29 mars 2009

Á fæðingarvaktinni

Ég er á fæðingarvaktinni þessa dagana. Verð líklegast viðstödd þegar strákurinn hennar Beth fæðist (áætlað 18. apríl) er nefnilega staðgengill Önnu Gerðar hérna í bænum. Að sjálfsögðu er ég farin að bíða eins og Beth og í nótt dreymdi mig að ég væri að gera allt klárt fyrir heimafæðingu, var að tína til hrein lök og sjóða vatn eins og í gamla daga hahahaha. Ég ætlaði sko að vera sjálf ljósmóðirin :) Ég hef tvisvar verið viðstödd fæðingar og hlakka mikið til. Það er svo stórkostlegt að upplifa lítið barn fæðast í heiminn :D Beth ætlar að stefna á Hreiðrið enda fær hún að vera þar í 24 tíma eftir fæðingu. Á fæðingardeildinni er manni víst hent út eftir 2 - 3 tíma ef allt er eðlilegt. Það hefur aldeilis breyst frá því ég átti Gunnar Björn á Fæðingarheimilinu, þá mátti ég ekki einu sinni stíga í fæturna fyrstu tvo dagana. Það má nú alveg fara milliveginn finnst mér.

25 mars 2009

Á uppleið

Ég er búin að vera eins og hlýðinn hundur síðustu daga. Fer samviskusamlega í sund eða ræktina daglega og hringi í Hrönn á hverju kvöldi að gefa skýrslu. Fannst vissara að fá eitthvað aðhald til að hjálpa mér að komast í rútínu og bað því Hrönn að taka það að sér að fylgjast með mér. Ég finn strax smá mun á mér.
Í morgun var mér boðið 75% fast starf hjá Jafnréttishúsi í Hafnarfirði sem felst í því að halda utan um íslenskukennsluna. Ég byrja með íslenskunámskeið fyrir atvinnulausa útlendinga eftir páska og verð með tvo hópa. Það er sem sagt næg vinna framundan hjá mér og þá skiptir máli að halda dampinum í hreyfingunni svo ég hafi nú orku í allt þetta. Ég er samt ekkert hætt við doktorsnámið en fresta því kannski eitthvað.

22 mars 2009

Endurhæfing

Ég er komin í markvissa endurhæfingu til að komast yfir síþreytuna. Fór til læknis í vikunni sem sagði ekkert annað duga ef ég ætti að ná mér aftur, þetta væri einskonar andleg þreyta í kjölfar taugaáfallsins sem ég fékk fyrir nærri tveimur árum.Fólki gengi oft erfiðlega að ná sér aftur á strik þegar það lendir í þessu. Í gær var fyrsti dagur í endurhæfingu og byrjaði ég á því að fara í sund, rétt slefaði 200 metrana sem er hrikalegt miðað við hvað ég hef verið vön að synda. Kom svo við í Bónus á heimleiðinni og verslaði grænmeti. Bjó mér til þennan líka góða hummus með grænmetinu nammmmi. Sennilega var þetta meira að segja heldur mikið fyrir mig því ég lá alveg bakk það sem eftir var dags. Hefði alveg eins getað verið að ljúka maraþoni miðað við líðanina. Flökurt og með verki um allan skrokk, lá bara og hlustaði á tónlist allt kvöldið því ég gat hreinlega ekki reist höfuð frá kodda. Þegar mér tókst að safna kröftum til að skreiðast inn í rúm þá rotaðist ég næstu 12 tímana. Er á leiðinni í sund aftur en er að hugsa um að fara bara 150 metra til öryggis því ég er ennþá frekar búin á því eftir gærdaginn.
Kunningjakona mín sem á litla líkamsræktarstöð var svo yndisleg að gefa mér 10 tíma í bekkina sína og ætlar að hjálpa mér að komast yfir erfiðasta hjallann. Ég fæ nudd og alles hjá henni og hlakka til að fá sjálfa mig aftur til baka.

17 mars 2009

Góðir gestirLitli frændi hann Eldar Bóas kom í heimsókn með foreldrum sínum og Beth frænku. Að sjálfsögðu þurfti Beth að æfa sig aðeins áður en litli strákurinn hennar kemur í heiminn í apríl :D
Ég bakaði auðvitað pönnukökur í tilefni dagsins og sófagesturinn minn frá Bandaríkjunum tók vídeómynd af íslenskum pönnukökum til að sýna vinum sínum hvernig þær eru framreiddar.

08 mars 2009

Undur náttúrunnar
Alveg er það nú ótrúlegt hvað íslenskar jurtir eru öflugar. Ég er með krónískar kinnholsbólgur sem hafa lengi verið að gera mér lífið leitt og gert það að verkum að ég vakna alltaf þreytt á morgnana sama hvað ég sef lengi. Ástæðan er kolstíflað nef og partur af morgunverkunum verið miklar snýtingar. Í vikunni fékk ég send þurrkuð vallhumalsblóm frá mömmu og bjó mér til te úr þeim fyrir svefninn. Þau stórkostlegu undur gerðust að í fyrsta skipti í marga mánuði og ja eiginlega mörg ár, vaknaði ég úthvíld og ekki vottur af nefstíflu!! Þvílíkur munur að geta andað alla nóttina og nú eru allar morgunsnýtingar úr sögunni. Ég hreinlega trúi þessu varla. Nú verður sko farið á stúfana í sumar og tíndir bílfarmar af þessum töfrablómum.
Félagslífið hefur verið með miklum blóma hjá mér þessa vikuna. Á fimmtudagskvöld var ég boðin út að borða með hópi tungumálakennara frá Belgíu, Finnlandi, Ítalíu og Svíþjóð ásamt gestgjöfum þeirra í Alþjóðahúsi. Sat svo fund með þeim allan föstudaginn um tungumálakennslu, þetta er eitthvað Grundtvig samstarf sem Alþjóðahús er hluti af. Í gærkvöldi buðu Ricardo og Tamara mér út að borða á Boston. Rosalega kósý staður á Laugaveginum, maturinn alveg meiriháttar góður, ódýr og vel útilátinn.
Ég keyrði Adriënne á flugvöllinn í morgun eftir ægilega notalegar tvær vikur hjá mér. Hún var samt farin að hlakka til að koma heim og undirbúa fæðingu barnsins og að fara í vorverkin í garðinum.
Valur kemur í land eldsnemma í fyrramálið og fer aftur út seinnipartinn. Ég vona að hann fái far í bæinn annars þarf ég að keyra til Grindavíkur klukkan sjö í fyrramálið.
Ég er með aukakennslu næstu tvær vikurnar og grunnskólafræðslu svo það verður nóg að gera hjá mér í mars. Þar að auki er fullbókað af sófagestum þennan mánuð.

01 mars 2009

Öppdeit

Hummm ég er ekki alveg að standa mig í bloggskrifum.
Síðasta mánudag fór ég með fræðslu um fjölmenningu og fordóma í 9. bekk í fyrsta grunnskólanum af sjö. Það gekk bara nokkuð vel fannst mér, ég var með þrjá bekki í röð sem allir voru mjög ólíkir. Fyrsti var afskaplega "krefjandi" eins og kennararnir orðuðu það en mér fannst þau nú bara mjög skemmtileg þó þau væru ansi lífleg hahahaha. Adriënne vinkona mín er hjá mér núna og er að leiðbeina mér í sambandi við umsókn um doktorsnám og styrki í Danmörku. Ég finn að með hækkandi sól kemur aukin orka í mig og er bara orðin nokkuð spennt að takast á við þetta. Það var svo yndislegt veðrið í gær að ég fékk mér göngutúr í bæinn og kíkti í Kolaportið. Þar úði allt og grúði af fólki og varningi en ég lét mér nægja að kaupa fjallagrasaflatbrauð eins og venjulega þegar ég lít þarna inn.
Valur er að fara á sjóinn á þriðjudaginn, fékk afleysingatúr á þessum fína línubát frá Grindavík. Eitthvað annað en ryðdallurinn sem hann var á um daginn.