30 janúar 2008

Steraskjálfti

Ég tók óvart of stóran skammt af sterapústinu mínu í morgun og get ekki hugsað heila hugsun því heilinn skelfur svo mikið. Verð greinilega að bíða þar til þessi innri skjálfti líður hjá aarrrgggghhhh!!!!

29 janúar 2008

Komin í gírinn á ný

Aldeilis er ég ánægð með að vera komin aftur í gírinn. Framkvæmdakvíðinn að baki og nú er að setja allt á fullt. Ég var að byrja með nýtt námskeið í morgun þannig að nú kenni ég þrjá morgna í viku, klukkutíma í senn og þrjú síðdegi, einn og hálfan tíma í senn. Alveg ægilega gaman hjá mér. Ég á von á fullu húsi af sófagestum um næstu helgi. Skötuhjúin að norðan ætla að skreppa í bæinn í nokkra daga (sú þýska og sá ítalski) og svo kemur miðaldra  þýskur pönkrokkari og verður í viku hjá mér. Við erum að spá í að skella okkur öll í Bláa lónið á laugardaginn. Spurning hvort það verði nokkuð á skautum þar sem spáð er hörkugaddi um helgina.

27 janúar 2008

Framkvæmdakvíði

Ætli það séu stress einkenni að hella kattamat út í súrmjólkina sína? Ég er allavega búin að vera frekar stressuð síðustu daga og var hreinlega í kvíðakasti í gærmorgun. Náði mér þó á strik og tók langa djúpslökun sem gerði það að verkum að ég settist við skriftir og náði smá fókus. Held mér sé að takast að komast út úr þessum framkvæmdakvíða. Ætla að búa til dagsplan fyrir mig á eftir til að veita mér aðhald. Ég afþýddi og þreif ísskápinn á meðan ég var að telja í mig kjark að byrja að skrifa, eitthvað gott kom þó út úr blessuðum framkvæmdakvíðanum. 

23 janúar 2008

Ítalía innan seilingar


Þá er litli Ítalinn minn floginn norður á bóginn í faðm þeirrar þýsku. Nú neyðist ég víst til að sjá sjálf um heimilisstörfin. Annars vorum við Kristín systir og Stefanía Ósk að bóka ferð til Ítalíu 12. – 24. júní. Við ætlum að heimsækja ítalska fjölskyldu og verðum í sumarhúsinu þeirra í algjörri afslöppun og dekri hjá Roberto og Massimo, foreldrum Roberto, nágrönnum þeirra og öðrum ættingjum hans. Þrjár miðaldra konur með bókastafla meðferðis eins og breskar hefðarfrúr á 18. og 19. öld. Jeminn hvað ég er farin að telja dagana þangað til.

Nú er lífið hjá mér að komast aftur í fastar skorður eftir áramótin. Ég er aftur byrjuð að kenna, byrjaði með eitt námskeið síðasta mánudag og næsta byrjar á mánudaginn kemur. Svo er að bretta upp ermarnar og koma meistaraverkefninu saman. Er sko búin með tvær blaðsíður af 100 og á að skila í byrjun maí. Ég verð að viðurkenna að ég er með nett stress í mér og sé fram á langa vinnudaga næstu mánuði. Þetta hefst samt örugglega á endanum ef ég þekki mig rétt. Þarf alltaf þó nokkra pressu til að komast í almennilegan vinnugír.
 

20 janúar 2008

Lítill sólargeisliÞetta er hún Freya Davidsdottir Holm Kowalski yngsta systurdóttir mín og guðdóttir. Algjört krútt. Það er fleiri myndir af henni hér


Ástin blómstrar í Holtinu

Jæja sú fyrrverandi er aftur orðin núverandi kærasta. Hún yfirgaf landið í dag og þá er að sjá hvað gerist fyrir norðan þennan mánuð sem Ítalinn minn ætlar að dvelja þar hjá þeirri þýsku. Hann heldur sínu striki með að fara þangað og skoða Norðurlandið með henni enda ekki annað hægt en að skoða eitthvað af landinu fyrst hann á annað borð er kominn.

Æ þau eru nú ægilega krúttleg saman og vonandi fellur allt í ljúfa löð þegar pilturinn kemur aftur heim.  

18 janúar 2008

Matur er mannsins megin

Sú fyrrverandi mætti í gær með fulla tösku af mat. Er ekki leiðin að hjarta mannsins í gegnum mat? Ég nýt a.m.k. góðs af því og fékk þennan fína pastarétt í kvöldmat. Þvílíkur lúxus að þurfa ekki einu sinni að vaska upp. Það virtust vera fagnaðarfundir með þeim skötuhjúum og þau kúrðu saman allt kvöldið. Einhverjar tilfinningasveiflur gerðu þó vart við sig en sem betur fer virðist hún frekar ætla að fara grátleiðina frekar en að grípa til eldhúshnífanna a.m.k. enn sem komið er. Í dag ætla þau að skoða söfn og túristast í Reykjavík svo sjáum við til hvort ég fæ ekki eitthvað gott að borða í kvöld :-) Kolbrún systir kom í gærkvöldi og verður um helgina svo það er fullt hús hjá mér þessa helgi. Alveg ægilega gaman!

16 janúar 2008

Ítölsk sápuópera

Ég lifi í ítalskri sápuóperu þessa dagana og hef mikið gaman af. Sófagesturinn minn sem var að passa kettina og íbúðina fyrir mig á meðan ég var úti er nefnilega ekki við eina fjölina felldur. Þessa viku sem ég var úti ákvað hann að segja upp ítalskri kærustu sinni sem tók því ekki mjög vel og hringir í hann tíu sinnum á dag. Því miður klúðraðist Erasmus skiptinámið hjá honum svo hann kemst ekki inn í HÍ og þarf að fara aftur heim. Fyrst ætlar hann að skreppa norður til Akureyrar og vera þar í mánuð hjá þýska sófagestinum mínum (sem hann kynntist mjög náið hjá mér hummm hummm). Það fór ekki mjög vel í þá fyrrverandi sem ætlar að fljúga hingað til Íslands til að ræða málin. Hún kemur á morgun og nú stendur hann á haus að þrífa íbúðina mér til mikillar ánægju. Það verður því örugglega nokkuð líflegt í Holtinu næstu daga he he he. Greyið strákurinn tekur bara um höfuðið og stynur: þvílíkt mess sem ég er kominn í!!! 

08 janúar 2008

SAS sökkar feitt!!

Ég náði ekki nema þriggja tíma svefni áður en ég flaug til Danmerkur. Ónógur svefn hjá mér þýðir að ég fæ óskaplegan pirring í fæturna og get ekki verið kyrr. Sessunautur minn í flugvélinni (maður á mínum aldri) hefur örugglega verið farinn að halda að ég ætti við einhverja andlega erfiðleika að etja. Ég var á stöðugu iði og ekki bætti úr skák að ég hafði tekið með mér lesefni (The saffron kithcen) sem er afar tilfinningahlaðið. Ég var því stöðugt að fella tár og þurfti reglulega að leggja frá mér bókina í smástund til að missa ekki alveg stjórn á mér. Þegar til Kastrup kom (um hálftólf) hringdi ég í Ingileifar frænku í Kokkedal og var svo heppin að hún og Júlíus voru heima. Planið var að skreppa til þeirra þar til ég flygi til Álaborgar 17.50. Ég skundaði því með töskuna mína í farangursgeymslu og þar með hófust hremmingar mínar á Kastrup flugvelli:

Ja men af hverju ferðu ekki bara beint og tjekkar þig inn í flugið til Álaborgar og losar þig við töskuna þar? Ha, já auðvitað! Tak for det. Þá var að svipast um eftir Sterling bás og hann fann ég á terminal 2. Ja men du skal til terminal 1!! Það er í þessa átt svona 500 m. Henni láðist þó að segja mér að ég gæti tekið ókeypis strætó þangað svo ég rölti þenna hálfa kílómeter með töskuna í eftirdragi. Loksins komst ég á leiðarenda og sá afgreiðslubás sem ég gekk að og sagðist eiga flug með Sterling til Álaborgar. Það var eins og ég hefði hreytt blótsyrðum í starfsfólkið því það nánast hrækti út úr sér STERLING við vitum ekkert um það og getum ekkert hjálpað þér. Ég ráfaði því lengra inn og sá mannlausan og lokaðan bás merktan Sterling. Ég stoppaði flugvallarstarfsmann og endurtók að ég þyrfti að tjekka mig inn til Álaborgar seinna um daginn með Sterling. Ja men du skal til terminal 2! AFTUR?! Hann var samt svo almennilegur að benda mér á ókeypis strætóinn. Ég var því aftur komin á byrjunarreit á terminal 2. Ja men du skal til terminal 1! Já en ég var að koma þaðan? Ja men du skal der. Þú getur tjekkað þig inn í sjálfsala hérna en þú þarft að fara með töskuna á terminal 1. Ég tjekkaði mig inn og aftur tók ég strætó á terminal 1 og enn var Sterling básinn lokaður. Þá kom strákur á harðahlaupum með tösku í eftirdragi og ávarpaði mig á ensku. Hann var að koma frá Austurríki og átti flug til Karup en var ekki viss með hvaða flugfélagi. Ég fór með honum í SAS básinn og þar var okkur hent öfugum út af því hann hélt það væri KANNSKI Sterling sem hann ætti að fljúga með. Við hringsnerumst dágóða stund um sjálf okkur og hann var alveg að fara yfir um því hann var að missa af fluginu. Ég spurði hann þá hvort hann væri alveg viss um að það væri Sterling sem hann ætti flug með og fékk að sjá miðann hans. Þar sást ekkert hvaða flugfélagi flugið tilheyrði svo við fórum einu sinni enn í SAS básinn og tókst að pína þau til að skoða flugmiðann sem reyndist þá tilheyra SAS. Ja men du sagde du skulle med Sterling!!!! Ég hvæsti á móti að hann hafi ekki verið viss en greyið fékk loksins einhverja aðstoð við að ná fluginu. Ég aftur á móti var búin að eyða TVEIM tímum í þetta hringsól og ákvað að taka bara helvítis töskuna með til Ingileifar og tók lest í 50 mín. til hennar. Þar beið mín mjög svo seinn hádegisverður en að sama skapi afskaplega vel þeginn enda ég ekki búin að borða neitt allan daginn. Þetta varð þó ekki nema 45 mín stopp því ég þurfti að ná lestinni til baka í tíma.

Enn var ég komin á Kastrup og hafði 20 mínútur til að losa mig við töskuna og koma mér í vélina. Í öllu stressinu datt úr mér hvaða hlið ég ætti að fara til og eftir að hafa hlaupið langar leiðir fann ég loks skjá þar sem stóð á Álaborg hlið A28 sem þýddi að ég þurfti að hlaupa langleiðina til baka og það var verið að hleypa út í vél þegar ég loksins kom. Ég sýndi starfsmanninum miðann minn en hann fleygði honum nánast framan í mig og sagði: þetta er STERLING, við vitum ekkert um það. Nú voru góð ráð dýr aðeins fimm mínútur í brottför!! Ég hljóp eins og fætur toguðu alla leið niður til að leita að skjá með brottförum og sá þá að flugnúmerið mitt var við hlið A24. Þá voru TVÆR mínútur í brottför og á skjánum stóð að búið væri að loka hliðinu. Ég hugsaði með mér að það væri samt enn séns og hljóp eins og fjandinn væri á hælunum á mér að hliði A24. Nánast mállaus af mæði stundi ég upp við starfsfólkið hvort ég væri búin að missa af vélinni. Nei þá hafði verið beðið aðeins og ég skjögraði inn löðursveitt með hjartslátt upp á 200. Eftir að vélinni hafði verið lokað var tilkynnt seinkun upp á 20 mín því vélin fengi ekki flugtaksleyfi strax. Ég sökk niður í sætið af skömm yfir að hafa orðið þess valdandi en flugstjórinn var svo almennilegur að skella skuldinni á danska loftferðaeftirlitið. Ég komst sem sagt á endanum til Álaborgar útkeyrð eftir hremmingar dagsins. Þar biðu Valur og Vordís en þau voru orðin viss um að ég hefði gefið upp rangan flugtíma og ætluðu að bíða eftir næstu vél. Það var nefnilega ekki tilkynnt á skjánum að vélinni hefði seinkað, örugglega af því þetta var STERLING. Eftir framkomu starfsmanna SAS er það á hreinu að ég mun ALDREI fljúga með því skítaflugfélagi!!

06 janúar 2008

Á leiðinni til Danmerkur

Ég er búin að komast að því að hinn bjargarlausi ítalski karlmaður er mýta!! Sófagesturinn minn hann Roberto stjanar alveg við okkur Franzisku. Heldur á pokunum fyrir okkur úr búðinni, vaskar stöðugt upp og eldaði alveg hreint dásamlegt pasta handa okkur í kvöld. Við erum búin að vera geysilega aktív í dag, fórum í langan göngutúr um bæinn að skoða helstu staði eins og Háskólann, Bónus og Kolaportið. Síðan bakaði ég unaðslega súkkulaðiköku með rjóma. Því næst fórum við á brennu í Hafnarfirði og svo eldaði Roberto handa okkur. Ég ligg nánast afvelta af ofáti núna. I think I will keep him!!
Í nótt legg ég af stað til Danmerkur og skil kisurnar mínar eftir í umsjá Roberto næstu viku. Ég verð þvílíkt fegin að losna við allar þessar sprengingar sem eru að gera mig brjálaða. Þá á ég við flugelda. Það er búið að vera non stop sprengingar í allt kvöld og í gærkvöldi var sama sagan. Það mætti halda að einhverjir nágrannar mínir hafi komist yfir heilan gám af þessum ófögnuði.
Ég er búin að pakka og panta leigubílinn og nú bíð ég bara eftir að tíminn líði. Danmark her kommer jeg!!

03 janúar 2008

Kominn í leitirnar!!!

Ég var vakin klukkan hálfníu í morgun með þeirri gleðifrétt að Dirty Harry væri fundinn heill á húfi. Ég var eitthvað að hafa áhyggjur af hvernig ég ætti að aftengja þjófavörnina því ég er auðvitað bara með varalykilinn sem setur allt í gang þegar ég opna. Þetta elskulega lögreglupar bauðst þá til að bíða eftir mér og aðstoða mig við að kippa henni úr sambandi. Þegar til kom þurfti þess þó ekki því bíllinn var ólæstur og þjófavörnin ekki í gangi. Ég spurði hvar hann væri og þegar svarið var rétt hjá þeim stað þar sem honum var stolið þá var það fyrsta sem mér flaug í hug að Valur hefði gleymt því hvar þeir höfðu lagt honum. Hann er nefnilega ansi gleyminn drengurinn og utan við sig stundum. Það reyndist þó ekki vera heldur var bíllinn á bílastæði stutt frá Orkuhúsinu og ég varð ansi ánægð að sjá bensínmælinn hærra uppi en hann hafði verið.

Nú er ég byrjuð að telja niður fyrir Danmerkurferð og keypti mér flugfar með Sterling frá Kastrup til Álaborgar í dag á 230 DKK sem er nú bara ódýrara en að taka lestina. Ég þarf að vísu að eyða hluta úr deginum í Köben því ódýrasta farið var ekki fyrr en um sexleytið. Það er hið besta mál finnst mér, geymi bara töskuna á flugvellinum og skrepp í bæinn. Eins gott það verði ekki rok og rigning eins og er hér upp á hvern dag.

02 janúar 2008

Dirty Harry er týndur!!

Nafnið vísar í bílnúmerið á Galantinum hans Vals sem er DH 665. Mér fannst það hæfa honum enda svartur og mystískur (með skyggða afturglugga) eins og nafni hans í kvikmyndinni. Á nýársnótt hefur einhver ekki nennt að labba heim eftir áramótadjammið á Broadway því vinur Vals hafði látið geyma jakkann sinn og voru bíllyklarnir í vasanum. Hann greiddi uppsett geymslugjald en þegar hann ætlaði að sækja jakkann aftur og afhendir geymslumiðann þá er jakkinn bara horfinn og bíllyklarnir þar með. Bílhvarfið uppgötvaðist þó ekki fyrr en kvöldið eftir þegar menn voru að skreiðast á lappir eftir áramótagleðina. Ég vona bara að bílþjófurinn hafi látið sér nægja að komast staða á milli um nóttina og skilið bílinn síðan eftir einhvers staðar. Alla vega þá bið ég fólk að hafa augun opin fyrir mig. Verst ég var nýbúin að kaupa slatta af bensíni á bílinn.