14 júní 2007
Aldraðir ómagar
Tómas gamli á neðri hæðinni er kominn á Grund mér til mikils léttis. Ekki af því að það hafi verið eitthvað vesen fyrir mig að hann væri heima heldur fannst mér sorglegt til þess að vita að hann lægi í rúminu sínu vikum og mánuðum saman án þess að fá nokkra umönnun og biði þess bara að deyja. Karlanginn er orðinn blindur og er með krabbamein. Hann stóð varla í fæturna og sonarómyndin gaf honum að borða þegar honum hentaði. Ég heimsótti hann á Litlu Grund á þriðjudaginn og þvílík breyting á karlinum. Þarna voru gamlir skólafélagar hans úr MR og hann fær alla þjónustu, aðstoð við böðun (sem hann er sérdeilis ánægður með he he he), þvegið af honum og reglulegar máltíðir. En Adam var ekki lengi í Paradís því Tryggingastofnun var fljót að þefa hann uppi (með hjálp Grundar) og nú fer allur ellilífeyrinn hans beint inn á reikning Grundar. Honum er svo úthlutað 5000 kr. á mánuði í vasapening. Þetti setti strik í reikninginn því hann er ekki tilbúinn að selja íbúðina sína og þarf að borga af henni 30.000 kr. á mánuði sem eru dregnar sjálfkrafa af ellilífeyrinum við hver mánaðamót. Ég benti honum á að það væri nú kannski kominn tími til fyrir soninn (fimmtuga) að leggja til heimilisins og ekki seinna vænna fyrir hann að takast á við það að standa á eigin fótum áður en sá gamli fer til feðra sinna. Jaaaá það væri liklega rétt en hann hafði nú ekki neina óskaplega trú á því að það tækist. Við sjáum til þegar ég er komin í málið ha ha ha, nú fæ ég smáútrás fyrir stjórnsemina í mér. Hann fær að vísu 40.000 frá Lífeyrissjóðnum 15. hvers mánaðar sem ætti að dekka afborgun af íbúðinni svo það verður örugglega hægt að leysa þetta einhvern veginn. En mikið óskaplega er ömurlegt að þurfa að verða hreinlega ómagi þegar maður er orðinn gamall.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
sæll og blissuð frænks jæja það er nú gaman að sjá að þú sért kominn í alvöru blogg heiminn :)
Skrifa ummæli