30 ágúst 2008

Fallegu systurnar

Mikið óskaplega á ég fallegar systurdætur :D 

Gunnar Björn tók þessa mynd af þeim systrum í sumar og ég gat ekki stillt mig um að setja hana hér inn.

28 ágúst 2008

Vinnuhornið mitt

Takið eftir fallega manninum á myndinni fyrir ofan vinnuborðið mitt! Getið þið giskað á hver þetta er ;-) Ef smellt er á myndina þá stækkar hún.

27 ágúst 2008

Kóngulær

Ég er enn á lífi og geðheilsan þokkaleg. Þetta mjakast allt áfram og tekur senn enda. Valur er að vinna í Borgarnesi þessa vikuna svo ég er að mestu leyti ein heima, Ellen og Daníel koma af og til. Nú er ég farin að vinna fram eftir nóttu og sef fram að hádegi. Það er svo rólegt á nóttunni að þessi rytmi á ágætlega við mig. Draumarnir eru enn frekar spennukenndir með risakóngulóm sem hrynja úr loftinu. Mér þykir samt frekar vænt um kóngulær svo ótrúlegt sem það er og þær boða yfirleitt gott. Það er ein lítil í glugganum hjá mér sennilega að leita sér að bústað fyrir veturinn. Hún er meira en velkomin að hafa vetursetu hér enda fer lítið fyrir þessum greyjum. Jú víst er geðheilsan góð!!!!
Eftirmæli
Stuttu eftir að ég skrifaði þetta varð mér á að loka stofuglugganum. Sú litla, blessuð sé minning hennar, hafði ekki valið sér gáfulegan stað til að hreiðra um sig. Gluggafalsinn!! Hún kramdist því til bana þegar ég lokaði glugganum. Ég er með móral!

20 ágúst 2008

Hríðaverkir

Þetta ætlar að verða erfið fæðing hjá mér. Ég er með mikla hríðaverki sem eiga pottþétt eftir að aukast því útvíkkun gengur hægt. Ég er sett 5. september en vonast til að fá að ganga einhverja daga framyfir ef ég ber mig nógu aumlega.

Í gær var hringt í mig og ég beðin um að taka aftur umræðuhóp í HÍ fyrir jól. Þetta verður bara einn hópur núna svo ég ákvað að slá til ef ég fengi tímann á föstudögum kl. 10 sem var samþykkt. Það er nefnilega engin íslenskukennsla á þeim dögum en hún fer líka að byrja. Ég reikna með að taka eitt kvöldnámskeið tvisvar í viku plús svona tvö dagnámskeið. 

ÆÆÆÆÆÆ þar kom hríð!!!!

12 ágúst 2008

Krækiber og hænur

Mig er búið að dreyma óskaplega mikið upp á síðkastið enda næ ég engum djúpsvefni. Er komin í vel þekkt spennuástand sem fylgir prófum og verkefnaskilum, stöðugt adrenalínflæði. Sem sagt draumarnir. Tvisvar hefur mig dreymt að ég væri svona líka svakalega hárprúð. Með þykkt og mikið sítt hár, meira að segja dreadlokka í annað skiptið. Svo dreymdi mig að ég væri að flytja heim í Hafursá og var að leggja drög að því að fá mér íslenskar hænur. Verst þær voru svo ansi dýrar 65.000 kall stykkið. Það besta var þegar ég fór í krækiberjamó og fann krækiber á stærð við grasker sem þurfti báðar hendur til að halda á. Ég var að segja Kolbrúnu frá þessu áðan og hún sagði: "Nú þú hefur þá fundið eitt af krækiberjunum hans Finns". Ég hváði við og þá útskýrði hún fyrir mér að þegar Finnur var ungur maður þá voru krækiberin fyrir austan svo stór að hann þurfti að rúlla þeim niður brekkuna!! 

10 ágúst 2008

Dansað niður Laugaveginn


Í gær tók ég pásu frá ritstörfum til þess að taka þátt í Gay pride ásamt fleira fólki (bæði íslensku og erlendum gestum) úr Couch surfing hópnum. Við ákváðum að fagna fjölbreytileika mannlífsins með því að vera hluti af Gleðigöngunni og dönsuðum því saman niður Laugaveginn. Þó svo Gleðigangan hafi í upphafi eingöngu verið ganga samkynhneigðra þá hefur hún breyst yfir í það að snúast um mannréttindi. Að allir hafi rétt á því að vera þeir sjálfir, svo framarlega sem það skaði ekki aðra. Þar sem ég er ekki beint týpísk miðaldra kona þá fannst mér vel við hæfi að taka þátt :D Ég viðurkenni að ég var hálf stressuð í byrjun við tilhugsunina að dansa fyrir framan tugþúsundir manna en um leið og við lögðum af stað leið það hjá og ég fann til ótrúlegs frelsis að geta verið bara eins og ég er. Þetta var alveg meiri háttar gaman en aldurinn eða eigum við að segja kyrrsetan er farin að segja til sín því ég var aum í öllum skrokknum á eftir og er búin að vera hálflasin í dag. Ekkert samt sem íbúfen lagar ekki svo ég er búin að sitja samviskusamlega við skriftir í dag. Valur var nú ekkert yfir sig hrifinn af uppátæki móður sinnar ha ha ha en Daníel fannst verst að hafa misst af mér. Nú bíð ég bara eftir að heyra orðróm um að ég sé komin út úr skápnum muahahahahahaa!

06 ágúst 2008

Heim á ný

Heldur voru menn nú framlágir þegar gengið var á land úr Herjólfi í Þorlákshöfn klukkan hálfþrjú í nótt ha ha ha! Samt á að skella sér aftur næsta ár auðvitað og læra af þessari fyrstu reynslu. Einn sími enn týndist.

04 ágúst 2008

Innipúkar

Í kvöld bakaði ég pizzur fyrir okkur innipúkana mig, Gunnar Björn og Daníel og var þeim gerð góð skil að venju. Dagga vinkona er stödd á landinu og leit við hjá mér seinnipartinn mér til mikillar gleði. Hún sýndi mér myndir af fallegu ömmustrákunum sínum. Ég fékk svo Brekkusöng í beinni frá Þjóðhátíð í símanum áðan. Greinilega mikið stuð þar og sumir orðnir hálfraddlausir (Valur). Ritgerðarvinna hefur gengið ágætlega í dag og kvöld, er núna að skrifa um íslenska þjóðernishyggju. Ætla að drífa mig í háttinn núna, er búin að lofa Daníel að vekja hann klukkan hálfátta í fyrramálið og horfa á eftir honum út um dyrnar. Hmmm ég held að strætó byrji ekki að ganga fyrr en klukkan 10 eins og á sunnudögum, sennilega verð ég að skutla honum í vinnuna.

01 ágúst 2008

Home alone!

Ég keyrði unga fólkið til Þorlákshafnar í gærkvöldi, ja eða nótt. Það var brottför með Herjólfi kl. tvö sem að vísu var svo seinkað um klukkutíma enda troðfullt skip. Þetta er fyrsta Þjóðhátíð þeirra beggja (Valur og Ellen) og tilhlökkunin eftir því. Ég sá nú ekki betur en hátíðin væri byrjuð þarna á bryggjunni í Þorlákshöfn því þegar við mættum á hafnarbakkann var okkur vísað á gám á bak við bíl björgunarsveitarinnar. Að vísu var þetta ekki dauðagámur heldur farangursgámur en mér kæmi ekki á óvart að menn hafi breytt  hlutverki hans eftir komuna til Eyja því margir voru orðnir vel við skál og enn hátt í fjórir tímar þar til lagst yrði að bryggju í Eyjum. 
Nú ætla ég að nota tímann og kyrrðina vel um helgina enda veitir ekki af. Um síðustu helgi var ég í örvæntingar og kvíðakasti en tókst að komast út úr því og er bara ágætlega bjartsýn núna og búin að vinna vel í dag. Ég ætla að gefa skít í allt heilsufæði og borða bara sælgæti, ís og aðra óhollustu eins og mér sýnist já og drekka marga lítra af kaffi og reykja eins og strompur. Það eina sem kemst að hjá mér þessa dagana er að klára þessa blessuðu ritgerð hvað sem tautar og raular.