01 ágúst 2008

Home alone!

Ég keyrði unga fólkið til Þorlákshafnar í gærkvöldi, ja eða nótt. Það var brottför með Herjólfi kl. tvö sem að vísu var svo seinkað um klukkutíma enda troðfullt skip. Þetta er fyrsta Þjóðhátíð þeirra beggja (Valur og Ellen) og tilhlökkunin eftir því. Ég sá nú ekki betur en hátíðin væri byrjuð þarna á bryggjunni í Þorlákshöfn því þegar við mættum á hafnarbakkann var okkur vísað á gám á bak við bíl björgunarsveitarinnar. Að vísu var þetta ekki dauðagámur heldur farangursgámur en mér kæmi ekki á óvart að menn hafi breytt  hlutverki hans eftir komuna til Eyja því margir voru orðnir vel við skál og enn hátt í fjórir tímar þar til lagst yrði að bryggju í Eyjum. 
Nú ætla ég að nota tímann og kyrrðina vel um helgina enda veitir ekki af. Um síðustu helgi var ég í örvæntingar og kvíðakasti en tókst að komast út úr því og er bara ágætlega bjartsýn núna og búin að vinna vel í dag. Ég ætla að gefa skít í allt heilsufæði og borða bara sælgæti, ís og aðra óhollustu eins og mér sýnist já og drekka marga lítra af kaffi og reykja eins og strompur. Það eina sem kemst að hjá mér þessa dagana er að klára þessa blessuðu ritgerð hvað sem tautar og raular. 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætli það séu ekki Buðlungavellir í Herjólfsdal :)
Menn verða nú að láta eftir sér smá sukk um verslunarmannahelgina, ég ætla t.d. að hafa ís og niðursoðið mangó í eftirrétt þegar við verðum búin að gúffa í okkur risastórt lambalæri sem núna lúrir á grillinu :)
Góða verslunarmannahelgi
kv. Rannveig Árna