30 júní 2008

Morgunverður á Ítalíu


Ég stóðst ekki mátið að setja inn þessa mynd af Kristínu við morgunverðarborðið. Við tíndum ávextina af trjánum í þessari paradís. Já og ástæðan fyrir því að við erum nokkrum kílóum þyngri eftir þessa ferð er maturinn hennar Ninu sem við "neyddumst" til að borða. Hún sendi okkur meira að segja heim með sína tertuna hver í farteskinu og ég get vottað það að ítalskt bakkelsi er það besta í heimi!!

Lolla á Ítalíu

Já ég er komin heim í íslenska sumarið! Satt að segja þá kann ég bara vel að meta kulið í loftinu eftir molluna í Casalabate og það var ákveðin fró í því að finna kuldann nísta inn að beini eftir margra klukkutíma tónleika á laugardagskvöldið. Síðustu 3 dagarnir voru mér svolítið erfiðir þegar hitinn var kominn vel yfir 30°C enda hélt ég mig ýmist innandyra eða í skugganum þar til seinnipartinn en kvöldin voru best. Reyndar fékk ég líka nýtt nafn á Ítalíu en þar geng ég undir nafninu Lolla. Ástæðan fyrir því er að það er vonlaust fyrir Ítali að bera fram nafnið Guðlaug en þegar ég bauð þeim að nota Gulla í staðinn þá sló fyrst þögn á mannskapinn en síðan hófst mikil diskúsjón á ítölsku sem endaði með því að mér var tilkynnt að þau gætu bara alls ekki kallað mig RASS (eins og Gulla hljómar víst á ítölsku) því væru þau með þá tillögu að kalla mig Lollu sem ég samþykkti auðvitað umsvifalaust því hver vill vera kallaður RASS eða RASSA. Ég set fljótlega inn myndir á netalbúmið mitt, er búin að vera ægilega bissí eftir að ég kom heim, þurfti að skila af mér til Unnar Dísar í dag og hitti hana í fyrramálið að ræða framhaldið. Er líka með fullt hús af sófagestum í nokkra daga en þeir sjást nú bara snemma á morgnana og kvöldin.

12 júní 2008

Farin í sólina!

til Ítalíu með Kristínu systur og Stefaníu Ósk. Kem aftur 26. júní, reyni að blogga eitthvað þaðan ef ég kemst einhvers staðar í netsamband. Verð að viðurkenna að mér finnst pínulítið erfið tilhugsun að vera ekki í reglulegu netsambandi. Ciao!!!!

08 júní 2008

Stöff í eyrað

Ég á við þann vanda að stríða að önnur hlustin á mér stíflast svona einu sinni á ári. Það gerðist einmitt síðasta fimmtudag þannig að upphófust miklar hreinsunaraðgerðir sem báru ekki árangur fyrr en á föstudag. Ég held ég hafi verið búin að sprauta nokkrum lítrum af vatni í eyrað á mér áður en tappinn fór. Daníel benti mér á nýja aðferð sem er svokallað eyrnakerti. Ég sá þetta einhverntíman auglýst á einhverri snyrtistofu og var mikið búin að velta fyrir mér hvað í ósköpunum það væri. Að mér skilst er sérstakt kerti (held maður geti ekki notað gamalt jólakerti) sett yfir hlustina og svo er kveikt á því. Hitinn frá því bræðir víst allann merginn sem síðan lekur úr eyranu. Ég veit ekki mér líst ekki meira en svo á þessa aðferð, myndi sjálfsagt enda með að kveikja í hárinu á mér. Í staðinn keypti ég einhverja olíu sem sprautað er í eyrað reglulega og á að gera sama gagn. Við Daníel fengum okkur saman í eyrað á föstudagskvöldinu og það þrælvirkaði...gott stöff maður.

05 júní 2008

Kona á barmi taugaáfalls

Ég er víst búin að vera ódugleg að blogga upp á síðkastið. Ástæðan er aðallega sú að það er bæði búið að vera mikið að gera hjá mér og svo er ég eiginlega á síðustu orkudropunum. Ég fékk skýringu í síðustu viku á því hvað gerðist hjá mér síðasta sumar þegar líkaminn gafst upp og ég gat ekki svo mikið sem haldið á vatnsglasi. Þetta var víst taugaáfall og þeir sem það hafa fengið segja mér að það geti tekið langan tíma að ná sér aftur. Þar sem ég gaf mér engan tíma til þess og var fljótlega aftur að drukkna í vinnu þá má ég víst þakka fyrir að vera ekki búin að fá annað áfall. Ég ákvað því að afþakka alla vinnu í júlí og ágúst og lifa á Kaupþing banka á meðan ég klára MA verkefnið mitt. Þannig að vonandi kem ég úthvíld og endurnærð frá Ítalíu í lok júní tilbúin í slaginn. Nú er bara vika í Ítalíu og dagarnir silast áfram ég hlakka svo til. Ég klára tvö síðustu námskeiðin næsta miðvikudag og stekk svo upp í næstu vél morguninn eftir.

01 júní 2008

Myndir og ljóð

Í gær var opnuð ljósmyndasýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Það er sjálfur Viggo fagri Mortensen sem er með þessa sýningu. Ég ákvað að skella mér á opnunina, ekki bara í þeirri von að berja Viggo augum ef þið hafið haldið það! Sá honum reyndar bregða fyrir eitt lítið andartak. Svo mikil sveitamanneskja sem ég er þá átti ég engan vegin von á svona miklum áhuga fólks á sýningunni. Ég kom klukkan tvö og þá var komin löng biðröð af fólki og virtist meira en helmingurinn vera túristar sem þóttust sjálfsagt komast í feitt að komast á þessa sýningu. Sem betur fer stendur sýningin yfir fram í lok ágúst því það var varla nokkur möguleiki að skoða myndirnar fyrir öllu þessu kraðaki af fólki. Ég var eiginlega komin með smá innilokunarkennd og ákvað að koma frekar seinna þegar um hægist. Á leiðinni út kom ég við í afgreiðslunni þar sem verið var að selja ljósmyndabækur, ljóðabækur, plaköt o.fl. eftir kappann. Þar var svo sannarlega handagangur í öskjunni og afgreiðslukonurnar orðnar sveittar og rjóðar af því að sækja nýja og nýja kassa af bókum á 4.000 kall stykkið sem rifnar voru út af æstum aðdáendum. Ég rakst á gamla bók eftir hann með ljóðum og myndum á 1.500 kr og fjárfesti í henni, með bókinni fylgir diskur þar sem hann les sjálfur upp ljóðin og ég er að sjálfsögðu himinlifandi með þessi kaup. Ég sá nú samt enga ástæðu til að biðja um eiginhandaráritun enda hef ég aldrei skilið hvað er svona merkilegt við það að fólk kroti nafnið sitt á hluti. Annars er ég nokkuð ánægð með hann Viggo því allur ágóði af sýningunni rennur til Náttúruverndarsamtaka Íslands, hann er nefnilega svo ríkur að hann þarf ekkert á peningunum að halda. Þeir sem vilja styðja NÍ geta því fjárfest í ljósmynd á 30-35.ooo, bók eða plakati. Nú ætla ég að koma mér vel fyrir og hlusta á Aragorn fara með ljóð fyrir mig.