08 ágúst 2007

Ég er læknuð!!!

Segið svo að íslenskar jurtir séu ekki kraftmiklar. Pabbi er á sömu skoðun og ég. Hann hafði það eftir Gutta á Hallormsstað að vallhumalsblóm læknuðu krónískar kinnholsbólgur og "lagði til" að ég reyndi þau á mér. Ég kom því nú aldrei í verk að tína blómin þegar ég var fyrir austan en fyrir viku síðan fékk ég senda krukku frá mömmu með að mér sýnist ársbirgðum af þurrkuðum vallhumalsblómum (við systur kölluðum þau nú alltaf gæsablóm, ekki veit ég afhverju). Ég sauð mér strax seyði og hef drukkið eitt glas á dag síðan og sleppt því að nota sterana. Viti menn í gær fann ég að eitthvað var að gerast og var alveg óstífluð í nefinu í nótt. Í dag finn ég varla fyrir þessu svo það fer ekki á milli mála að ÉG ER LÆKNUÐ!

Það sama á víst ekki við um fröken Snædísi. Hún tók aftur upp gamla ósiði og því ekki um annað að ræða en halda áfram að svæla í hana kvíðalyfjunum. Ég held ég reyni ekki aftur að trappa hana niður af þeim. Annars má ég víst reikna með því að sitja uppi með annan kattarsjúkling ef ég fer ekki að halda í við hana Scarlet. Ég sá í fréttunum í kvöld að sykursýki hjá köttum er að verða ansi algeng, orsökin er víst ofeldi og Bónus kattamatur sem mun jafnast á við ruslfæði eins og hamborgara og franskar hjá okkur mannfólkinu. Reyndar dekra ég mínar kisur svo mikið að þær fá sko Euroshop túnfisk með þurrmatnum (ruslfæðinu) á hverjum degi. Ég held það sé nú samt langt í það að Scarlet verði jafn akfeit og kattarræfillinn sem sýndur var í fréttunum. Hann gat varla gengið fyrir spiki og minnti helst á útblásna blöðru með fjóra stubba sem stóðu út í loftið á hliðunum. Enda þurfti greyið aðstoð við að komast um og púða undir höfuðið því þegar hann lá á hliðinni þá náði hausinn ekki niður svo út tútinn var hann. Svo var breitt lítið teppi yfir hann. Bwahahaha þetta minnti mig á þegar ég var í dúkkuleik með svarta Dónald, köttinn sem við áttum þegar ég var lítil. Hann var með hringað skott eins og hundur og afskaplega barnvænn köttur.

1 ummæli:

Netfrænkan sagði...

Ég ruglaði víst saman köttum. Það var Fúsi sem var með hringað skott og barnvænn. Svarti Donald breyttist í Kapitolu.