01 júní 2008

Myndir og ljóð

Í gær var opnuð ljósmyndasýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Það er sjálfur Viggo fagri Mortensen sem er með þessa sýningu. Ég ákvað að skella mér á opnunina, ekki bara í þeirri von að berja Viggo augum ef þið hafið haldið það! Sá honum reyndar bregða fyrir eitt lítið andartak. Svo mikil sveitamanneskja sem ég er þá átti ég engan vegin von á svona miklum áhuga fólks á sýningunni. Ég kom klukkan tvö og þá var komin löng biðröð af fólki og virtist meira en helmingurinn vera túristar sem þóttust sjálfsagt komast í feitt að komast á þessa sýningu. Sem betur fer stendur sýningin yfir fram í lok ágúst því það var varla nokkur möguleiki að skoða myndirnar fyrir öllu þessu kraðaki af fólki. Ég var eiginlega komin með smá innilokunarkennd og ákvað að koma frekar seinna þegar um hægist. Á leiðinni út kom ég við í afgreiðslunni þar sem verið var að selja ljósmyndabækur, ljóðabækur, plaköt o.fl. eftir kappann. Þar var svo sannarlega handagangur í öskjunni og afgreiðslukonurnar orðnar sveittar og rjóðar af því að sækja nýja og nýja kassa af bókum á 4.000 kall stykkið sem rifnar voru út af æstum aðdáendum. Ég rakst á gamla bók eftir hann með ljóðum og myndum á 1.500 kr og fjárfesti í henni, með bókinni fylgir diskur þar sem hann les sjálfur upp ljóðin og ég er að sjálfsögðu himinlifandi með þessi kaup. Ég sá nú samt enga ástæðu til að biðja um eiginhandaráritun enda hef ég aldrei skilið hvað er svona merkilegt við það að fólk kroti nafnið sitt á hluti. Annars er ég nokkuð ánægð með hann Viggo því allur ágóði af sýningunni rennur til Náttúruverndarsamtaka Íslands, hann er nefnilega svo ríkur að hann þarf ekkert á peningunum að halda. Þeir sem vilja styðja NÍ geta því fjárfest í ljósmynd á 30-35.ooo, bók eða plakati. Nú ætla ég að koma mér vel fyrir og hlusta á Aragorn fara með ljóð fyrir mig.

Engin ummæli: