Aldrei þessu vant þá fór ég í leikhús á þriðjudagskvöldið. Hér var á ferðinni samískur leikhópur með sýninguna "Sá hrímhærði og draumsjáandinn", alveg mögnuð sýning get ég sagt ykkur. Af einhverjum ástæðum þá var sýningin lítið auglýst en ég frétti af henni í gegnum þýska konu sem hafði samband við mig í gegnum sófagestasíðuna. Hana vantaði ekki sófa heldur hafði hún áhuga á að hitta mig í kaffi og spjall. Þessi mæta kona er hluti af leikhópnum (einskonar sviðsmaður) og býr í Lapplandi eða eins og hún sagði úti í skógi í Finnlandi þar sem búa um 20 hræður. Þetta er stutt frá landamærum Noregs og er leikhópurinn staðsettur Noregsmegin þannig að hún vinnur í Noregi. Hún sagði þetta þýða að hún þarf að vera með tvenns konar tíma í gangi, vekjaraklukkan er á norskum tíma svo hún mæti á réttum tíma í vinnuna og eldhúsklukkan er á finnskum tíma. Allavega þá endaði það með því að ég aðstoðaði við að ganga frá eftir sýninguna og fór svo út að borða með öllum hópnum og skemmti mér þvílíkt vel. Fínt að rifja upp norskuna í leiðinni. Það var nú samt svolítið spaugilegt að rölta upp Laugaveginn á leiðinni heim ásamt nokkrum blindfullum Sömum í fullum skrúða enda vorum við stoppuð af tveimur Ameríkönum sem vildu endilega taka mynd af þeim. Daginn eftir fór ég svo í bæjarrölt með Gerlinde meðan restin af hópnum fór á Gullfoss og Geysi. Þá uppgötvaði ég nýtt Gallerí í Aðalstræti (í gamla Fógetanum) þar sem finna má rjómann af íslenskri hönnun og handverki og mæli eindregið með að fólk líti þar við. Gerlinde mátti vart vatni halda yfir því sem þar var að sjá enda mikil handverksmanneskja sjálf og gullsmiður að mennt. Hún gaf mér hálsmen úr hreindýrshorni, eigin smíði að sjálfsögðu. Nú er ég sem sagt komin með sófa í Lapplandi þegar ég læt loksins verða af því að fara þangað en mig hefur lengi dreymt um það.
29 maí 2008
23 maí 2008
Góðir gestir
Hjá mér eru góðir gestir frá Finnlandi og Álandseyjum. Robert og Jeanette eru hérna um helgina með Sunnu litlu og mömmu hans Roberts. Við Arja fórum í stutta skoðunarferð í morgun um Reykjavík og nágrannasveitarfélög en síðan drifu þau sig í hinn hefðbundna túristahring á Þingvöll, Gullfoss og Geysi. Ég er hæstánægð með að geta endurgoldið þeim gestrisnina frá því í Finnlandi bæði um daginn og fyrir 3 árum síðan. Ég heimsótti Örju líka á sínum tíma á Álandseyjum svo það er gaman að fá hana loksins í heimsókn. Hún er búin að vera ægilega spennt að komast til Íslands og var alveg í skýjunum í dag yfir öllu sem hún sá. Robert og Jeanetta voru að koma frá Kanada og ákváðu að stoppa hérna á heimleiðinni. Það var því hálfskondið í gærkvöldi klukkan 20 þá var Arja á finnskum tíma eða kl. 23 en þau hin á kanadískum tíma kl. 15 enda var Arja vöknuð fyrir allar aldir í morgun. Mér gengur bara ótrúlega vel að tala sænskuna en Jeanette er orðin nokkuð glúrin í íslenskunni enda búin að æfa sig heilmikið með íslenskuforriti. Robert heldur sinni íslensku við með því að hlusta á Rás 2 á netinu og lesa mbl.is og talar ennþá eins og innfæddur. Ég tala íslensku við Sunnu og svei mér ef hún skilur mig ekki bara alveg sú stutta.
21 maí 2008
Woofað í Vallanesi
Ég hýsti þrjú systkini frá Bandaríkjunum í þrjár nætur. Þau voru búin að dvelja hjá Eymundi í Vallanesi í tvær vikur við svokallað woofing. Ég er einmitt nýlega búin að komast að því hvað það er. Þá dvelur fólk um lengri eða skemmri tíma á lífrænu býli sem sjálfboðaliðar við bústörfin og fær fæði og húsnæði í staðinn. Það var einmitt einhver Frakki að spyrjast fyrir á CS um býli til að woofa á, ég ætti kannski að benda honum á Eymund.
Ég sé að það er spáð 23 stiga hita fyrir austan um næstu helgi. Vonandi heldur spáin og bara svo þið vitið það þá er ég ekkert öfundsjúk enda styttist í Ítalíuferðina þar sem ég fæ örugglega nóga sól.
Ryksugan mín dó áðan!
Ég sé að það er spáð 23 stiga hita fyrir austan um næstu helgi. Vonandi heldur spáin og bara svo þið vitið það þá er ég ekkert öfundsjúk enda styttist í Ítalíuferðina þar sem ég fæ örugglega nóga sól.
Ryksugan mín dó áðan!
17 maí 2008
Heim á ný
Ég kom heim í gær með flóabit og illa lyktandi franskan ost í farteskinu. Mér varð það á að koma við í H & M áður en ég fór og missti mig aðeins í innkaupum. Við Minna fórum út að borða á kínverskan veitingastað síðasta kvöldið og fengum okkur svo kaffi á eftir í Torni þar sem er útsýni yfir borgina og nutum þess í kvöldsólinni. Ég var alveg búin á því þegar ég kom heim í gær og var sofnuð fyrir allar aldir enda enn á finnskum tíma sem eru þrír tímar á undan íslenskum. Ég reiknaði með að vakna í býtið í morgun en nei nei ég svaf í SAUTJÁN tíma. Maður verður alveg ótrúlega þreyttur af því að nota heilann svona mikið við að reyna að skilja hvað fólk er að segja. Nú skil ég nemendur mína vel. Næstsíðasta morguninn var heilinn á mér kominn á suðupunkt þegar ég ætlaði að taka lestina til Helsinki. Hún var að renna inn á brautarpallinn þegar ég kom á lestarstöðina og ég stökk upp í án þess að vera búin að tékka hvort ég væri á réttum brautarpalli. Þegar ég er sest rek ég augun í lítinn skjá sem á stendur Lipunmyynti og hrökk í kút. Guð ég er í rangri lest!! Ég ákvað því að fara út á næstu stöð og vera með það á hreinu að ég færi í rétta lest þó svo þessi virtist nú vera á réttri leið því hún stoppaði næst í Ilmala eins og Helsinki lestin gerir. Þegar næsta lest kom þangað settist ég og var nú með það á hreinu að ég væri í réttri lest. Sé ég þá ekki aftur lítinn skjá sem á stendur Lipunmyynti og rann þá upp fyrir mér ljós að þetta þýðir farmiðar sem ég vissi auðvitað mætavel það hafði bara eitthvað slegið út fyrir mér og ég ruglað þessu saman við Läppevära sem er lestin sem ég tók alltaf heim. Heilinn var hreinlega kominn á yfirsnúnig enda hafði ég verið að fylgjast með kennslu til 6 deginum áður.
12 maí 2008
Lagkökur í massavís
Ég fór í langt ferðalag í gær að heimsækja mömmur Minnu og Juhani í tilefni mæðradagsins. Hér í Finnlandi er mæðradagurinn mjög stór og á föstudag og laugardag var mikið að gera í búðum því allir voru að kaupa gjafir fyrir mæður sínar. Við byrjuðum á að keyra klukkutíma norður af Helsinki til mömmu hans Juhani og fengum kaffi og köku þar. Síðan var farið enn norðar og lengst út í sveit til mömmu hennar Minnu. Ég heilsaði upp á kýrnar og hestana en þau eiga tvo íslenska hesta og nokkra smáhesta (ponys) sem eru ægilega krúttlegir sérstaklega folaldið. Kisan þeirra er með vikugamla kettlinga og svo eru þrír hundar. Eftir mat var lagkaka og kaffi og svo var haldið til ömmunnar og gúffað í sig meiri kökum og kaffi. Á bakaleiðinni tókum við svolítinn krók og kíktum við á sumarhús sem Minna og Juhani eru að spá í að kaupa. Þrátt fyrir allan þennan akstur í gær þá sá ég lítið annað en tré og aftur tré og svo glitti í hús og vötn inni á milli trjánna. Þetta var samt mjög skemmtilegur dagur og gaman að hitta allt þetta fólk og njóta góða veðursins. Í kvöld fórum við svo út að borða á taílenskan veitingastað. Á morgun verður langur dagur hjá mér. Mæti í Adulta klukkan 9 og verð til 6. Nú ætla ég að skríða í bólið er ennþá lúin eftir ferðalagið í gær.
10 maí 2008
Skómanía
Við Minna eyddum deginum í skóleit enda er ég búin að bíða eftir því að komast til Helsinki að kaupa mér nýja skó. Ég keypti bestu skó í heimi þegar ég var hér síðast fyrir þremur árum og hugsaði mér gott til glóðarinnar að bæta öðru pari við. Mér til mikillar gleði er heilmikið úrval hér af skóm frá El Naturalista (uppáhaldsmerkið mitt), Fly og Art. Í dag keypti ég tvö pör og ætla að kaupa eitt í viðbót eftir helgi. Verst að evran virðist hækka dag frá degi. Það var svo heitt í dag (yfir 20 stig) að við gáfumst upp á búðarrápinu og skjögruðum heim með lafandi tungu. Ætlum að liggja í leti og horfa á DVD í kvöld. Í fyrramálið er stefnan tekin út í sveit í heimsókn til fjölskyldunnar hennar Minnu.
09 maí 2008
Minä olen Gulla
Enn einn góður og sólríkur dagur hér í Helsinki. Ég var mætt í Tikkurila klukkan níu að fylgjast með kennslu til klukkan hálfþrjú og fékk fullt af áhugaverðum punktum sem ég get nýtt mér í minni kennslu. Núna er ég komin í helgarfrí og ætla að skreppa í bæinn á eftir og fá mér að borða. Minna og Juhani eru að fara á upplestur á leikriti eftir vinkonu þeirra en ég sé engan tilgang í því að fara með og skilja ekki bofs. Ég bætti samt heilmikið við orðaforðann minn í dag. Reyndar er já á finnsku kyllä sem er borið fram eins og Gulla þannig að mér finnst ég alltaf vera að heyra einhvern segja nafnið mitt.
Í gærkvöldi fórum við á nýjan nepalskan veitingastað og fórum svo í langan göngutúr meðfram ströndinni í yndislegu veðri ásamt Jussi vini þeirra. Þetta gæti ekki verið betra.
Í gærkvöldi fórum við á nýjan nepalskan veitingastað og fórum svo í langan göngutúr meðfram ströndinni í yndislegu veðri ásamt Jussi vini þeirra. Þetta gæti ekki verið betra.
08 maí 2008
Sól og sumar í Helsinki
Það er að verða komin vika frá því ég kom hingað til Helsinki og ég er orðin nokkuð heimavön bara í borginni. Ekki byrjaði ferðin samt vel því fyrstu nóttina fékk ég ælupest og ældi eins og múkki alla nóttina. Síðan missti ég meðvitund og svaf í eina 30 tíma þannig að helgin fór að mestu leyti í súginn eins og það var nú gott veður 20 stiga hiti og sól. Reyndar get ég ekki kvartað yfir veðrinu í vikunni það er búið að vera ágætis reykvískt sumarveður. Spáin um helgina er svo bongóblíða og ég er að spá í fara og skoða Suomilinnen/Sveaborg og eyða sunnudeginum þar.
Ég er búin að læra nokkur orð í finnsku og get orðið boðið góðan dag og sagt afsakið. Annars er búið að vera mjög áhugavert að fylgjast með kennslunni hérna og í næstu viku ætla ég að fókusa sem mest á kennslu fyrir ólæsa. Ég verð duglegri að blogga á næstunni því nú er ég komin í gott netsamband með mína tölvu. Læt þetta duga í bili því við Minna erum að fara í bæinn að dingla okkur. Moj moj!
Ég er búin að læra nokkur orð í finnsku og get orðið boðið góðan dag og sagt afsakið. Annars er búið að vera mjög áhugavert að fylgjast með kennslunni hérna og í næstu viku ætla ég að fókusa sem mest á kennslu fyrir ólæsa. Ég verð duglegri að blogga á næstunni því nú er ég komin í gott netsamband með mína tölvu. Læt þetta duga í bili því við Minna erum að fara í bæinn að dingla okkur. Moj moj!
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)