29 júlí 2008

Geitunga- og sólarfár

Miðað við fréttir um geitungaþurrð hjá meindýraeyðum á höfuðborgarsvæðinu þá þykir mér einkennilegt hversu mikið af þessum kvikindum læðist inn um gluggana hjá mér. Það líður ekki sá dagur að ég rekist ekki á geitung hér inni. Ég verð nú að segja það að mér þykir ég bara orðin ansi borubrött í návist þeirra, annað en fyrstu árin sem þeir slæddust hér inn. Þá flúði ég nánast húsið ef ég varð vör við þá eða greip hársprey brúsa og murkaði úr þeim líftóruna. Nú læt ég sem ég sjái þá ekki og það bregst ekki að eftir smátíma hunskast þeir út aftur. Hvernig stendur eiginlega á því að það setjast ekki hér að litfögur fiðrildi fólki til ánægju og yndisauka í staðinn fyrir þessa hvimleiðu geitunga sem alltaf þurfa að vera í andlitinu á manni. 

Bölvað ólán er þetta annars að geta ekki notið veðurblíðunnar þessa dagana. Tók samt hlé í dag frá lærdómi og rölti niður á Ingólfstorg að kaupa mér ís. Þar var löng biðröð að sjálfsögðu en ég lét mig samt hafa það því mig langaði svo mikið í ísinn. Var nánast kominn með hitaslag þegar ég kom heim aftur þannig að þetta varð ekki beint hressingarganga. Mér skilst að morgundagurinn eigi jafnvel að vera "verri" ætli ég þori nokkuð út fyrir dyr. Ég held ég hafi fengið of stóran skammt af sól og hita á Ítalíu. 

 

27 júlí 2008

Humarveisla


Hér var humarveisla í kvöld í boði Vals. Hann kom nefnilega heim af sjónum í vor með rúm 5 kíló af humri og er ekki seinna vænna að hann læri að matreiða humar. Við borðuðum öll yfir okkur að sjálfsögðu og samt var afgangur. Ég tek það fram að við elduðum ekki öll 5 kílóin! Ég stakk upp á því við Val að hann  tæki afganginn með í nesti í vinnuna á morgun ha ha ha. Mér tókst að grafa upp eina flösku af krækiberjasaft af kistubotninum þannig að í eftirrétt var rjómagrautur með krækiberjasaft (svona þegar aðeins var farið að sjatna í mannskapnum). Annars sá ég á mbl.is að krækiberjasprettan á Austurlandi verður víst með betra móti. Vonandi kemst ég austur í berjamó í einhverja daga þegar ég verð búin að skila af mér verkefninu. 

21 júlí 2008

Ættarmót


Begga í blindandi ruslatínslu leidd áfram af Pétri

Mikið lifandis skelfing var gaman á þessu ættarmóti og frábært hvað það var vel mætt. Veðrið lék við okkur og mér fannst alveg ferlegt að þurfa að yfirgefa Austurlandið í blíðskaparveðrinu sem var þar í gær. Ég fór þó heim með einn titil í farteskinu sem er meistari í rúmfataásetningu (heitir það annars ekki það). Þarna kom sér vel að vera í þjálfun eftir alla sófagestina sem ég hef búið um síðustu mánuði. Það dugði þó ekki til því Kristínarleggurinn skíttapaði fyrir Soffíuleggnum sem er náttúrulega skammarlegt fyrir langfjölmennasta legginn. Nú er bara að nota næstu fimm ár í æfingar í þúfnahlaupi því ég gæti best trúað því að menn taki doktor Hjálmar á orðinu og bæti því inn í íþróttagreinakeppnina. Hver veit hvað gerist svo næsta sumar á Rauðholtsættarmótinu, ég er sko í undirbúningsnefnd fyrir  það mót. 

Eftir að hafa keyrt bæði suður og norðurleiðina þessa helgi þá er ég með það á hreinu að framvegis fer ég norðurleiðina svo framarlega sem hún verður fær. Það má vel vera að suðurleiðin sé beinni en það eru ábyggilega 50 einbreiðar brýr á leiðinni þannig að ég var alltaf að hægja niður. Svo er hundleiðinlegur og seinfarinn kaflinn frá Höfn og í Egilsstaði (ég hafði auðvitað ekki rænu á að fara fjarðarleiðina). Á bakaleiðinni keyrði ég norðurleiðina og var með krúsið á nánast allan tímann (á löglegum hraða auðvitað) þannig að bæði vorum við fljótari og bíllinn eyddi miklu minna. 

16 júlí 2008

Færeysk til fótanna

Fyrirbærafræðileg nálgun og grunduð kenning!! Þetta eru hugtökin sem ég er að vinna með núna enda heyri ég urgið í heilanum þegar hann þjösnast í gegnum þetta. Hann fær þó pásu um helgina því ég er á leiðinni austur á ættarmót. Við Valur og Ellen ætlum að leggja í hann upp úr hádegi á morgun ef allt gengur upp. Þetta verður því miður stutt stopp núna. Við keyrum til baka á sunnudaginn. Á meðan ég er fyrir austan ætlar Oddur hinn færeyski og írska kærastan hans að gæta bús og katta. Oddur ætlar að baka færeyskar pönnukökur handa mér í kvöld. Ég er bara í því að bera saman pönnukökur hinna ýmsu þjóða, ekki amalegt það ha ha ha.

Mér áskotnuðust appelsínugulir flókaskór úr þæfðri ull (gráir að innan) ekkert smá flottir enda færeyskir að uppruna.

13 júlí 2008

Kveðjubros


Sigurbjörg systir og Freya stoppuðu hjá mér í tvo daga á leiðinni heim til Álaborgar. Það var ægilega erfitt að kveðja þær en ég tók mynd af litlu skvísunni á flugvellinum og hún sendi mér þetta fallega kveðjubros.

Au revoir!

Ég fékk sófagesti frá Frakklandi, hjón rúmlega fimmtug. Við Ely erum búnar að vera í sambandi á msn síðastliðna 3 mánuði og því var þetta eins og að fá gamla vini í heimsókn. Þau gistu tvær nætur í byrjun ferðar og svo eina nótt í lokin og við erum búin að hafa það ægilega notalegt saman, ég er m.a. búin að læra að búa til franskar pönnukökur eða crépes (bæði sætar og saltar) og ávaxtasúfflei. Í gærkvöldi elduðum við sem sagt saman, ég steikti lúðu með bönunum og gráðostsósu og Ely bjó til súffleiið. Eftir að við höfðum borðað á okkur gat af aðalréttinum og biðum eftir að súffleiið bakaðist skrapp Ely á msn að athuga statusinn heima þar sem tvær uppkomnar dætur þeirra voru að passa 8 ára bróður sinn sem reyndist  vera með yfir 39 stiga hita en kartöflurnar spretta vel. "Við sækjum ykkur svo á lestarstöðina á morgun" sagði dóttir hennar sem varð til þess að allt í einu áttuðu þau sig á því að þau áttu flug kl. eitt eftir miðnætti á föstudagskvöldinu en ekki laugardagskvöldinu. Þið getið rétt ímyndað ykkur panikkið sem greip alla en sem betur fer stóð það ekki lengi því klukkan var nú bara hálfníu og nægur tími til stefnu því auðvitað skutlaði ég þeim til Keflavíkur og við gátum gætt okkur á súffleiinu áður en við lögðum í hann. Ég gat vel sett mig í þeirra spor því það sama gerðist hjá okkur á Ítalíu að við misstum úr einn dag. Við uppgötvuðum það nú sem betur fer nokkrum dögum fyrir brottför en gátum engan vegin áttað okkur á hvenær við höfðum misst úr dag því við vorum allar þrjár með það á hreinu að það væri föstudagur þegar það var í raun laugardagur. Líklegasta skýringin er náttúrulega sú að okkur hafi verið rænt af geimverum ha ha ha. En allavega ég er byrjuð að plana heimsókn til Ely og Erics í Besancon næsta ár með viðkomu hjá Karine í París og kannski fæ ég fleiri Frakka í heimsókn sem ég get komið við hjá. 

09 júlí 2008

Myndir

Ítalíumyndirnar eru komnar inn í netalbúmið mitt!

03 júlí 2008

Kaffifíkinn búálfur með símadellu

Ég fór í bankann í dag og tryggði mér framfærslu fram á haust þannig að ég geti algjörlega einbeitt mér að ritgerðinni. Þvílíkur munur að þurfa ekki að vera að hlaupa á milli vinnu og verkefnis. Er líka alveg endurnærð og full af orku eftir Ítalíuförina þannig að nú sit ég við skriftir öllum stundum. 

Hér á heimilinu hafa undarlegir hlutir átt sér stað. Svo virðist sem einhver kaffiþyrstur hafi laumast hér inn og hnuplað kaffikrukkunni og líka neskaffinu nema hingað hafi flutt inn kaffifíkinn búálfur. Um síðustu helgi hvarf svo heimasíminn (tólið). Við erum búin að leita á öllum stöðum sem okkur getur dottið í hug án árangurs. Ég sá því ekki annað í stöðunni en að skunda í ELKO í dag og kaupa eitt stykki síma. Ódýrasti síminn hjá þeim er á tæpar 4.000 krónur (eins og sá sem hvarf) og hefur reynst mér mun betur en rándýrir símar frá Símanum. Ég kemst vel af án allra fídusa sem prýða þessa rándýru síma og finnst alveg nóg að hægt sé að hringja úr honum og í hann. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég lét glepjast af nýjum og fínum gemsa áður en ég fór út. Nú get ég hlustað á útvarpið, Mp3 spilara, tekið myndir og vídeó ásamt fullt af öðrum hlutum sem ég á eftir að læra á. Svo er hann svo flottur á litinn, hvítur og limegrænn, það gerði náttúrulega útslagið um kaupin ha ha ha.