18 mars 2008

Hland fyrir hjartað

Ég fékk aldeilis hland fyrir hjartað í dag þegar röddin hjá Símanum sagði mér að ég yrði mögulega bæði net- og símalaus um Páskana. Þarna sést hvað ég er orðin háð þessari tækni, annars hef ég það mér til afsökunar að ég þarf að nota netið þegar ég er að vinna í MA verkefninu mínu. Ég var í miðju kafi að vinna og nota mikið ordabok.is sem þýðir að ég verð að vera nettengd. Allt í einu dettur netið út og þá meina ég ekki bara þráðlausa netið. Þegar ég tók upp heimasímann til að hringja þá var hann líka dauður. Ég hringdi því í þjónustunúmer Símans og rakti raunir mínar fyrir röddinni. Þetta var svo svarið sem ég fékk og ég get svarið það ég hreinlega fylltist skelfingu við tilhugsunina um netlausa Páska. Sem betur fer reyndist þetta vera bilun á símalínunni sem var snögglega kippt í lag og ég tók gleði mína á ný. Annars gruna ég sprengjuvargana hinum megin við götuna um að eiga einhvern hlut að máli. Þeir hafa sprengt eins og óðir í dag og rétt áður en netið datt út kom þvílík bomba að húsið hreinlega nötraði.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Býrð þú á einhverju átakasvæði? Hvað eru menn að sprengja í friðsælum íbúðagötum.
En segðu mér, hvað er að frétta af Ítalanum?
kv.
Rannveig

Netfrænkan sagði...

Nei hér er verið að byggja eitt stykki stúdentagarða hinum megin við götuna hjá mér og nú er verið að sprengja fyrir fjögurra hæða bílakjallara undir námsfólkið.
Af Ítalanum mínum er það að frétta að hann er kominn heim í heiðardalinn og fang unnustunnar að mér skilst. Íslands ævintýrið að baki og sú þýska fallin í gleymskunnar dá. Þessir karlmenn!!