12 febrúar 2008

Barnæskan fyrir bí

Í nótt var ég vakin upp við ámátlegt vein í íbúðinni. Í fyrstu hélt ég að Snædís væri gengin aftur en við nánari athugun reyndist þetta vera Skotta litla sem greinilega er ekki lengur lítil. Ég var sem sagt of sein að mæla mér mót við Helgu dýralækni til þess að koma í veg fyrir svona uppákomu. Nú má ég líklega eiga von á því næstu tvær vikurnar að öll fress í næsta nágrenni safnist saman fyrir neðan gluggann hjá mér flytjandi mansöngva fyrir yngismeyna á heimilinu. Þeir fá þó bara þetta eina tækifæri því um leið og þetta ástand á henni er yfirstaðið verður endanlega tekið fyrir að það endurtaki sig og brunað til Helgu. Það er táknrænt fyrir þetta nýja lífsskeið ungfrúarinnar að hún hefur ekki litið við músunum sínum í dag. Þær hafa þó verið hennar líf og yndi þessar fimm litríku mýs sem ég gaf henni þegar hún flutti til mín. Nú er bara spígsporað um með þokkafullum hreyfingum og mænt löngunaraugum út um gluggann. Kannski ég splæsi á hana smá túnfiski til að halda upp á þessi tímamót. 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað er unglingurinn gamall? Klófríður mín er 3 mánaða, get ég ekki verið róleg með hana fram til haustsins?
Klófríður leikur sér með Ikea-rottu sem Kolgrímu var gefin en hefur aldrei vilja leika með. Litla mín er aftur á móti mjög kát með rottuna, tuskar hana til og hleypur um með hana í kjaftinum.
kv.
Rannveig Árna

Netfrænkan sagði...

Heimasætan verður 7 mánaða á sunnudaginn. Ég mæli með tíma hjá dýralækninum fljótlega eftir að Klófríður verður 6 mánaða þ.e.a.s. ef þú ætlar að láta taka hana úr sambandi strax. Mér skilst að það megi ekki gera aðgerðina á meðan þær eru breima því það getur haft slæm áhrif á geðslag þeirra.