30 mars 2008

Sorg í hjarta

Mamma hringdi í mig í morgun með þá sorgarfrétt að hann Biggi Dúnu hefði dáið í vélsleðaslysi í gær. Mér finnst erfitt að trúa þessu það er svo stutt síðan ég hitti þau Birnu í Kringlunni og fékk hlýtt faðmlag frá þeim báðum. Ég kynntist Bigga og Birnu vel fyrir 24 árum síðan og þau eru eitt það yndislegasta fólk sem ég þekki. Það alltaf hefur verið svo gott að koma í heimsókn til þeirra og fylgjast með hvað krökkunum þeirra gengur vel. Ég var búin að hlakka til að koma við hjá þeim í sumar og fá mér kaffi og spjall í notalega garðinum þeirra. Á morgun átti að jarða hann Villa Rúnar bróður hans en nú verða þeir bræður sennilega jarðaðir samtímis. Elsku Birna mín ég samhryggist þér og börnunum þínum svo innilega að mig skortir orð. Ég sit hér og hágræt ég finn svo til með ykkur. Guð gefi ykkur styrk að takast á við sorgina og ég læt bænina okkar fylgja.

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
Kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli





 



 

23 mars 2008

Upprennandi veiðikló

Allar þessar músaveiðaæfingar heimasætunnar Skottu virðast hafa borið árangur. Í gær fékk hún stóran páskaunga (ekki alvöru) til að leika sér að og tók það greinilega mjög alvarlega því í morgun voru gular fjaðrir út um alla stofu. Það er greinilegt að ég verð að setja á hana kúabjöllu þegar hún fær loksins að fara út úr húsi ef hún á ekki að hreinsa hverfið af fuglum. Mér varð hugsað með skelfingu til þess ef þetta hefði nú verið alvöru fugl sem hefði fengið þessa meðferð í stofunni hjá mér. Það hefði sjálfsagt þýtt allsherjar hreingerningu á húsgögnum, veggjum og gólfum eftir blóðslettur og fiður. Vonandi kennir frú Scarlett henni góða siði þegar þar að kemur enda hefur hún aldrei veitt svo mikið sem ánamaðk öll þau 14 ár sem hún hefur lifað.
Í gær var danskt pönnukökuboð hér í Einholtinu. Málfríður, Ingileif og Sigurbjörg voru hér með sína dönsku ektamaka og fríðan barnahóp. Birna og Sirrý slógust líka í hópinn. Aldeilis gaman að fá svona sjaldséða gesti í heimsókn.

18 mars 2008

Hland fyrir hjartað

Ég fékk aldeilis hland fyrir hjartað í dag þegar röddin hjá Símanum sagði mér að ég yrði mögulega bæði net- og símalaus um Páskana. Þarna sést hvað ég er orðin háð þessari tækni, annars hef ég það mér til afsökunar að ég þarf að nota netið þegar ég er að vinna í MA verkefninu mínu. Ég var í miðju kafi að vinna og nota mikið ordabok.is sem þýðir að ég verð að vera nettengd. Allt í einu dettur netið út og þá meina ég ekki bara þráðlausa netið. Þegar ég tók upp heimasímann til að hringja þá var hann líka dauður. Ég hringdi því í þjónustunúmer Símans og rakti raunir mínar fyrir röddinni. Þetta var svo svarið sem ég fékk og ég get svarið það ég hreinlega fylltist skelfingu við tilhugsunina um netlausa Páska. Sem betur fer reyndist þetta vera bilun á símalínunni sem var snögglega kippt í lag og ég tók gleði mína á ný. Annars gruna ég sprengjuvargana hinum megin við götuna um að eiga einhvern hlut að máli. Þeir hafa sprengt eins og óðir í dag og rétt áður en netið datt út kom þvílík bomba að húsið hreinlega nötraði.

14 mars 2008

Bílaviðgerðir og bróderingar

Bíllinn fór ekki í gang síðasta mánudagsmorgun. Á ég ekki að kíkja á hann fyrir þig spurði Prim, 22ja ára ástralski sófagesturinn minn (kona N.B.). Þegar ég kom heim aftur frá því að kenna var hún búin að gera við bílinn fyrir mig!!! Þessi frábæra stelpa er sveitastelpa sem hefur flakkað um heiminn og m.a. búið eitt ár á Hawai á búgarði þar sem hún vann við að temja hesta. Hún vann líka 6 mánuði á búgarði í Texas. Núna er hún á leiðinni til Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu, ekki þó til að temja hesta.
Í gær kom alveg óskaplega krúttulegt par frá Boston. Þau eru tvítug og þegar þau voru búin að koma sér fyrir þá dró hún upp hringlaga útsaumsramma og sat við að bródera í gærkvöldi. Í dag á svo að skoða það sem Reykjavík hefur upp á að bjóða en ég ætla að elda fisk handa þeim í kvöld. Kosturinn við að hafa sófagesti er að ég elda handa mér, ég nenni ekki að elda ofan í mig eina enda kann ég ekki að elda fyrir eina manneskju. Svo hér verður boðið upp á karrýfisk sem alltaf slær í gegn og er þar að auki alveg óskaplega fljótlegur réttur. Það er munur að fá frían gæðafisk frá syninum.

06 mars 2008

Afvelta af ofáti

ÆÆÆÆ  og ÓÓÓ!!!!! Hvaða árátta er það eiginlega hjá manni að þurfa alltaf að klára af diskinum þegar maður fer út að borða. Ég ligg hér afvelta nánast með hljóðum af að troða í mig fullum diski af frábærum mexíkóskum mat í boði Hrefnu systur. Við fórum á nýjan stað sem heitir Tabasco og ég mæli svo sannarlega með honum. Bæði umhverfi, þjónusta og matur hreint út sagt frábært. Þessi veitingastaður er við Ingólfstorg í sama húsi og Victor nema gengið inn í hann Ingólfstorgsmegin. Annars held ég þessi árátta sé arfleifð frá því maður var krakki og átti alltaf að klára af diskinum sem er náttúrulega algjör vitleysa því þá hættir maður að taka mark á því þegar maður er saddur og venur krakkana á að halda áfram eftir að maginn segir stopp. 

Skotta er aftur að breima. Hér læddist einhver fressköttur inn og skvetti smávegis hormónum á ryksuguna frammi á gangi. Þær fósturmæðgur þefuðu af glaðningnum og það var eins og við manninn mælt. Táningurinn umturnaðist og liggur mænandi út um gluggann á milli þess sem hún skríður vælandi um gólfið mér til mikilla leiðinda.

Dönsku sófagestirnir mínir þrír eru komnir aftur og eru búin að koma sér fyrir í bláa herberginu. Ósköp notalegt að hafa þau hérna og það verður víst eldað ofan í mig annað kvöld og að sjálfsögðu vaskað upp líka. Algjör lúxus. Ég sit bara við tölvuna að berja saman einhvern texta og er búin að koma mér upp fínni vinnuaðstöðu hérna í stofunni.



 

04 mars 2008

Glöð í hjarta

Ég var að útskrifa einn íslenskuhópinn minn í dag og þessar elskur voru búin að slá saman í blómvönd og nammiegg handa mér. Svo spurðu þau hvort ég myndi ekki örugglega kenna framhaldsnámskeið fyrir þau og ég varð svo glöð að heyra hvað þau eru áhugasöm. Þetta er alveg ótrúlega gefandi starf. Næsta mánudag byrjar svo nýtt byrjendanámskeið hjá sama fyrirtæki. En nú þarf ég að nýta tímann og vinna í verkefninu mínu. Knús á línuna!!

02 mars 2008

Kátt í koti

Hér er aldeilis búið að vera kátt í koti alla vikuna. Sigurbjörg og fjölskylda eru í heimsókn og í nógu að snúast hjá mér. Í gær var opið hús hjá mér fyrir stórfjölskylduna og ég bakaði 5 uppskriftir af pönnukökum. Síðan fékk ég að passa Freyju um kvöldið og nóttina mér til mikillar gleði. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ósköp fegin að þurfa ekki að vakna um miðjar nætur í barnastúss á hverri einustu nóttu. Þetta gekk eins og í sögu hjá okkur frænkum en Sunneva var mér nú líka til halds og trausts. Eiginlega svaf sú stutta meira og minna milli þess sem hún nærði sig. Hún vaknaði nú samt eldhress í morgun og brosti sínu blíðasta og hjalaði við mig. Eins og fleiri í fjölskyldunni þá ætlar daman ekki að verða mikill morgunhani sem er fínt á þessum aldri en verra þegar unglingsárin skella á eins og ég hef mikla persónulega reynslu af. Ætlar því miður seint af rjátlast af mér sjálfri.