13 nóvember 2007

Pestir á sveimi

Hér ligg ég eins og skata og get ekki annað. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að næla sér í einhverja pest af þeim aragrúa sem er á sveimi allt um kring. Sem betur fer er það samt ekki magapestin ógurlega sem hefur lagt svo marga að velli í kringum mig enda er ég á tvöföldum acidophilus skammti þessa dagana til að tryggja mig gegn henni. Nei ég er bara með höfuðverk og beinverki og ákvað að halda mig við rúmið í dag svona milli íslenskukennslustunda. Nú eru bara tveir tímar eftir á Grund, en ég á samt eftir að sakna þeirra. Það er svo frábært fólk sem ég er að kenna þar.

Af ómegðinni er það að frétta að ég hef verið tekin í sátt af frú Scarlet sem er aftur farin að hrjóta á kvöldin í bælinu sínu við hliðina á rúminu mínu. Hún entist nú ekki að sofa úti nema svona þrjár nætur og sá þá að sér. Fröken Snædís virðist vera búin að jafna sig á hræðslunni við litla gerpið sem er löngu hætt að hræðast þær gömlu. Nú er mikið sport að liggja í leyni og stökkva fram til að bregða gamalkisunum sem hrökkva í kút og hvæsa aðeins svona til að lýsa vanþóknun sinni á þessari unggæðislegu hegðun. Hún kann sig þó það mikið að láta þær algjörlega í friði þegar þær eru að leggja sig, sem er ansi oft enda orðnar nokkuð aldurhnignar og með síþreytu.


Engin ummæli: