26 október 2008

Pönnukökudagur í Einholtinu

Þá er ég orðin mannfræðingur :D 

Þraukaði gegnum athöfnina í Háskólabíói og fór svo beint heim og lá í spennufalli það sem eftir var dags. Í dag eru það svo pönnsur í tilefni áfangans. Vaknaði tímanlega í morgun til að gefa sófagestinum mínum íslenskar pönnukökur áður en hún færi. Þetta var heilmikil upplifun fyrir hana að sjá hvernig rjómi er þeyttur og pönnukökudeig er búið til. Hún er nefnilega frá Bandaríkjunum og þar kaupa menn bara tilbúið deig og þeyttan rjóma. Þessi sófagestur er fisksali að atvinnu og ekki beint hægt að sjá það á henni. Maður ímyndar sér alltaf fisksala sem gamla karla en hér er ung kona með hring í miðnesinu, tattú og lokka út um allt bak. Stuttklippt með dreadlokka öðrum megin en nauðrökuð á hinum helmingnum af höfðinu. Afskaplega kurteis og viðkunnanleg ung kona en ég verð að viðurkenna að það var ekki gott að sjá hvort hún væri maður eða kona því hún klæðist eins og karlmaður og ekki er sílikoninu fyrir að fara í þessum barmi. Svo heitir hún Jack sem ég hélt að væri karlmannsnafn en það er víst engin mannanafnanefnd í Bandaríkjunum sem ákveður hvað er karlmanns- og hvað er kvenmannsnafn enda er algengt að sömu nöfn eru notuð á karla og konur.

Núna er Kristín systir að koma í pönnsur :)

22 október 2008

Öppdeit

Það er bara búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki komist í að blogga. Reyndar var tölvan líka að hrella mig svo ég gat ekkert notað hana um síðustu helgi en nú er ég búin að taka rækilega til á henni og krossa putta að það dugi. Hér er búið að vera gestkvæmt upp á síðkastið, vinir, fjölskylda og sófagestir. Alveg ægilega gaman hjá mér og dásamlegt að geta farið á kaffihús án þess að vera í stresskasti eða með sektarkennd yfir því að slæpast. Ég fór á off venue tónleika með sófagestum í síðustu viku og á sunnudaginn hóaði Adriënne vinkona mín í mig þar sem hún sat á uppáhaldskaffihúsinu okkar Babalú en þar voru aftur off venue tónleikar svona í lok Airwaves. Ég fór einmitt á Babalú með sófagestunum mínum en þar er alveg frábær þjónustustúlka að vinna. Hún er alltaf svo utan við sig og spaugileg. Þegar hún var að leggja hnífapörin á borðið hjá okkur þá fékk hún sér sæti við hliðina á okkur á meðan hahaha, aðeins að hvíla lúin bein.

Fyrripart sunnudags fór ég með Hrefnu, Finni, Bríeti og Rán í verslunarleiðangur í Smáralindina og fleiri búðir í Kópavoginum. Deginum áður hafði ég hitt Betu á kaffihúsi í Kringlunni og náttúrulega gleymdi mér alveg því það er svo langt síðan við höfum hist. Var næstum of sein að sækja Adriënne á BSÍ. Hún var hjá mér þangað til í dag og kemur svo aftur í næstu viku í nokkra daga og þá verður Brian maðurinn hennar með. 

Í gær var ég að klára að búa til veggspjald sem verður á Þjóðarspeglinum í Háskólanum á föstudaginn. Það er stutt kynning á rannsókninni minni. Svo er búið að vera heilmikið stúss í kringum kennsluna hjá mér. 

Á laugardaginn er svo útskriftardagurinn minn!! 

10 október 2008

Skítverkin

Loksins er komin helgi!!! Fyrsta helgin í laaaaaaangan tíma sem ég á fríííí!!

Er byrjuð að stinga út úr "fjárhúsinu" enda kominn tími til. Kettirnir voru meira að segja farnir að þrífa þeim blöskraði svo útgangurinn á heimilinu. Komu með rykbólstrana í hrönnum til mín og ég skildi svo sem að hverju þær væru að ýja enda var ryksugunni fagnað með látum þegar hún fór loksins í gang. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér alla vikuna að vinna upp ýmis verk sem hafa setið á hakanum í kennslunni. Ég læri alltaf eitthvað nýtt í íslenskukennslunni og í gær komst ég að því að íslenskir hundar þykja ekki góðir til átu hahahahaha. Í öðrum hópi vorum við að tala um stíflað klósett og skemmti ég nemendunum með sögunni af mér þegar ég ætlaði að losa stíflu úr klósettinu með ryksuguna á öfugum blæstri hér um árið. Veggir, loft, gólf og ég sjálf var útsvínað á eftir en klósettið var enn jafnstíflað hahahahaha. 

Vordís kom frá Danmörku í dag og ætlar að vera hjá mér í 6 daga :D Svo kemur mamma í bæinn á morgun og Beta líka. Frábært að hafa loksins tíma til að sinna gestum. 

Á morgun ætla ég að sofa út. Er lítið sofin eftir vikuna. Alltaf dauðþreytt á kvöldin en um leið og ég leggst á koddann þá PLING er glaðvöknuð. Greinilega ennþá spenna í mér en ætli það fari nú ekki að rjátlast af mér.

06 október 2008

Níu merkur

Sjö marka barnið sem mig dreymdi í sumar reyndist vera níu merkur :)

Já nía varð það heillin ;-) Ég er enn í spennufalli og skýjunum og allt þar á milli hahaha. Ég kippi mér ekki einu sinni upp við að þjóðarskútan sé að sökkva. Pólverjarnir í tímanum hjá mér í dag sögðu að nú væri komið að okkur Íslendingum að flykkjast til Póllands í leit að betra lífi hehehe. Nú kemur sér vel að hafa hangið á horriminni síðustu árin, held því bara áfram. 

Næst á dagskrá hjá mér er að ná meðgönguspikinu af mér. Sund og ganga er ódýr og góð líkamsrækt. 

03 október 2008

Harkaleg fæðing

Jæja þá er þetta afstaðið og það með látum. Skilaði af mér í gær eftir nærri tveggja sólarhringa vöku og er gjörsamlega búin á því. Svaf til klukkan fjögur í dag takk fyrir. Það var stuð á mér í kennslunni í gær, var að kenna til 20 um kvöldið og orðin gufurugluð eftir alla þessa vöku ha ha ha, held ég hafi verið farin að syngja fyrir þau tíhíhí. Nú er bara að aðlagast nýju lífi og njóta þess að vera laus við alla þessa pressu. Ég hlakka til að fara að hitta fólk aftur :D

01 október 2008

Matarboð

Ég átti þennan fína afmælisdag í gær. Var að kenna stanslaust frá 13 til 20 eða þrjú námskeið út um allan bæ. Strax að því loknu var brunað í afmælismat til Ricardo og Tamöru ásamt Gunnari og Val. Ekta mexíkóskur matur og tónlist :D fyrir utan að chilið var sparað til að drepa okkur ekki. Valur þurfti samt að prófa að borða smábita af grænum pipar og var nánast í andarslitrunum á eftir öllum til mikillar skemmtunar. Þau kenndu okkur að borða salt til að draga úr áhrifunum. Þetta var frábært kvöld enda góðir gestgjafar og mikið hlegið og skemmt sér. Tamara skipti um vinnu frá því að vaska upp á kaffi Oliver og færði sig yfir á Santa Maria sem er mexíkóskur veitingastaður á Laugaveginum. Mæli með honum mjög ódýrt og ekta mexíkóskur matur. Ritgerðin er að smella saman bara eftir fínpússning :)