23 janúar 2008

Ítalía innan seilingar


Þá er litli Ítalinn minn floginn norður á bóginn í faðm þeirrar þýsku. Nú neyðist ég víst til að sjá sjálf um heimilisstörfin. Annars vorum við Kristín systir og Stefanía Ósk að bóka ferð til Ítalíu 12. – 24. júní. Við ætlum að heimsækja ítalska fjölskyldu og verðum í sumarhúsinu þeirra í algjörri afslöppun og dekri hjá Roberto og Massimo, foreldrum Roberto, nágrönnum þeirra og öðrum ættingjum hans. Þrjár miðaldra konur með bókastafla meðferðis eins og breskar hefðarfrúr á 18. og 19. öld. Jeminn hvað ég er farin að telja dagana þangað til.

Nú er lífið hjá mér að komast aftur í fastar skorður eftir áramótin. Ég er aftur byrjuð að kenna, byrjaði með eitt námskeið síðasta mánudag og næsta byrjar á mánudaginn kemur. Svo er að bretta upp ermarnar og koma meistaraverkefninu saman. Er sko búin með tvær blaðsíður af 100 og á að skila í byrjun maí. Ég verð að viðurkenna að ég er með nett stress í mér og sé fram á langa vinnudaga næstu mánuði. Þetta hefst samt örugglega á endanum ef ég þekki mig rétt. Þarf alltaf þó nokkra pressu til að komast í almennilegan vinnugír.




 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Veistu það Guðlaug að með aldrinum þá er ég betur farin að skilja þetta "hálfnað er verk þá hafið er" mér leiddist þessi málsháttur voðalega mikið þegar ég var unglingur og mamma reyndi að telja mig á að taka til í herberginu mínu.
Þú ert komin með tvær blaðsíður svo þú ert rúmlega hálfnuð :)
kv.
Rannveig Árna

Netfrænkan sagði...

Takk fyrir peppið Rannveig mín. Ekki veitir mér af!!!