23 febrúar 2008

Einkasápan heldur áfram

Uppáhalds sófagestirnir mínir eru búin að vera hjá mér í tvo daga mér til mikillar ánægju. Nú styttist í að sá ítalski hverfi á braut úr faðmi þeirrar þýsku í faðm þeirrar ítölsku (held ég). Síðustu dagana ákváðu þau að nota í skoðunarferð um Suðurland og leigðu smábíl í ferðina. Þau eru búin að vera dugleg að þvælast um Norðurland og Vesturland á puttanum og þykir mér það heilmikið afrek hjá þeim á þessum árstíma. Við áttum góða stund saman í gærkvöldi þar sem þau færðu mér forláta tebolla að gjöf og með fylgdi póstkort sem þau ákváðu að færa mér í eigin persónu frekar en að nota íslensku póstþjónustuna. Við gæddum okkur svo á tiramishu sem Franziska bjó til fyrr um daginn og var víst ekki alveg eins og það átti að vera en mér fannst það nú bara fínt, soldið þurrt en við helltum bara kaffi yfir og þá var það allt í lagi. Æ þessar elskur það var svo yndislegt kortið frá þeim og ég á eftir að sakna þeirra mikið. Einhver plön virðast vera í gangi hjá þeim um að hittast á Ítalíu í nánustu framtíð þannig að nú veit ég ekkert hver staðan er með þá sem heima situr í festum. Það virðist því ætla að vera framhald á sápuóperunni. 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ja, sú ítalska myndi ekki samþykkja að gaurinn sé að senda hjartnæmt póstkort í félagi við þá þýsku svo það var ekki um annað að gera en að afhenda þér það fyrir brottför.
Þú verður að segja þeim að það sé fólk á Íslandi sem vill fá að vita framhaldið af þessari ástarsögu.
Hvað gerist á Ítalíu?
Kveðja
Rannveig Árna