Ég kom heim í gær með flóabit og illa lyktandi franskan ost í farteskinu. Mér varð það á að koma við í H & M áður en ég fór og missti mig aðeins í innkaupum. Við Minna fórum út að borða á kínverskan veitingastað síðasta kvöldið og fengum okkur svo kaffi á eftir í Torni þar sem er útsýni yfir borgina og nutum þess í kvöldsólinni. Ég var alveg búin á því þegar ég kom heim í gær og var sofnuð fyrir allar aldir enda enn á finnskum tíma sem eru þrír tímar á undan íslenskum. Ég reiknaði með að vakna í býtið í morgun en nei nei ég svaf í SAUTJÁN tíma. Maður verður alveg ótrúlega þreyttur af því að nota heilann svona mikið við að reyna að skilja hvað fólk er að segja. Nú skil ég nemendur mína vel. Næstsíðasta morguninn var heilinn á mér kominn á suðupunkt þegar ég ætlaði að taka lestina til Helsinki. Hún var að renna inn á brautarpallinn þegar ég kom á lestarstöðina og ég stökk upp í án þess að vera búin að tékka hvort ég væri á réttum brautarpalli. Þegar ég er sest rek ég augun í lítinn skjá sem á stendur Lipunmyynti og hrökk í kút. Guð ég er í rangri lest!! Ég ákvað því að fara út á næstu stöð og vera með það á hreinu að ég færi í rétta lest þó svo þessi virtist nú vera á réttri leið því hún stoppaði næst í Ilmala eins og Helsinki lestin gerir. Þegar næsta lest kom þangað settist ég og var nú með það á hreinu að ég væri í réttri lest. Sé ég þá ekki aftur lítinn skjá sem á stendur Lipunmyynti og rann þá upp fyrir mér ljós að þetta þýðir farmiðar sem ég vissi auðvitað mætavel það hafði bara eitthvað slegið út fyrir mér og ég ruglað þessu saman við Läppevära sem er lestin sem ég tók alltaf heim. Heilinn var hreinlega kominn á yfirsnúnig enda hafði ég verið að fylgjast með kennslu til 6 deginum áður.
17 maí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli