04 febrúar 2009

Kreppurof?

Dauðaþögn síðustu mánaða hefur verið rofin af LOFTPRESSU hér fyrir utan. Ég rauk á fætur og út í glugga til að athuga hvort svo ólíklega skyldi vilja til að framkvæmdir væru hafnar að nýju við stúdentagarðana hér hinum megin við götuna. Að sjálfsögðu reyndist svo ekki vera og þeir verða líklegast áfram fjarlægur framtíðardraumur. Mér sýnist þetta vera starfsmenn Reykjavíkurborgar að bauka við einhvern tittlingaskít, svona klukkutíma verk sjálfsagt sem enginn verður feitur af.
Valur fór á sjóinn í gær á "nýjan" bát. Ekki leist okkur á blikuna þegar við mættum á bryggjuna í Hafnarfirði. Annan eins ryðdall höfum við ekki séð ef frátaldir eru rússneskir togarar sem stundum hafa dagað uppi mánuðum saman einmitt í Hafnarfjarðarhöfn. Valur leit þó jákvæðum augum á þetta, hann gæti alltaf sagt barnabörnunum söguna af því þegar hann hér um árið var á honum Skafta, það var nú aldeilis skítadallur krakkar mínir!

Engin ummæli: