26 júlí 2007

Kötturinn með ljáinn

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is í dag þar sem sagt er frá kettinum Óskari sem býr að mér skilst á elliheimili í Bandaríkjunum. Hann hefur það fyrir sið að hreiðra um sig við hliðina á einhverju gamalmenninu og undantekningarlítið þá deyr viðkomandi nokkrum klukkustundum síðar. Starfsfólkið er farið að taka það mikið mark á þessum heimsóknum hans að það gerir fjölskyldu "þess dauðadæmda" viðvart þegar það sér að Óskar er mættur svo þau geti eytt síðustu klukkutímunum saman. Ég verð að viðurkenna að ef Snædís tæki upp á að kúra hjá mér þá myndi mér ekki verða um sel því í fyrsta lagi þá er hún enginn kúruköttur, enda skíthrædd við að koma nálægt mér eftir öll lyfin sem ég er búin að pína ofan í hana. Í öðru lagi þá gerði hún nákvæmlega þetta þegar Amor minn dó. Það var eins og hún vissi að hann væri að fara. Þegar ég fór í vinnu um morguninn þá lá hún og hélt utan um hann og var enn í sömu stellingu þegar ég kom heim. Um leið og ég kom inn til þeirra þá stökk hún fram en Amor minn dó 10 mín. seinna í fanginu á mér.
Annars er það af henni að frétta að hún er búin að vera lyfjalaus í tvær vikur og hegðar sér enn eins og eðlilegur köttur, ég krosslegg fingur!

Engin ummæli: