22 júlí 2007

Öskjuhlíð og Harðaflugan ógurlega

Ég er byrjuð að þjálfa mig fyrir Esjugöngu ja eiginlega líka bara til að auka orkuna mína. Tvo daga í röð er ég búin að fara í rösklega göngu í Öskjuhlíðinni og komið endurnærð heim. Að sjálfsögðu get ég ekki farið troðnar slóðir frekar en venjulega og klöngrast því á milli trjáa og steina enda er það bara betra fyrir líkamann. Ég þarf líka að fylgjast með plöntum og trjám og fann eitt blóm í kvöld sem ég var ekki viss um hvað heitir fyrir utan að það væri einhver depla. Fletti því upp þegar ég kom heim og jú jú þetta er Hárdepla.
Annars varð mér hugsað til göngutúrs í Öskjuhlíðinni fyrir þó nokkuð mörgum árum með manni sem ég var að kynnast og pínlegu atviki því tengdu. Eftir göngutúrinn bauð ég honum í kaffi heima og sem við sitjum og spjöllum rek ég þá ekki augun í flugu á handleggnum á mér. Ég ætlaði að strjúka hana af mér þegar ég sá mér til skelfingar að þetta var Harðaflugan ógurlega á fleygiferð upp handlegginn á mér. Í miðju samtali stekk ég sem sagt á fætur æpandi og öskrandi, berjandi mig alla að utan og djöflast í hárinu á mér eins og geðsjúklingur. Stekk síðan gólandi inn á bað, ríf mig úr fötunum og undir sturtuna. Eftir dágóða stund kem ég fram heldur kindarleg á svipin og mér til undrunar situr maðurinn ennþá við borðið, að vísu með skelfingarsvip á andlitinu ha ha ha ha ha ha!!

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hver er Harðaflugan?

Netfrænkan sagði...

Harðaflugan er fuglalús sem lítur út eins og venjuleg saklaus húsfluga en það er hún svo sannarlega ekki. Hún þekkist á því að hún er flöt og skríður skáhallt á miklum hraða. Hún eins og sogar sig fasta við mann enda sýgur hún BLÓÐ!! Það er ómögulegt að drepa þetta kvikindi, venjulegt skordýr væri löngu komið í klessu eftir að vera barið með stórum steini. En ekki Harðaflugan, hún er eins og gúmmí og sér ekki á henni.
Reyndar held ég hún sé ekki eins hræðileg og ég ímynda mér en viðbrögð mín eru lærð frá mömmu og systrum hennar sem trylltust alltaf svona ef þær sáu Harðaflugu og öskruðu HARÐAFLUGA!! HARÐAFLUGA!!

Nafnlaus sagði...

Harðaflugan þolir líka 60° þvott, ég reif mig einu sinni úr bolnum þegar ég sá harðaflugu á mér og skellti honum í vélina á 60° prógramm, helvítið flaug þegar ég tók bolinn út úr vélinni.

Nafnlaus sagði...

Finnur stóð einu sinni fyrir utan eldhúsgluggann á Selás þar sem við systur vorum flestar staddar. Allt í einu sá hann okkur allar tryllast og hendast út um eldhúsdyrnar, í dyrunum myndaðist smá stífla þegar við börðumst allar við að komast út í einu en síðan þyrluðumst við allar öskrandi út á hlað. Börnin sátu furðu lostin eftir inn í eldhúsi.

Nafnlaus sagði...

en hún þolir ekki frost ég er búina að prófa það:)

Díana Ósk sagði...

hahahaha.... börnin eftir inní eldhúsi ja hér ... hahhaa en úff nú er enn eitt skrímslið til að varast og ég þekki það ekki... ég vil gjarnan fá mynd:)