07 apríl 2008

Stopp stopp stopp!!

Fyrir viku síðan gerðist það að öll viðvörunarljós tóku að blikka í líkamanum á mér. Minnug þess að hafa virt þau að vettugi síðasta sumar með þeim afleiðingum að ég varð eins og nírætt lasburða gamalmenni, þá ákvað ég að taka mark á þeim núna. Það voru samt þung sporin til leiðbeinandans míns að fresta útskrift enn einu sinni. Mér finnst þetta auðvitað algjör aumingjaskapur. Ég fékk bara jákvæðar viðtökur því eins og hún sagði þá skiptir ekki nokkru máli fyrir mig hvort ég útskrifast í vor eða haust. Þannig að núna er ég byrjuð að undirbúa Finnlandsferð í byrjun maí. Ég er að fara á námskeið á vegum Alþjóðahúss í tvær vikur að læra að kenna íslensku sem annað mál. Mér skilst að ég eigi að læra finnsku þessar tvær vikur og er ægilega spennt. Eins og er þá er ég að kenna þrjú íslenskunámskeið en eitt þeirra klárast næsta fimmtudag. Nú er bara að halda dampinum í ritgerðarskrifum, ég tók samt frí frá því í síðustu viku til að safna aftur kröftum.
Ég vissi ekki að kettir fengju flensu. Scarlet ræfillinn er með flensu og er búin að hnerra út í eitt síðustu daga og nætur. Svo vellur gröftur úr augunum á henni þannig að ég er í hjúkrunargírnum og þvæ augun nokkrum sinnum á dag. Ákvað í dag að prófa að nota fjallagrasaseyði til að strjúka yfir augun því ég hef tröllatrú á þeim grösum og veit að þau eru bakteríudrepandi. Sem betur fer er kattaflensan víst ekkert hættuleg. Skotta var með þetta um daginn en hún fékk ekkert í augun heldur hnerraði bara stanslaust og nuddaði á sér nefið. Scarlett er náttúrulega orðin fjórtán ára þannig að hún verður miklu lasnari, er ósköp orkulítil en sem betur fer er hún með fína matarlyst. Skottu hundleiðist að geta ekki fengið hana til að leika við sig og sýnir lítinn skilning á veikindum þeirrar gömlu. 
Vel á minnst. Vorið er komið!! Það var vorlykt þegar ég kom út í morgun og nefið á mér klikkar aldrei þegar kemur að árstíðaskiptum þ.e.a.s. vor og haust.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kolgríma mín kvefaðist í fyrra. Þannig var að hún var alveg í sjokki yfir að flytja frá Reynivöllunum og eitt kvöld þegar úti var krapableyta þá fann ég hana loks skælandi við Reynivellina. Hún rataði ekki á Faxtröðina þangað sem við héldum til og hún var svo köld og blaut litla skinnið. Hríðskjálfandi.
Næstu daga á eftir var hún bara hnerrandi þessi elska og ég held að hún hafi örugglega verið með hita.
Kveðja til sjúklingsins með ósk um góðan bata.
Rannveig Árna

AnnaKatrin sagði...

Um að gera að hlusta á líkamann þegar hann talar til manns, við þurfum að gera svo miklu meira af því.

Annars var frábært að heyra frá þér í dag. Kíki oft hingað inn á bloggið. Hafðu það sem allra best og farðu vel með þig.
ak

Nafnlaus sagði...

Hello. This post is likeable, and your blog is very interesting, congratulations :-). I will add in my blogroll =). If possible gives a last there on my blog, it is about the Computador, I hope you enjoy. The address is http://computador-brasil.blogspot.com. A hug.