02 ágúst 2007

Krydd dagsins í strætó!

Eitt það skemmtilegasta við að ferðast með strætó eru óvæntar uppákomur sem krydda daginn hjá mér. Í dag fór ég með strætó í Mosó og var ferðin uppeftir nokkuð tíðindalaus fyrir utan nokkra unga Svía á leið upp á Esju. Blessaðir drengirnir veltu því fyrir sér alla leiðina (í hálftíma) muninn á fahrenheit og celcius og í hvert sinn sem sást skilti með hitatölum var byrjað að reikna og rökræða.
Á bakaleiðinni var keyrður rúntur í gegnum Mosfellsbæinn og fylltist vagninn svo af fólki að einhverjir þurftu að standa. Eins og við er að búast þar sem margt fólk er saman komið þá heyrist mikið skvaldur og hávaði. Nú er vagninn kominn að síðustu stoppistöðinni áður en hann leggur af stað í bæinn en þá bregður svo við að vagnstjórinn neglir niður, stendur upp, snýr sér að farþegunum og þrumar yfir liðið: ÉG VIL SJÁ HVERT SÆTI SETIÐ Í VAGNINUM!!!! ÞAÐ VERÐUR EKKI LAGT AF STAÐ FYRR EN ÖLL SÆTI ERU SETIN!! Það hefði mátt heyra saumnál detta svo mikil þögn varð í stappfullum vagninum. Sem snöggvast var ég fimm ára aftur og átti það greinilega við um fleiri, andrúmsloftið var eins og vagninn væri fullur af skömmustulegum börnum þrátt fyrir að farþegar væru á öllum aldri. Síðan stikaði gjammarinn aftur í vagninn: ÞARNA ER LAUST SÆTI...OG ÞARNA...OG ÞARNA. Hann þurfti ekki að segja fólki það tvisvar, menn stukku umsvifalaust í lausu sætin þegjandi og hljóðalaust. Á leiðinni í bílstjórasætið kom hann auga á tvo unglingspilta sem stóðu fremst í vagninum og benti um leið og hann þrumaði: ÞIÐ TVEIR....ÉG VIL SJÁ YKKUR Í MIÐJUM VAGNINUM!! Strákgreyin hröðuðu sér á "réttan" stað og nú var loks hægt að leggja af stað. Hjúkk hvað ég var fegin að hafa verið með sæti.
Já Strætó klikkar ekki ha ha ha!!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er nú krydd dagsins fyrir mig að lesa bloggið þitt systir góð. Kolbrún systir

Nafnlaus sagði...

Ég á nú ekki til orð yfir þessum hrikalega strætóbílstjóra! Hvað heldur hann eiginlega að hann sé? Bölvað fíflið! Eins og fólk megi ekki standa ef það vill?!
Alltaf gaman að lesa bloggið þitt, Guðlaug!
Knús,
Ingileif.