20 júní 2007

Sautjándi júní í hundana

Ég var á röltinu í bænum allan 17. júní (í vinnunni) og tók eftir því að önnur hver fjölskylda var með hund með sér. Þarna mátti sjá allar stærðir og tegundir allt frá gjammandi smáhundum í sparifötum upp í vígalega dobermann. Merkilegasti hundurinn fannst mér vera hvítur stór hundur sem leit út eins og ísbjörn með hramma og stutt breitt trýni en hann var ósköp gæðalegur á svipinn þó. Ekki sá ég einn einasta bastarð eins og Bangsa minn heitinn sem var blanda af mörgum tegundum, það lætur ekki nokkur maður sjá sig með svoleiðis hund á almannafæri í dag. Mér fannst líka athyglisvert að skoða eigendurna. Pínulitlir smáhundar henta greinilega konum og börnum á meðan að karlarnir láta ekki sjá sig með minni hund en labrador eða boxer. Dobermann er augljóslega hundur handrukkarans og sjálfsagt vænlegri til árangurs en hafnaboltakylfa. Reykjavík er greinilega að verða stórborg þar sem hundar eru jafnvelkomnir og fólk. Mér finnst það nú bara góð þróun.

1 ummæli:

Díana Ósk sagði...

Elsku Guðlaug:) Velkomin hingað:) Nú get ég kommentað þegar mér sýnist ekki þegar vefnum sýnist hahahaha... langar svo oft að kommenta þó ekki nema sé bara til þess að skilja eftir "hæ"