18 júlí 2007

Ofvirkir ánamaðkar

Fyrir þá sem það ekki vita þá er kaffikorgur afskaplega góður í garðinn því ánamaðkarnir virðast sólgnir í hann. Einar A sagði mér einhvern tíman að á bæ einum í Fljótsdal hefði húsfreyjan alltaf hent korginum út um eldhúsgluggann og þar var hægt að ganga að stórum og bústnum ánamöðkum vísum fyrir veiðiferðir. Ég fór að velta þessu fyrir mér eftir að hafa séð heimildamynd um kaffi í sjónvarpinu um daginn. Í henni var sagt frá því að geitasmali nokkur hefði uppgötvað kosti kaffis eftir að hafa séð geiturnar sínar svona eiturhressar og sprækar þegar þær voru búnar að gæða sér á rauðum berjum kaffitrésins. Ætli ánamaðkarnir séu svona sólgnir í kaffikorginn af því þeir verða svo hressir af honum? Aha! Þá hljóta þeir að afkasta miklu meira í jarðvinnunni og éta meira sem er þá ástæðan fyrir hvað þeir verða feitir og stórir.

Nú býð ég öllum ánamöðkum hverfisins í kaffiveislu og hendi korginum í óræktarbeðin í garðinum mínum. Sem meðlæti fá þeir fjallagrasaúrgang og tel ég nokkuð víst að næsta sumar þurfi ég ekki að vinna heldur geti framfleytt mér á sölu gæðaánamaðka plús það að ég verð komin með þessa fínu mold í beðin.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þá myndi ég líka halda Snædísi frá kaffikorgnum. En kannski gefa Scarlet smá.