09 júní 2007

Kóngulóin gerir ekki flugu mein!

Ég heyrði nýlega auglýsingu frá meindýraeyði sem var að auglýsa að hann hreinsaði kóngulær utan af húsum og rak upp stór augu. Kóngulærnar sem eiga heima utan á mínu húsi eru nefnilega vinkonur mínar. Mér finnst frábært ef einhver þeirra kemur sér fyrir utan á glugganum og ég get fylgst með henni frá því hún er pínulítil á vorin og þar til hún er orðin stór og spikfeit á haustin. Ég leyfði einu kríli að hafa vetursetu fram á gangi hjá mér enda fór lítið fyrir henni greyinu. Hún kom sér fyrir uppi við ljósið og kúrði sig í litla kúlu svo ég var ekki viss hvort hún væri lifandi eða dauð. Þar var hún í sömu stellingu sofandi þar til fór að hlýna í vor en þá staulaðist hún að glugganum og ég opnaði fyrir henni. Hún fór samt ekki langt heldur bjó sér til vef utan á glugganum og nú fylgist ég með henni í lífsbaráttunni. Enn er hún ósköp veimiltítuleg enda búið að vera frekar lítið um flugur í kuldanum, það er nefnilega rangt að kóngulóin geri ekki flugu mein.

3 ummæli:

Netfrænkan sagði...

Ég hefði nú betur sleppt þessari færslu. Í nótt dreymdi mig bara spikfeitar kóngulær upp um alla veggi og fannst þær engar vinkonur mínar jakkkk....!!!!!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með nýja heimilið! :)
Mér líst stórvel á þetta!
Knús,
Ingileif.

Nafnlaus sagði...

ég held að það sé fyrir góður að dreyma kóngulær og örugglega ekki verra að þær séu feitar