Ég náði ekki nema þriggja tíma svefni áður en ég flaug til Danmerkur. Ónógur svefn hjá mér þýðir að ég fæ óskaplegan pirring í fæturna og get ekki verið kyrr. Sessunautur minn í flugvélinni (maður á mínum aldri) hefur örugglega verið farinn að halda að ég ætti við einhverja andlega erfiðleika að etja. Ég var á stöðugu iði og ekki bætti úr skák að ég hafði tekið með mér lesefni (The saffron kithcen) sem er afar tilfinningahlaðið. Ég var því stöðugt að fella tár og þurfti reglulega að leggja frá mér bókina í smástund til að missa ekki alveg stjórn á mér. Þegar til Kastrup kom (um hálftólf) hringdi ég í Ingileifar frænku í Kokkedal og var svo heppin að hún og Júlíus voru heima. Planið var að skreppa til þeirra þar til ég flygi til Álaborgar 17.50. Ég skundaði því með töskuna mína í farangursgeymslu og þar með hófust hremmingar mínar á Kastrup flugvelli:
Ja men af hverju ferðu ekki bara beint og tjekkar þig inn í flugið til Álaborgar og losar þig við töskuna þar? Ha, já auðvitað! Tak for det. Þá var að svipast um eftir Sterling bás og hann fann ég á terminal 2. Ja men du skal til terminal 1!! Það er í þessa átt svona 500 m. Henni láðist þó að segja mér að ég gæti tekið ókeypis strætó þangað svo ég rölti þenna hálfa kílómeter með töskuna í eftirdragi. Loksins komst ég á leiðarenda og sá afgreiðslubás sem ég gekk að og sagðist eiga flug með Sterling til Álaborgar. Það var eins og ég hefði hreytt blótsyrðum í starfsfólkið því það nánast hrækti út úr sér STERLING við vitum ekkert um það og getum ekkert hjálpað þér. Ég ráfaði því lengra inn og sá mannlausan og lokaðan bás merktan Sterling. Ég stoppaði flugvallarstarfsmann og endurtók að ég þyrfti að tjekka mig inn til Álaborgar seinna um daginn með Sterling. Ja men du skal til terminal 2! AFTUR?! Hann var samt svo almennilegur að benda mér á ókeypis strætóinn. Ég var því aftur komin á byrjunarreit á terminal 2. Ja men du skal til terminal 1! Já en ég var að koma þaðan? Ja men du skal der. Þú getur tjekkað þig inn í sjálfsala hérna en þú þarft að fara með töskuna á terminal 1. Ég tjekkaði mig inn og aftur tók ég strætó á terminal 1 og enn var Sterling básinn lokaður. Þá kom strákur á harðahlaupum með tösku í eftirdragi og ávarpaði mig á ensku. Hann var að koma frá Austurríki og átti flug til Karup en var ekki viss með hvaða flugfélagi. Ég fór með honum í SAS básinn og þar var okkur hent öfugum út af því hann hélt það væri KANNSKI Sterling sem hann ætti að fljúga með. Við hringsnerumst dágóða stund um sjálf okkur og hann var alveg að fara yfir um því hann var að missa af fluginu. Ég spurði hann þá hvort hann væri alveg viss um að það væri Sterling sem hann ætti flug með og fékk að sjá miðann hans. Þar sást ekkert hvaða flugfélagi flugið tilheyrði svo við fórum einu sinni enn í SAS básinn og tókst að pína þau til að skoða flugmiðann sem reyndist þá tilheyra SAS. Ja men du sagde du skulle med Sterling!!!! Ég hvæsti á móti að hann hafi ekki verið viss en greyið fékk loksins einhverja aðstoð við að ná fluginu. Ég aftur á móti var búin að eyða TVEIM tímum í þetta hringsól og ákvað að taka bara helvítis töskuna með til Ingileifar og tók lest í 50 mín. til hennar. Þar beið mín mjög svo seinn hádegisverður en að sama skapi afskaplega vel þeginn enda ég ekki búin að borða neitt allan daginn. Þetta varð þó ekki nema 45 mín stopp því ég þurfti að ná lestinni til baka í tíma.
Enn var ég komin á Kastrup og hafði 20 mínútur til að losa mig við töskuna og koma mér í vélina. Í öllu stressinu datt úr mér hvaða hlið ég ætti að fara til og eftir að hafa hlaupið langar leiðir fann ég loks skjá þar sem stóð á Álaborg hlið A28 sem þýddi að ég þurfti að hlaupa langleiðina til baka og það var verið að hleypa út í vél þegar ég loksins kom. Ég sýndi starfsmanninum miðann minn en hann fleygði honum nánast framan í mig og sagði: þetta er STERLING, við vitum ekkert um það. Nú voru góð ráð dýr aðeins fimm mínútur í brottför!! Ég hljóp eins og fætur toguðu alla leið niður til að leita að skjá með brottförum og sá þá að flugnúmerið mitt var við hlið A24. Þá voru TVÆR mínútur í brottför og á skjánum stóð að búið væri að loka hliðinu. Ég hugsaði með mér að það væri samt enn séns og hljóp eins og fjandinn væri á hælunum á mér að hliði A24. Nánast mállaus af mæði stundi ég upp við starfsfólkið hvort ég væri búin að missa af vélinni. Nei þá hafði verið beðið aðeins og ég skjögraði inn löðursveitt með hjartslátt upp á 200. Eftir að vélinni hafði verið lokað var tilkynnt seinkun upp á 20 mín því vélin fengi ekki flugtaksleyfi strax. Ég sökk niður í sætið af skömm yfir að hafa orðið þess valdandi en flugstjórinn var svo almennilegur að skella skuldinni á danska loftferðaeftirlitið. Ég komst sem sagt á endanum til Álaborgar útkeyrð eftir hremmingar dagsins. Þar biðu Valur og Vordís en þau voru orðin viss um að ég hefði gefið upp rangan flugtíma og ætluðu að bíða eftir næstu vél. Það var nefnilega ekki tilkynnt á skjánum að vélinni hefði seinkað, örugglega af því þetta var STERLING. Eftir framkomu starfsmanna SAS er það á hreinu að ég mun ALDREI fljúga með því skítaflugfélagi!!
2 ummæli:
Fall er fararheill... að mig minnir svona í morgunsárið. Vona að dvölin í Danmörku verði góð, njóttu og hafðu það gott. ak
Ég var nú komin með andþrengsli, bara við það að lesa frásögnina, svo ég get rétt ímyndað mér að þú hafir verið að fara yfir um.
En vonandi hefur dvölin í Danaveldi færst yfir á rólegra og afslappaðra plan, eftir þessar hremmingar í byrjun.
Hlakka til að hitta þig heima á klakanum. Bestu kveðjur til Sigurbjargar og fjölskyldu. Jóka
Skrifa ummæli