20 maí 2009

TravisÉg gisti hjá Beth og Travis litla á laugardagskvöldið, vorum með Júróvisjón partý að sjálfsögðu. Hann er búinn að vera með magakveisu en er eitthvað að lagast. Er farinn að skreppa út í göngutúr og sefur eins og engill á eftir.

Starraflærnar eru byrjaðar að hrella mig. Það er sjálfsagt hreiður í þakrennunni beint fyrir ofan svefnherbergisgluggann minn. Ég get ómögulega sofið með lokaðan glugga sem þýðir að ég vakna útbitin á morgnana. Nú tek ég ofnæmistöflur fyrir svefninn og finn minna fyrir því.

Ég byrjaði að kenna í Keflavík í morgun. Er að kenna mánudaga - föstudaga frá 10 - 12 atvinnulausum útlendingum. Kláraði námskeiðið í Reykjavík í gær og við ákváðum að hafa útskriftina úti í góða veðrinu. Löbbuðum um miðbæinn eins og túristar. Þau grínuðust með að þau ættu eiginlega að haldast í hendur eins og leikskólakrakkar. Ég var auðvitað leiðsögumaðurinn og fræddi þau um hitt og þetta þar á meðal Alþingishúsið sem ekkert þeirra vissi hvar var. Við komum við í Ráðhúsinu og skoðuðum stóra kortið af Íslandi og sáum ljósmyndasýningu um íslenskt mannlíf, náttúru o.fl. Við enduðum svo í garðinum á kaffi Hressó og þar var þessi fína útskriftarathöfn með munnlegu prófi sem allir stóðust, misvel auðvitað. Þau gáfu mér blóm og hálsmen og eyrnalokka þessar elskur. Þetta var alveg einstaklega skemmtilegur hópur og ég er strax farin að sakna þeirra.

Ég var með tvo skemmtilega sófagesti frá Napólí sem fóru frá mér í morgun. Í dag er þýskur ljósmyndari hjá mér og á morgun kemur ung kanadísk kona sem er að fara á sumarnámskeið í íslensku í Háskólanum. Á föstudagskvöldið er planið svo að skreppa á tónleika með hjónum frá Kanada. Einn fyrrverandi nemendinn minn er í hljómsveitinni Esju sem er að spila þá um kvöldið. Sem sagt nóg að gera hjá mér þessa dagana. Á morgun ætla ég að kíkja á kaffihús með Kai (ljósmyndaranum) og líta svo aðeins við hjá Beth og Travis.