfi ég ekki að vinna heldur geti framfleytt mér á sölu gæðaánamaðka plús það að ég verð komin með þessa fínu mold í beðin.

12 júlí 2007

Komin heim í Rónaholtið

Ekki fékk ég neinar filmstjörnumóttökur þegar ég kom heim í kvöld. Varð að byrja á því að siga löggunni á rónagengið á neðri hæðinni og frétti að hér hefðu verið blóðug átök um síðustu helgi. Komu tveir vörpulegir lögregluþjónar áðan (tveim tímum eftir að ég hringdi!!) og voru afskaplega almennilegir. Það skyldi þó ekki ætla að endurtaka sig sama rónasagan og þegar ég bjó í Skipasundinu. Þá hringdi ég reglulega á lögguna út af Snorra gamla á efri hæðinni og tókst á endanum að koma honum í Víðines eftir gott samstarf við afar viðkunnalegan varðstjóra í lögreglunni. Mér er alveg sama þó rónar bæjarins haldi til á neðri hæðinni á meðan að þeir eru til friðs því einhvers staðar verða jú vondir að vera. En vei þeim sem raska ró minni með djöfulgangi og látum. Þá er mér að mæta grrrrrr.

08 júlí 2007

Hótel mamma og systur!

Mér finnst ég vera síborðandi þessa dagana ýmist hjá systrum mínum eða mömmu. Það besta við matinn hjá mömmu er þessi frábæru salatgarður hér úti sem er fullur af alls konar salati og grænmeti. Ég er eins og kanína í paradís þegar ég úða mig grænkálinu hennar sem er í uppáhaldi hjá mér. Það er ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við mig en ég læt nú svoleiðis smámuni ekki ergja mig of mikið. Bara það að vera í faðmi fjölskyldunnar er endurnærandi og gaman. Ég las Rauðhyltingabók sem er ein ættin mín og skildi þá hvaðan Davíð Þór hefur alla þessa hagmælsku, frá Einari á Staka-Hjalla auðvitað. Öll ömmusystkin hans og langömmusystkin mín (nema langamma) voru alveg ótrúleg þegar kom að bundnu máli. Þau skrifuðust á í ljóðabréfum og á stórafmælum þeirra systkina fór hvert þeirra með eigin kveðskap til afmælisbarnsins, alveg magnað finnst mér.
Það er verst hvað tíminn líður hratt og fimmtudagurinn næsti nálgast óðum. Hér er svo gott að vera og mig langar að heimsækja marga ásamt því að taka því rólega. Þyrfti mun lengri tíma til þess. Ætli ég verði bara ekki að reyna að koma aftur í haust. Við sjáum til.

03 júlí 2007

Skógurinn virkar vel

Komin heim í skóginn minn! Yndislegt að finna spennuna líða úr líkamanum við að sitja úti i kvöldkyrrðinni. Byrjaði á því þegar ég kom að setjast út í sólina og hreinsa blóðberg með mömmu. Síðan hefur lítil sól sést en það er allt í lagi. Pabbi og mamma fóru með okkur þrjár elstu systurnar niður á Norðfjörð í dag að heimsækja ömmu sem er enn hin hressasta þrátt fyrir að vera komin á tíræðisaldur. Ekki margar konur á hennar aldri sem búa einar heima og ég get eiginlega ekki ímyndað mér ömmu á elliheimili enda hefur hún engan áhuga á því að fara þangað.