28 janúar 2009

Fastir liðir eins og venjulega

Í gær byrjaði ég aftur að kenna. Er með tvö námskeið í röð frá 17 - 20.20 þrisvar í viku. Loksins segi ég nú bara, þetta er hreinlega skemmtilegasta starf sem ég hef unnið við og ég var full eftirvæntingar að byrja. Ég er búin að vera með einhverja undarlega pest í næstum tvær vikur en sem betur fer virðist hún vera að fjara út. Ennþá er ég ekki alveg laus frá háskólanum, þeir sem féllu hjá mér þar þurftu að skila aftur lokaskýrslum sem ég hef verið að fara yfir og þarf að skila af mér á föstudaginn. Nú verð ég að setjast niður og skrifa grein upp úr ritgerðinni minni á íslensku og ensku. Þessi pest setti strik í reikninginn en nú dugir ekki annað en að koma skipulagi á daglega lífið.
Ég held að veturinn sé kominn fyrir alvöru, það kyngir niður snjó og ég sé fram á tröppumokstur næstu daga.

20 janúar 2009

Ný stefna

Jæja þá er ég búin að taka ákvörðun um að sækja um doktorsnámið í Danmörku. Adriënne vinkona mín kemur í febrúar og verður hjá mér í 3 vikur, hún er með þetta allt á hreinu hvernig umsóknarferlið er svo ég fæ hana til að aðstoða mig. Svo er bara að krossa fingur og vona það besta. Ef ég kemst inn þá fæ ég laun frá skólanum sem eru víst bara ágæt (rosalaun í íslenskum krónum auðvitað).
Eins og nærri má geta þá hefur dregist saman í íslenskukennslunni en ég er þó víst með þrjú örugg námskeið hjá sama fyrirtækinu og ég hef verið að kenna hjá sl. ár. Fékk að vita þetta síðasta föstudag en er ekki byrjuð ennþá. Kannski eins gott því ég er búin að vera með einhverja lumbru í mér frá því á laugardag. Lét það þó ekki aftra mér frá því að heimsækja Amal upp á Akranes í gær og gisti hjá henni. Lærði nýja bráðholla uppskrift og að sjálfsögðu fljótlega og ódýra. Ég er bara að verða búin að viða að mér þó nokkrum slatta af arabískum uppskriftum frá henni og fæ að sjálfsögðu einkakennslu :) Gunnar Björn er svo notaður sem tilraunadýr þegar ég prufukeyri uppskriftirnar.

10 janúar 2009

Ameríski mánuðurinn

Ég kveikti á netsjónvarpi enska Aljazeera í kvöld til að horfa á fréttir frá Gaza. Þið getið ímyndað ykkur undrun mína að sjá Geir Haarde á skjánum!! Því miður var það ekki vegna þess að Ísland hefði slitið stjórnmálasambandi við Ísrael heldur var þáttur um fjármálakreppuna á Íslandi. Ég náði nú bara síðustu mínútunum en þetta virtist nokkuð ítarleg umfjöllun þar sem var m.a. rætt við Geir, Hörð Torfa, konu sem ég náði ekki nafninu á, Sverri Ólafsson og einn mann í viðbót. Þó nokkrar landslagsmyndir voru sýndar sem skila sér kannski í nokkrum túristum með fulla vasa af gjaldeyri. Talandi um túrista, það er heilmikil traffík á sófanum hjá mér þessa dagana og svo virðist sem janúar ætli að verða ameríski mánuðurinn því 4 af 5 eru Bandaríkjamenn.

04 janúar 2009

Kreppuklipping



Valur ákvað að spara sér 3.500 kall í klippingu og þeir Daníel hjálpuðust að við rúninguna á Gamlárskvöld og tókst bara vel upp. Ég býst við að gera það sama enda orðin vön því. Maður hefur nú sjaldan haft efni á þeim lúxus sem fátækur námsmaður enda er ég orðin bara nokkuð lúnkin við snyrta sjálf á mér hárið.