23 maí 2008

Góðir gestir

Hjá mér eru góðir gestir frá Finnlandi og Álandseyjum. Robert og Jeanette eru hérna um helgina með Sunnu litlu og mömmu hans Roberts. Við Arja fórum í stutta skoðunarferð í morgun um Reykjavík og nágrannasveitarfélög en síðan drifu þau sig í hinn hefðbundna túristahring á Þingvöll, Gullfoss og Geysi. Ég er hæstánægð með að geta endurgoldið þeim gestrisnina frá því í Finnlandi bæði um daginn og fyrir 3 árum síðan. Ég heimsótti Örju líka á sínum tíma á Álandseyjum svo það er gaman að fá hana loksins í heimsókn. Hún er búin að vera ægilega spennt að komast til Íslands og var alveg í skýjunum í dag yfir öllu sem hún sá. Robert og Jeanetta voru að koma frá Kanada og ákváðu að stoppa hérna á heimleiðinni. Það var því hálfskondið í gærkvöldi klukkan 20 þá var Arja á finnskum tíma eða kl. 23 en þau hin á kanadískum tíma kl. 15 enda var Arja vöknuð fyrir allar aldir í morgun. Mér gengur bara ótrúlega vel að tala sænskuna en Jeanette er orðin nokkuð glúrin í íslenskunni enda búin að æfa sig heilmikið með íslenskuforriti. Robert heldur sinni íslensku við með því að hlusta á Rás 2 á netinu og lesa mbl.is og talar ennþá eins og innfæddur. Ég tala íslensku við Sunnu og svei mér ef hún skilur mig ekki bara alveg sú stutta. 

Engin ummæli: