Í gær var bakað laufabrauð hér í Holtinu. Sem höfuð fjölskyldunnar hér á höfuðborgarsvæðinu þá sé ég um að smala börnum og systkinabörnum saman til mín til að halda við þessari skemmtilegu hefð. Því miður komust ekki allir, Valur var út á sjó og Daníel þurfti að vinna. Að sjálfsögðu er notast við uppskrift frá Hafursá sem er miklu betri en þessar búðarkökur. Ég var því miður í prófyfirsetu til klukkan eitt þannig að við byrjuðum ekki fyrr en seinnipartinn. Við látum okkur nú nægja að gera eina uppskrift og eitthvað var ég kærulaus við flatninguna í ár því við fengum tíu kökum færri en í fyrra. Í staðinn var samt fullt af afgöngum sem er heldur ekki slæmt. Í dag ákvað ég að hafa náttfatadag og njóta þess að vera í fríi með kisunum mínum. Ég dundaði mér þó aðeins við hilluþrif á milli þess sem ég tók nokkrar mjaðmasveiflur enda að fara að læknisráði. Kolbrún grasalæknir setti mér nefnilega það fyrir að dansa magadans á hverjum degi, ekki slæmt læknisráð það og ég mæli eindregið með því.
09 desember 2007
06 desember 2007
Máttur Norðurljósanna
Sarah frá Alaska fræddi mig á því að Japanir flykktust á hennar heimaslóðir á veturna í leit að Norðurljósum. Þeir munu víst trúa því að barn sem getið er í skini Norðurljósanna verði einstaklega farsælt og hamingjusamt barn. Það fylgdi þó ekki sögunni hvort þætti jafnvænlegt til árangurs að geta barnið undir þaki hótelsins. Þá veit maður hvað allir þessir Japanir eru að gera hérna í kringum áramótin, þeir halda kannski að flugeldarnir séu Norðurljós.
04 desember 2007
Gaman gaman!!
Ég er aldeilis að njóta lífsins þessa dagana með sófagestunum mínum. Karine hin franska er algjör himnasending og við erum búnar að hafa það frábært saman. Fórum út á Gróttu á sunnudaginn að leika okkur í vindinum og sandinum og í gær tók ég mér frí vegna veðurs til að fara með henni upp að Tröllafossi í Mosfellsdal. Skelltum okkur svo í sund og heitu pottana þegar ég var búin að kenna. Í fyrramálið ætlum við að fara í Bláa Lónið saman og Sarah frá Alaska sem kom í morgun ætlar að slást í för með okkur. Mér veitti ekki af að taka mér smáfrí því í næstu viku byrjar mikill vinnutörn hjá mér fram til 21. desember. Karine fer til Akureyrar á fimmtudagsmorguninn og ég á sko eftir að sakna hennar við skemmtum okkur svo vel saman. Tökum morgunleikfimi fyrir letingja á morgnana og eldum saman kvöldmat. Í gærkvöldi var hún með sýningu fyrir mig á listaverkunum sínum sem hún er að fara að sýna á Akureyri. Hún kom með ææææðislega góða osta handa mér og ég á heimboð hjá henni í París. Sarah kom í morgun og stoppar fram á fimmtudagsmorgun, hún er að flakka um heiminn og fer næst til Þýskalands. Allgjör snilld þessi sófaskipti.
30 nóvember 2007
Bingó og kýr
Skellti mér á bingó hjá Félagi erlendra kvenna í Alþjóðahúsinu í gærkvöldi. Ég sat á réttum stað í salnum og vann auðvitað!! 3000 kr. inneign á bensínkort frá N1 he he he. Allir vinningarnir komu til þeirra sem sátu mín megin í salnum. Ég er líka komin með barmmerki sem á stendur hvernig á að fallbeygja KÝR. Ég var náttúrlega ekki með það á hreinu frekar en flestir Íslendingar en er búin að komast að því svo ég verði mér nú ekki til skammar ef ég er spurð. Ekki gott afspurnar fyrir íslenskukennara að vita þetta ekki he he he. Það er sem sagt ekki: hér er kýr um kú frá kusu til belju heldur hér er kýr um kýr frá kú til kúar.
28 nóvember 2007
Skjálftagabb
Ég sá það á jarðskjálftakorti veðurstofunnar að Malarvinnslan var að sprengja fyrir utan Egilsstaði um kvöldmatarleytið. Ég læt ekki gabbast aftur.
Muahahahaha
Ég fékk hláturskast í íslenskutíma í dag, ég og allir nemendurnir. Tárin voru farin að renna við hlógum svo mikið. Ekki veit ég hvað fólk hefur haldið ef það hefur heyrt hlátursrokurnar fram. Þeir eru svo miklir húmoristar þessir karlar sem ég er að kenna núna. Algjörar perlur.
27 nóvember 2007
Sófagestir
Það kemur sjálfsagt fáum á óvart að ég er komin í netfélagasskap nokkurn sem heitir Couchsurfing eða sófagestir sem mér finnst lýsa þessu fyrirbæri nokkuð vel. Ég fékk minn fyrsta sófagest um síðustu helgi en það var hún Katharina sem býr í Berlín. Alveg frábær sófagestur og mjög notalegt að hafa hana í heimsókn. Í kvöld ætla Outi og Emmi frá Finnlandi að kíkja til mín í mat, þær eru sófagestir annars staðar en við hittumst á kaffihúsi um daginn. Ég á svo von á 37 ára franskri listakonu um næstu helgi. Hún er á leiðinni norður til Akureyrar að vera viðstödd brúðkaup bestu vinkonu sinnar og að halda sýningu skilst mér en langar að stoppa aðeins í Reykjavík og kíkja á mannlífið og listalífið hér. Ég á alveg pottþétt eftir að nýta mér það einhvern daginn að vera sófagestur einhverra í Berlín, París, Prag, Varsjá o.s.frv.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)