30 apríl 2009

Heim á ný

Loksins fékk Beth að fara heim af fæðingardeildinni í dag. Það gekk eitthvað erfiðlega að ná niður blóðþrýstingnum en á þriðjudag fékk hún ný blóðþrýstingslyf sem virðast virka betur. Hún var alveg búin að fá nóg eftir viku spítalamat og sjúkrarúm. Ekki slæmt að komast heim í rúmið sitt og matinn hennar Önnu Gerðar ;) Að öðru leyti hefur hún það fínt og skurðurinn grær vel. Sá litli dafnar prýðilega og var held ég bara ánægður að koma heim til sín. Fyrsta nóttin er að vísu ekki ennþá liðin. Ég kíkti aðeins við hjá þeim í kvöld og sníkti auðvitað mat hjá Önnu. Ég var að kenna í nágrenninu en það var að byrja nýtt námskeið hjá mér sem ég kenni frá 19 - 21. Svolítið strangir dagar framundan en þetta verður nú bara þar til viku af júní.
Ég er búin að vera bíllaus frá því fyrir páska en fékk loksins hjólalegu í gær. Aron ætlar að skipta um hana fyrir mig svo kannski fæ ég bílinn um helgina. Það hefur svo sem verið fínt að labba enda hefur mér ekki veitt af hreyfingunni og orkan aukist heilmikið en það tekur óskaplegan tíma að komast á milli staða og fyrst ég er byrjuð að kenna þetta kvöldnámskeið þá verð ég eiginlega að vera á bíl annars kemst ég aldrei í háttinn fyrir miðnætti.
Valur er úti á sjó núna og enn á nýjum bát, Sighvati GK. Hann er svo heppinn að skipstjórinn á Páli Jónssyni spurði hann hvort hann mætti ekki mæla með honum við aðra skipstjóra sem Valur sagði auðvitað sjálfsagt og það hefur sannarlega skilað sér. Þetta er annar skipstjórinn sem hringir í hann. Ennþá hefur hann bara fengið afleysingar enda ekki mörg pláss sem losna en hann er nokkuð öruggur um fast pláss á einhverjum af Vísisbátunum um leið og það losnar.

Engin ummæli: