27 júní 2007

Pizzaveisla

Eins og alþjóð veit þá baka ég bestu pizzur á Íslandi ;-) Valur var að kvarta yfir því hvað væri langt síðan ég hefði bakað pizzu svo ég ákvað að bretta upp ermarnar og bjóða til veislu. Þið getið skoðað myndir af dýrðinni hér

25 júní 2007

Fluga á vegg

Það er dularfull fluga sem situr á veggnum fram á gangi. Hún er pínulítil og gul, ja eða kannski glær því veggurinn er gulur, og með risastór svört augu (flugan sko ekki veggurinn). Þetta er kannski stökkbreytt ávaxtafluga sem hefur sloppið út af rannsóknarstofu. Minna vinkona mín sem er líffræðingur sagði líffræðingana á kaffistofunni í Háskólanum í Árósum og Helskinki (þar sem hún hefur verið að krukka í froska) alltaf þekkjast á ávaxtaflugunum sem sveimuðu í kringum þá.

24 júní 2007

Má bjóða þér í pappamat?

Ég rakst á áhugaverða myndasyrpu sem heitir What the World eats
Það sem stakk mig mest eru allar þessar umbúðir í löndum þar sem ríkir svokölluð velmegun. Spurning hvort sé heilsusamlegra fyrir líkamann, umbúðirnar eða innihaldið með öllum sínum E-efnum og öðrum aukaefnum.

Limra

Sjáðu fuglana frændi minn.
Ja frændi, hvur andskotinn.
Fljótur hér, framundan þér.
Þeir fljúga með rófuna á undan sér.

Ég er afskaplega hrifin af limrum og má líklega rekja það til Þorsteins Valdimarssonar og limrunnar hér að ofan. Ég var ekki gömul þegar ég lærði hana og finnst hún alltaf jafnskemmtileg. Hann myndskreytti limrurnar sínar og með þessari var mynd af strák sem góndi upp í himininn á svani sem flugu yfir. Bókin hans Limrur er svo sannarlega skemmtileg lesning bæði fyrir börn og fullorðna.

21 júní 2007

Make love not terror

Skemmtilegt myndband sem ég nappaði af bloggi Lisu Goldman

20 júní 2007

Sautjándi júní í hundana

Ég var á röltinu í bænum allan 17. júní (í vinnunni) og tók eftir því að önnur hver fjölskylda var með hund með sér. Þarna mátti sjá allar stærðir og tegundir allt frá gjammandi smáhundum í sparifötum upp í vígalega dobermann. Merkilegasti hundurinn fannst mér vera hvítur stór hundur sem leit út eins og ísbjörn með hramma og stutt breitt trýni en hann var ósköp gæðalegur á svipinn þó. Ekki sá ég einn einasta bastarð eins og Bangsa minn heitinn sem var blanda af mörgum tegundum, það lætur ekki nokkur maður sjá sig með svoleiðis hund á almannafæri í dag. Mér fannst líka athyglisvert að skoða eigendurna. Pínulitlir smáhundar henta greinilega konum og börnum á meðan að karlarnir láta ekki sjá sig með minni hund en labrador eða boxer. Dobermann er augljóslega hundur handrukkarans og sjálfsagt vænlegri til árangurs en hafnaboltakylfa. Reykjavík er greinilega að verða stórborg þar sem hundar eru jafnvelkomnir og fólk. Mér finnst það nú bara góð þróun.

14 júní 2007

Aldraðir ómagar

Tómas gamli á neðri hæðinni er kominn á Grund mér til mikils léttis. Ekki af því að það hafi verið eitthvað vesen fyrir mig að hann væri heima heldur fannst mér sorglegt til þess að vita að hann lægi í rúminu sínu vikum og mánuðum saman án þess að fá nokkra umönnun og biði þess bara að deyja. Karlanginn er orðinn blindur og er með krabbamein. Hann stóð varla í fæturna og sonarómyndin gaf honum að borða þegar honum hentaði. Ég heimsótti hann á Litlu Grund á þriðjudaginn og þvílík breyting á karlinum. Þarna voru gamlir skólafélagar hans úr MR og hann fær alla þjónustu, aðstoð við böðun (sem hann er sérdeilis ánægður með he he he), þvegið af honum og reglulegar máltíðir. En Adam var ekki lengi í Paradís því Tryggingastofnun var fljót að þefa hann uppi (með hjálp Grundar) og nú fer allur ellilífeyrinn hans beint inn á reikning Grundar. Honum er svo úthlutað 5000 kr. á mánuði í vasapening. Þetti setti strik í reikninginn því hann er ekki tilbúinn að selja íbúðina sína og þarf að borga af henni 30.000 kr. á mánuði sem eru dregnar sjálfkrafa af ellilífeyrinum við hver mánaðamót. Ég benti honum á að það væri nú kannski kominn tími til fyrir soninn (fimmtuga) að leggja til heimilisins og ekki seinna vænna fyrir hann að takast á við það að standa á eigin fótum áður en sá gamli fer til feðra sinna. Jaaaá það væri liklega rétt en hann hafði nú ekki neina óskaplega trú á því að það tækist. Við sjáum til þegar ég er komin í málið ha ha ha, nú fæ ég smáútrás fyrir stjórnsemina í mér. Hann fær að vísu 40.000 frá Lífeyrissjóðnum 15. hvers mánaðar sem ætti að dekka afborgun af íbúðinni svo það verður örugglega hægt að leysa þetta einhvern veginn. En mikið óskaplega er ömurlegt að þurfa að verða hreinlega ómagi þegar maður er orðinn gamall.

09 júní 2007

Kóngulóin gerir ekki flugu mein!

Ég heyrði nýlega auglýsingu frá meindýraeyði sem var að auglýsa að hann hreinsaði kóngulær utan af húsum og rak upp stór augu. Kóngulærnar sem eiga heima utan á mínu húsi eru nefnilega vinkonur mínar. Mér finnst frábært ef einhver þeirra kemur sér fyrir utan á glugganum og ég get fylgst með henni frá því hún er pínulítil á vorin og þar til hún er orðin stór og spikfeit á haustin. Ég leyfði einu kríli að hafa vetursetu fram á gangi hjá mér enda fór lítið fyrir henni greyinu. Hún kom sér fyrir uppi við ljósið og kúrði sig í litla kúlu svo ég var ekki viss hvort hún væri lifandi eða dauð. Þar var hún í sömu stellingu sofandi þar til fór að hlýna í vor en þá staulaðist hún að glugganum og ég opnaði fyrir henni. Hún fór samt ekki langt heldur bjó sér til vef utan á glugganum og nú fylgist ég með henni í lífsbaráttunni. Enn er hún ósköp veimiltítuleg enda búið að vera frekar lítið um flugur í kuldanum, það er nefnilega rangt að kóngulóin geri ekki flugu mein.

08 júní 2007

Kínamaður

Ég var að horfa á viðtal við 93ja ára gamlan karl í Peking sem er enn sprækur sem lækur þrátt fyrir að hafa lifað nærri heila öld. Hann er laufléttur á fæti og byrjar daginn á að fá sér göngutúr á einni af mörgum stigvélum sem standa í röð á gangstéttinni. Svo er bara að skella sér í vinnuna og klippa nokkra hausa á rakarastofunni sem er stóll á annarri gangstétt. Lífsgleðin skín af þeim gamla þegar hann spjallar hlægjandi við fréttamanninn. Svo fær hann sér smók af sígarettunni sinni!!!!

Velkomin á nýja "heimilið"

Þegar ég byrjaði að blogga þá fannst mér svo ógnvekjandi tilhugsunin um að fólk læsi það sem ég skrifaði þannig að ég takmarkaði lesendur við fjölskylduna. Með tímanum jókst mér ásmegin og ég opnaði fyrir fleiri en eftir að hafa fengið þó nokkrar kvartanir um að geta ekki kommentað á það sem ég skrifa, þá hef ég tekið þá ákvörðun að flytja "að heiman" og hreiðra um mig hér á blogspot. Eins og venjulega þegar maður flytur í nýtt húsnæði þá er hálftómlegt um að litast en ég bæti úr því smám saman.