20 nóvember 2007

Bílaborgin Reykjavík

Það er greinilegt að Reykjavík er ekki skipulögð með tilliti til gangandi eða hjólandi vegfarenda a.m.k. ekki öll hverfi. Ég þurfti að taka strætó í gær upp á Lyngháls þar sem ég er að kenna. Það var jú allt í lagi að komast á staðinn, aðeins þriggja mínútna gangur frá stoppistöðinni sem var sömu megin og Lyngháls. Annað mál var með heimförina. Þá varð ég að komast yfir Vesturlandsveginn til þess að ná strætó í bæinn en það er ekki fyrir nema fuglinn fljúgandi að komast þar yfir. Ég þurfti því að ganga upp á að ég held Höfðabakkabrúna sem tekur þó nokkurn tíma og yfir mörg gönguljós að fara. Ég endaði fyrir neðan Húsgagnahöllina og gekk þaðan í Ártún þar sem strætó stoppar og þurfti auðvitað að bíða dágóða stund eftir næsta strætó. Sem betur fer var vorblíða svo þetta var ekki svo slæmt en ég vildi ekki þurfa að fara alla þessa leið í roki og rigningu. Ég var 20 mínútur á leiðinni uppeftir en það tók mig klukkutíma að komast heim. Ég segi nú bara guðsélof að ég átti ekki erindi í hverfið fyrir neðan Vesturlandsveginn þá hefði ég lent í verulegum vandræðum. Að sjálfsögðu er ég komin á bíl núna til að lenda ekki í þessu veseni aftur.

Engin ummæli: