30 ágúst 2007

Aftur á byrjunarreit

Jæja ekki reyndist þetta vera Einkyrningasótt og eins er búið að útiloka streptokokka þannig að nú erum við aftur á byrjunarreit. Ég fór því á læknavaktina í kvöld og bar mig illa svo doksi ákvað að senda mig í allsherjarblóðprufu á morgun þar sem 24 atriði verða tékkuð. Á að fá niðurstöðu á mánudag og krosslegg fingur að einhver skýring finnist.

28 ágúst 2007

The great mystery???

Musso musso! Þetta er halló á japönsku, mér finnst það svo fyndið. Var að horfa á japanska mynd og hélt fyrst að þeir væru að fíflast þegar þeir svöruðu í svona í gemsana sína ha ha ha.
Síðustu vikur hefur einhver dularfull veiki verið að hrjá okkur Daníel. Ég er búin að vera svona frá því um miðjan júlí og er orðin frekar þreytt á þessu. Grunur leikur á að þetta geti verið einkyrningasótt því mörg einkennanna benda til þess. Bara svo þið vitið það þá smitast hún ekki eingöngu með kossum enda höfum við Daníel pottþétt ekki verið í neinu kossaflensi a.m.k. ekki við hvort annað. Annars á hann að fara í blóðprufu á morgun og fær niðurstöðu á fimmtudag svo ég bíð og sé til hver niðurstaðan verður. Ég er samt allavega laus við kvefið sem ég fékk um daginn en DAMN hvað ég er búin að fá nóg af þessu pestarveseni. Já og svo er ég víst járnlaus og á að dæla í mig járni þar til ég segi bojojojong.

26 ágúst 2007

Álfamærin í skóginum

Eivør Pálsdóttir - Brostnar Borgir (live)

23 ágúst 2007

Islam og kristni

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er ég annað slagið með stutta pistla á mannfræðiblogginu mínu um Islam. Er búin að skrifa tvo um Adam og Evu og Jesús og Maríu.

Valbjörg

Ég vil benda fjölskyldunni á að Valbjörg hefur verið uppfærð enda hefur yours truly stjórnsama tekið við stjórninni þar. Það er linkur á hana hérna á Netfrænkunni undir Forfeður og frændgarður.

22 ágúst 2007

Bílar í dag

Ég er greinilega enn í gamla tímanum þegar kemur að bílum. Allt þetta rafmagnsdót og þjófavarnir eru fyrir ofan minn skilning. Ég fékk nýja bílinn hans Vals lánaðan og lenti í ægilegum hremmingum. Það er auðvitað þjófavörn í honum og ef opnað er með lykli þá fer hún í gang með miklum látum. Ég var eitthvað klaufsk með fjarstýringuna og fékk hana engan veginn til að aflæsa bílfjandanum. Einhvern veginn tókst mér samt að starta bílnum og hann enn læstur!!! Það greip mig að sjálfsögðu algjör panik og ég sá bílinn fyrir mér bruna af stað á undan mér. Því greip ég til þess ráðs að opna með lyklinum sem setti náttúrulega þjófavörnina í gang. Mér tókst á einhvern hátt að slökkva á henni og hef ekki hugmynd um hvernig, en það drapst líka á bílnum. Nú þá ætlaði ég að starta honum með lyklinum en nei nei fer ekki bölvuð þjófavörnin aftur í gang og mér brá svo að ég ýtti eins og brjálæðingur á alla takka á fjarstýringunni og tókst á endanum að slökkva á þessu drasli. Held ég sé búin að ná tökum á þessu núna.

21 ágúst 2007

Já konan

Jæja þá er ég búin að bæta við mig vinnu. Algjör já kona þessa dagana, en maður verður að grípa hvert tækifæri sem kemur á framabrautinni er það ekki? Mér bauðst sem sagt að taka að mér einn umræðuhópinn í Eigindlegum rannsóknum I. Það er bara 40 mínútur einn morgun í viku en að vísu er hellings vinna að fara yfir öll verkefnin sem þau skila. Þetta er bara svo ansi gott fyrir ferilskrána mína, ekki veitir af að bæta
á hana áður en ég sæki um doktorsnámið. Ég er heldur ekki í neinum kúrsum núna svo þetta ætti ekki að ganga alveg frá mér.
Sveppurinn er að skila sínu og orkan á uppleið. Kvefið nánast horfið.

19 ágúst 2007

Á sveppum

Það er ekki svo slæmt að ég sé farin að tína sveppi á umferðareyjum he he he. Ég kom við í Jurtaapótekinu í gær og bar mig illa vegna eilífs pestargangs. Kolbrún var ekki lengi að rétta mér malaðan kínverska svepp sem er víst algjör töfrasveppur þegar kemur að því að byggja upp ónæmiskerfið. Nú er bara að sjá hvort Reishi sveppurinn magnaði komi mér
ekki til heilsu á ný. Í bónus yngist maður víst upp við að taka hann svo fylgist
með breytingunni á mér :-D

Annars langar mig til að benda fólki á að ef það vill láta gott af sér leiða og getur séð af einhverjum aur þá sér hin frábæra kona Jóhanna Kristjónsdóttir um að útvega styrktaraðila til náms fyrir börn og konur í Yemen. Menn skuldbinda sig aðeins til eins skólaárs í einu. Yemen er eitt af fátækustu arabalöndunum en með því að hjálpa einum einstakling til að
mennta sig þá ertu að auka líkurnar á t.d. auknum réttindum kvenna í framtíðinni. Hvert lóð á vogarskálina skiptir máli. Smelltu hér til að skoða heimasíðuna hennar Jóhönnu.

17 ágúst 2007

Tengslamyndun

Jiiiiii hvað það er búið að vera gaman síðustu tvo daga. Fyrsta mannfræðiráðstefnan mín og ég stýrði tveimur málstofum sem gekk aldeilis prýðilega. Ég var nú alveg búin á því eftir fyrri daginn og var dauðhrædd um að slá niður. Fór því beint heim og í rúmið og sem betur fer slapp það til. Ráðstefnunni lauk svo í kvöld með kokkteilboði en ég þurfti að skreppa heim í millitíðinni að hvíla mig til að hafa það af. Það er nefnilega algjört möst að mæta í svoleiðis því þar er góður vettvangur til að koma á tengslum við annað fólk í mannfræðinni sem geta nýst á margan hátt. Ég var því dugleg að spjalla við fólk og er komin með fullt af nýjum tengslum sem verður spennandi að sjá hvert leiða mig. Það var líka alveg ótrúlega gaman að tala við fólk sem maður hefur ýmist heyrt um eða verið að lesa greinar eftir í náminu því þarna komu íslenskir mannfræðingar alls staðar að. Ýmist fólk í doktorsnámi erlendis eða með stöður við erlenda háskóla.
Ég sem hef aldrei verið sérlega góð í að mingla var bara eins og ég hefði aldrei gert annað. Er svoleiðis í skýjunum eftir ráðstefnuna og full af starfsorku. Nú hlakka ég bara til að demba mér út í að byrja að skrifa og ná hausnum upp úr bókunum. Þetta var bæði mikið pepp fyrir mig og eins náði ég að staðsetja mig svolítið út fyrir verkefnið og fá þá yfirsýn sem ég þarf til að halda áfram. Lífið er bara frábært :-)

16 ágúst 2007

Loftbretti

Ég er búin að finna vetraríþróttina mína!!
Öfugt við snjóþotubrun sem var í uppáhaldi hjá mér, þá er nokkuð auðvelt að stjórna loftbrettunum. 
Var að horfa á þátt á Aljazeera um þessa nýju íþrótt. Íslendingar verða örugglega ekki lengi að tileinka sér hana. Algjör snilld!! 

14 ágúst 2007

Jinxed

Ég var varla búin að vista síðustu færslu þegar yfir mig helltist hálsbólga, höfuðverkir og beinverkir sem hafa hlekkjað mig við rúmið í heila fimm daga! Nú nokkrum snýtirúllum síðar held ég að þetta sé loksins að taka enda. Ég er a.m.k. farin að geta andað þokkalega aftur þökk sé vallhumalsblómunum góðu. Eins gott þvi á fimmtudag og föstudag verður mannfræðiráðstefna þar sem ég á að stýra tveimur málstofum sitt hvorn daginn. 

08 ágúst 2007

Ég er læknuð!!!

Segið svo að íslenskar jurtir séu ekki kraftmiklar. Pabbi er á sömu skoðun og ég. Hann hafði það eftir Gutta á Hallormsstað að vallhumalsblóm læknuðu krónískar kinnholsbólgur og "lagði til" að ég reyndi þau á mér. Ég kom því nú aldrei í verk að tína blómin þegar ég var fyrir austan en fyrir viku síðan fékk ég senda krukku frá mömmu með að mér sýnist ársbirgðum af þurrkuðum vallhumalsblómum (við systur kölluðum þau nú alltaf gæsablóm, ekki veit ég afhverju). Ég sauð mér strax seyði og hef drukkið eitt glas á dag síðan og sleppt því að nota sterana. Viti menn í gær fann ég að eitthvað var að gerast og var alveg óstífluð í nefinu í nótt. Í dag finn ég varla fyrir þessu svo það fer ekki á milli mála að ÉG ER LÆKNUÐ!

Það sama á víst ekki við um fröken Snædísi. Hún tók aftur upp gamla ósiði og því ekki um annað að ræða en halda áfram að svæla í hana kvíðalyfjunum. Ég held ég reyni ekki aftur að trappa hana niður af þeim. Annars má ég víst reikna með því að sitja uppi með annan kattarsjúkling ef ég fer ekki að halda í við hana Scarlet. Ég sá í fréttunum í kvöld að sykursýki hjá köttum er að verða ansi algeng, orsökin er víst ofeldi og Bónus kattamatur sem mun jafnast á við ruslfæði eins og hamborgara og franskar hjá okkur mannfólkinu. Reyndar dekra ég mínar kisur svo mikið að þær fá sko Euroshop túnfisk með þurrmatnum (ruslfæðinu) á hverjum degi. Ég held það sé nú samt langt í það að Scarlet verði jafn akfeit og kattarræfillinn sem sýndur var í fréttunum. Hann gat varla gengið fyrir spiki og minnti helst á útblásna blöðru með fjóra stubba sem stóðu út í loftið á hliðunum. Enda þurfti greyið aðstoð við að komast um og púða undir höfuðið því þegar hann lá á hliðinni þá náði hausinn ekki niður svo út tútinn var hann. Svo var breitt lítið teppi yfir hann. Bwahahaha þetta minnti mig á þegar ég var í dúkkuleik með svarta Dónald, köttinn sem við áttum þegar ég var lítil. Hann var með hringað skott eins og hundur og afskaplega barnvænn köttur.

02 ágúst 2007

Krydd dagsins í strætó!

Eitt það skemmtilegasta við að ferðast með strætó eru óvæntar uppákomur sem krydda daginn hjá mér. Í dag fór ég með strætó í Mosó og var ferðin uppeftir nokkuð tíðindalaus fyrir utan nokkra unga Svía á leið upp á Esju. Blessaðir drengirnir veltu því fyrir sér alla leiðina (í hálftíma) muninn á fahrenheit og celcius og í hvert sinn sem sást skilti með hitatölum var byrjað að reikna og rökræða.
Á bakaleiðinni var keyrður rúntur í gegnum Mosfellsbæinn og fylltist vagninn svo af fólki að einhverjir þurftu að standa. Eins og við er að búast þar sem margt fólk er saman komið þá heyrist mikið skvaldur og hávaði. Nú er vagninn kominn að síðustu stoppistöðinni áður en hann leggur af stað í bæinn en þá bregður svo við að vagnstjórinn neglir niður, stendur upp, snýr sér að farþegunum og þrumar yfir liðið: ÉG VIL SJÁ HVERT SÆTI SETIÐ Í VAGNINUM!!!! ÞAÐ VERÐUR EKKI LAGT AF STAÐ FYRR EN ÖLL SÆTI ERU SETIN!! Það hefði mátt heyra saumnál detta svo mikil þögn varð í stappfullum vagninum. Sem snöggvast var ég fimm ára aftur og átti það greinilega við um fleiri, andrúmsloftið var eins og vagninn væri fullur af skömmustulegum börnum þrátt fyrir að farþegar væru á öllum aldri. Síðan stikaði gjammarinn aftur í vagninn: ÞARNA ER LAUST SÆTI...OG ÞARNA...OG ÞARNA. Hann þurfti ekki að segja fólki það tvisvar, menn stukku umsvifalaust í lausu sætin þegjandi og hljóðalaust. Á leiðinni í bílstjórasætið kom hann auga á tvo unglingspilta sem stóðu fremst í vagninum og benti um leið og hann þrumaði: ÞIÐ TVEIR....ÉG VIL SJÁ YKKUR Í MIÐJUM VAGNINUM!! Strákgreyin hröðuðu sér á "réttan" stað og nú var loks hægt að leggja af stað. Hjúkk hvað ég var fegin að hafa verið með sæti.
Já Strætó klikkar ekki ha ha ha!!

Ranimosk

er búðin þeirra Maríu frænku og Braga. Þau voru að opna hana aftur í gær eftir fæðingarorlof á þessum fína stað á Laugavegi 20. Ég fór á opnunina í gær og hvet alla sem eiga leið um Laugaveginn að líta þar við. Þarna má fá alls konar skrýtna og skemmtilega hluti allt frá póstkortum úr svampi eða tré, jesúplástrum, skartgripum, áprentaða boli, stílabækur og margt fleira. Þau eru bæði með vörur sem þau gera sjálf eins og stílabækurnar sem þau prenta kápurnar á, póstkort í gömlum stíl og líka vörur frá öðrum eins og svamp og trépóstkortin. Endilega að kíkja við og sjá hvort þið finnið ekki eitthvað sniðugt.