22 mars 2009

Endurhæfing

Ég er komin í markvissa endurhæfingu til að komast yfir síþreytuna. Fór til læknis í vikunni sem sagði ekkert annað duga ef ég ætti að ná mér aftur, þetta væri einskonar andleg þreyta í kjölfar taugaáfallsins sem ég fékk fyrir nærri tveimur árum.Fólki gengi oft erfiðlega að ná sér aftur á strik þegar það lendir í þessu. Í gær var fyrsti dagur í endurhæfingu og byrjaði ég á því að fara í sund, rétt slefaði 200 metrana sem er hrikalegt miðað við hvað ég hef verið vön að synda. Kom svo við í Bónus á heimleiðinni og verslaði grænmeti. Bjó mér til þennan líka góða hummus með grænmetinu nammmmi. Sennilega var þetta meira að segja heldur mikið fyrir mig því ég lá alveg bakk það sem eftir var dags. Hefði alveg eins getað verið að ljúka maraþoni miðað við líðanina. Flökurt og með verki um allan skrokk, lá bara og hlustaði á tónlist allt kvöldið því ég gat hreinlega ekki reist höfuð frá kodda. Þegar mér tókst að safna kröftum til að skreiðast inn í rúm þá rotaðist ég næstu 12 tímana. Er á leiðinni í sund aftur en er að hugsa um að fara bara 150 metra til öryggis því ég er ennþá frekar búin á því eftir gærdaginn.
Kunningjakona mín sem á litla líkamsræktarstöð var svo yndisleg að gefa mér 10 tíma í bekkina sína og ætlar að hjálpa mér að komast yfir erfiðasta hjallann. Ég fæ nudd og alles hjá henni og hlakka til að fá sjálfa mig aftur til baka.

2 ummæli:

AnnaKatrin sagði...

Gangi þér vel með þetta verkefni.
Kveðja, ak.

Nafnlaus sagði...

Farðu vel með þig Guðlaug mín. Gangi þér vel að safna kröftum.
Kveðja
Rannveig Árna