05 febrúar 2008

Gengið í ljósið

Ég fór að taka á móti þýska pönkrokkaranum á B.S.Í. síðasta föstudag og brá heldur í brún því maðurinn reyndist vera 1.90 m á hæð og þrekinn að auki. Það væri ekki séns að hann kæmist fyrir í stofusófanum. Ég leysti málið bara með að lána honum rúmið mitt og sofa sjálf í sófanum þessar tvær nætur sem skötuhjúin að norðan voru í gestaherberginu.

Bláa lónið var eins og alltaf, ægilega notalegt. Við fórum öll fjögur seint á laugardaginn svo það var komið myrkur sem mér finnst svo kósý og þar sem ég var gleraugnalaus þá hefði ég alveg eins getað verið ein í lóninu. Svolítið vesen að finna kassana með hvítu drullunni þegar maður sér ekki glóru en það hafðist eftir að mér var bent á að stefna á bjarta ljósið. Það var því nánast andleg upplifun að sækja hvíta gumsið með því að ganga í ljósið.

Sá þýski er algjör draumur í dós og reynist vera karlkyns útgáfa af mér sjálfri. Hann var búinn að skrifa fyrir mig geisladiska sem hann færði mér svo við hlustum á tónlist, tölum um bækur og allt milli himins og jarðar, borðum hákarl og harðfisk, eyddum góðum tíma í Kolaportinu (ég fann þessa fínu skó á 500 kall og geisladisk á 250) á morgun ætlum við að kíkja eftir einhverju fatakyns hjá Hjálpræðishernum. Þar að auki er ég búin að lesa úr tarot spilum fyrir hann svo hann fer heim með góðar ábendingar frá mér í farteskinu :-) 

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bíddu Guðlaug, er einhver ástæða til að senda hann aftur til Þýskalands? Halló!!!!!
kv.
Rannveig Árna

Nafnlaus sagði...

Heyrðu, þú gleymdir að segja frá þeim ítalska og hvernig þeirri sögu vindur fram. Þessi þýski hefur greinilega átt huga þinn.

Nafnlaus sagði...

Hvenær fórstu að lesa tarot, er hægt að fá tíma?
Kristín María

Netfrænkan sagði...

Kristín ég skal setja mig í tarotgírinn næst þegar þú kemur :-)
Rannveig ég hefði alveg verið til í að kyrrsetja manninn hérna!! Af skötuhjúunum að Norðan er það að frétta að rómantíkin blómstrar þar á bæ. Þeim þýska finnst þetta nú vera hálfgert tvíkvæni :-D

Unknown sagði...

Jedúddamía, það er aldeilis ekki lognmolla á þínum bæ!
Það eru endalaust sófagestir hjá þér! Hljómar mjög spennandi! Þú virðist líka vera nokkuð heppin með gesti. Ji, aldrei myndi mér detta í hug að þetta væri hægt!
Knús,
Ingileif.
P.S. Hlakka til að heyra framhöldin á sögunum!