29 maí 2008

Samar á ferð

Aldrei þessu vant þá fór ég í leikhús á þriðjudagskvöldið. Hér var á ferðinni samískur leikhópur með sýninguna "Sá hrímhærði og draumsjáandinn", alveg mögnuð sýning get ég sagt ykkur. Af einhverjum ástæðum þá var sýningin lítið auglýst en ég frétti af henni í gegnum þýska konu sem hafði samband við mig í gegnum sófagestasíðuna. Hana vantaði ekki sófa heldur hafði hún áhuga á að hitta mig í kaffi og spjall. Þessi mæta kona er hluti af leikhópnum (einskonar sviðsmaður) og býr í Lapplandi eða eins og hún sagði úti í skógi í Finnlandi þar sem búa um 20 hræður. Þetta er stutt frá landamærum Noregs og er leikhópurinn staðsettur Noregsmegin þannig að hún vinnur í Noregi. Hún sagði þetta þýða að hún þarf að vera með tvenns konar tíma í gangi, vekjaraklukkan er á norskum tíma svo hún mæti á réttum tíma í vinnuna og eldhúsklukkan er á finnskum tíma. Allavega þá endaði það með því að ég aðstoðaði við að ganga frá eftir sýninguna og fór svo út að borða með öllum hópnum og skemmti mér þvílíkt vel. Fínt að rifja upp norskuna í leiðinni. Það var nú samt svolítið spaugilegt að rölta upp Laugaveginn á leiðinni heim ásamt nokkrum blindfullum Sömum í fullum skrúða enda vorum við stoppuð af tveimur Ameríkönum sem vildu endilega taka mynd af þeim. Daginn eftir fór ég svo í bæjarrölt með Gerlinde meðan restin af hópnum fór á Gullfoss og Geysi. Þá uppgötvaði ég nýtt Gallerí í Aðalstræti (í gamla Fógetanum) þar sem finna má rjómann af íslenskri hönnun og handverki og mæli eindregið með að fólk líti þar við. Gerlinde mátti vart vatni halda yfir því sem þar var að sjá enda mikil handverksmanneskja sjálf og gullsmiður að mennt. Hún gaf mér hálsmen úr hreindýrshorni, eigin smíði að sjálfsögðu. Nú er ég sem sagt komin með sófa í Lapplandi þegar ég læt loksins verða af því að fara þangað en mig hefur lengi dreymt um það. 

Engin ummæli: