30 nóvember 2007

Bingó og kýr

Skellti mér á bingó hjá Félagi erlendra kvenna í Alþjóðahúsinu í gærkvöldi. Ég sat á réttum stað í salnum og vann auðvitað!! 3000 kr. inneign á bensínkort frá N1 he he he. Allir vinningarnir komu til þeirra sem sátu mín megin í salnum. Ég er líka komin með barmmerki sem á stendur hvernig á að fallbeygja KÝR. Ég var náttúrlega ekki með það á hreinu frekar en flestir Íslendingar en er búin að komast að því svo ég verði mér nú ekki til skammar ef ég er spurð. Ekki gott afspurnar fyrir íslenskukennara að vita þetta ekki he he he. Það er sem sagt ekki: hér er kýr um kú frá kusu til belju heldur hér er kýr um kýr frá kú til kúar. 

28 nóvember 2007

Skjálftagabb

Ég sá það á jarðskjálftakorti veðurstofunnar að Malarvinnslan var að sprengja fyrir utan Egilsstaði um kvöldmatarleytið. Ég læt ekki gabbast aftur.

Muahahahaha

Ég fékk hláturskast í íslenskutíma í dag, ég og allir nemendurnir. Tárin voru farin að renna við hlógum svo mikið. Ekki veit ég hvað fólk hefur haldið ef það hefur heyrt hlátursrokurnar fram. Þeir eru svo miklir húmoristar þessir karlar sem ég er að kenna núna. Algjörar perlur. 

27 nóvember 2007

Sófagestir

Það kemur sjálfsagt fáum á óvart að ég er komin í netfélagasskap nokkurn sem heitir Couchsurfing eða sófagestir sem mér finnst lýsa þessu fyrirbæri nokkuð vel. Ég fékk minn fyrsta sófagest um síðustu helgi en það var hún Katharina sem býr í Berlín. Alveg frábær sófagestur og mjög notalegt að hafa hana í heimsókn. Í kvöld ætla Outi og Emmi frá Finnlandi að kíkja til mín í mat, þær eru sófagestir annars staðar en við hittumst á kaffihúsi um daginn. Ég á svo von á 37 ára franskri listakonu um næstu helgi. Hún er á leiðinni norður til Akureyrar að vera viðstödd brúðkaup bestu vinkonu sinnar og að halda sýningu skilst mér en langar að stoppa aðeins í Reykjavík og kíkja á mannlífið og listalífið hér. Ég á alveg pottþétt eftir að nýta mér það einhvern daginn að vera sófagestur einhverra í Berlín, París, Prag, Varsjá o.s.frv.

20 nóvember 2007

Bílaborgin Reykjavík

Það er greinilegt að Reykjavík er ekki skipulögð með tilliti til gangandi eða hjólandi vegfarenda a.m.k. ekki öll hverfi. Ég þurfti að taka strætó í gær upp á Lyngháls þar sem ég er að kenna. Það var jú allt í lagi að komast á staðinn, aðeins þriggja mínútna gangur frá stoppistöðinni sem var sömu megin og Lyngháls. Annað mál var með heimförina. Þá varð ég að komast yfir Vesturlandsveginn til þess að ná strætó í bæinn en það er ekki fyrir nema fuglinn fljúgandi að komast þar yfir. Ég þurfti því að ganga upp á að ég held Höfðabakkabrúna sem tekur þó nokkurn tíma og yfir mörg gönguljós að fara. Ég endaði fyrir neðan Húsgagnahöllina og gekk þaðan í Ártún þar sem strætó stoppar og þurfti auðvitað að bíða dágóða stund eftir næsta strætó. Sem betur fer var vorblíða svo þetta var ekki svo slæmt en ég vildi ekki þurfa að fara alla þessa leið í roki og rigningu. Ég var 20 mínútur á leiðinni uppeftir en það tók mig klukkutíma að komast heim. Ég segi nú bara guðsélof að ég átti ekki erindi í hverfið fyrir neðan Vesturlandsveginn þá hefði ég lent í verulegum vandræðum. Að sjálfsögðu er ég komin á bíl núna til að lenda ekki í þessu veseni aftur.

18 nóvember 2007

Pínulítil frænka

Jiiiii hvað það er gaman að vera búin að eignast nýja systurdóttur. Sigurbjörg átti pínulitla stelpu 17. nóvember. Bara 10,5 merkur og 48 cm. Það eru komnar myndir af henni á Valbjörgu, algjör dúlla eins og Vordís segir.

15 nóvember 2007

Ég varð orðlaus í dag

Ég var að útskrifa einn hópinn í íslenskukennslunni í dag og er eiginlega bara enn hálfklökk þau voru svo yndisleg. Haldiði að þau hafi ekki verið búin að slá saman í stóran og fallegan blómvönd handa mér og svo var ég kysst og knúsuð í bak og fyrir. Síðan voru teknar endalaust myndir af mér með þeim til skiptis. Ég vissi nú bara ekki hvernig ég átti að vera þetta var svo yndislegt. Ég er búin að eiga frábæran tíma með þeim í kennslunni síðasta einn og hálfan mánuð en átti svo sannarlega ekki von á svona góðri kveðjustund. Brosið er enn fast á milli eyrnanna á mér ég er svo glöð í hjartanu :-D

13 nóvember 2007

Pestir á sveimi

Hér ligg ég eins og skata og get ekki annað. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að næla sér í einhverja pest af þeim aragrúa sem er á sveimi allt um kring. Sem betur fer er það samt ekki magapestin ógurlega sem hefur lagt svo marga að velli í kringum mig enda er ég á tvöföldum acidophilus skammti þessa dagana til að tryggja mig gegn henni. Nei ég er bara með höfuðverk og beinverki og ákvað að halda mig við rúmið í dag svona milli íslenskukennslustunda. Nú eru bara tveir tímar eftir á Grund, en ég á samt eftir að sakna þeirra. Það er svo frábært fólk sem ég er að kenna þar.

Af ómegðinni er það að frétta að ég hef verið tekin í sátt af frú Scarlet sem er aftur farin að hrjóta á kvöldin í bælinu sínu við hliðina á rúminu mínu. Hún entist nú ekki að sofa úti nema svona þrjár nætur og sá þá að sér. Fröken Snædís virðist vera búin að jafna sig á hræðslunni við litla gerpið sem er löngu hætt að hræðast þær gömlu. Nú er mikið sport að liggja í leyni og stökkva fram til að bregða gamalkisunum sem hrökkva í kút og hvæsa aðeins svona til að lýsa vanþóknun sinni á þessari unggæðislegu hegðun. Hún kann sig þó það mikið að láta þær algjörlega í friði þegar þær eru að leggja sig, sem er ansi oft enda orðnar nokkuð aldurhnignar og með síþreytu.


09 nóvember 2007

Bakslag

Þetta er búin að vera mjög stíf vika hjá mér og ég hef fundið orkuna hreinlega leka út. Þegar ég var búin að kenna um hádegið í dag var ekki um annað að ræða fyrir mig en að druslast heim og upp í rúm að sofa. Hef varla orku til að fara fram að borða. Þetta þýðir að þessa helgi mun ég ekki lyfta litla fingri né litlu tá ef ég á að geta tekist á við næstu viku. Mér tekst alltaf að fara fram úr sjálfri mér! Annars er ég að klára námskeiðið á Grund í næstu viku svo það fer aðeins að hægjast um. 

04 nóvember 2007

Ómegð

Mér líður eins og konu sem tilkynnir að hún eigi von á sjötta barninu. Það er nefnilega komin þriðja kisan á heimilið. Sú stutta heitir Skotta og ber nafn með réttu því hún skottast um alla íbúð. Í kvöld tókst henni einhvern veginn að troða sér INN Í stofusófann og komst ekki út aftur. Ég heyrði vælið í henni og fór að leita og ætlaði aldrei að finna hana. Ég kíkti meira að segja inn í ísskáp, örbylgjuofn, ofan í skúffur og inn í skápa enda henni vel trúandi til að hafa troðið sér inn á ólíklegustu staði. Á endanum notaði ég baulaðu nú Búkolla mín aðferðina og rak loks augun í litla loppu sem veifaði út um rifu neðan á sófanum. Sófinn er eðalmubla keypt í Góða hirðinum og níðþungur svo ég get varla bifað honum þannig að ég gat ekki hvolft honum til að komast betur að. Það tók því dágóða stund að ná henni þaðan og tókst ekki fyrr en ég var búin að setja disk með túnfisk undir sófann, þá loksins gat hún troðið sér allri út um rifuna. Guð sé lof, ég var farin að sjá það fyrir mér að þurfa að skrúfa fjandans sófann í sundur.
Skotta er búin að vera hérna síðan á miðvikudagskvöldið og þær gömlu eru að jafna sig á komu hennar. Frú Scarlet umber hana með þögulli fyrirlitningu en fröken Snædís var logandi hrædd við þetta gerpi í byrjun. Hún er nú aðeins að koma til blessunin. Frú Scarlet var afskaplega móðguð við mig fyrstu tvo dagana og sneri bara upp á sig og strunsaði í burtu þegar ég ætlaði að klappa henni. Eftir að hafa smjaðrað fyrir henni daginn út og inn þá er ég smám saman að komast aftur í náðina.

02 nóvember 2007

Framtíðarsýn

Ég átti leið í verslun Símans í Kringlunni í dag. Eins og alltaf var þó nokkur bið svo ég fékk mér sæti á einum af þessum setpúðum sem þarna eru. Stuttu seinna koma tvær konur inn, líklega mæðgur. Sú eldri um áttrætt vildi tylla sér á sama setpúða og ég en hin fór að skoða síma á meðan þær biðu. Þetta var smávaxin fíngerð kona með sítt grátt hár tekið saman í hnút ofan á höfðinu. Smástund leið en þá byrjar sú aldraða allt í einu að syngja dægurlag frá stríðsárunum á ensku. Hún var nú bara með ágæta rödd sú gamla en dóttirin brást strax við og sagði: ekki syngja hérna! Æ já, ég gleymdi mér sagði sú gamla og þagnaði, en ekki lengi því nú sneri hún sér að mér og sagði: mamma sagði alltaf við mig, Gunna mín ef þér leiðist þá skaltu bara syngja. Stundum gleymi ég mér bara þegar ég er innan um fólk, það heldur náttúrulega að ég sé orðin rugluð. Ég er nú orðin áttatíu og eins árs og þegar þú verður komin á minn aldur þá manstu eftir því sem gamla konan sagði. Ég brosti til hennar og sagðist sjálf lenda í því nú þegar af og til að fara að raula lag úti á götu. Ég hefði gjarnan viljað spjalla meira við hana en þá var mitt númer kallað upp. Eftir rúm þrjátíu ár verð ég þessi kona að syngja lag eftir Nick Cave.