30 desember 2007

Stolt guðmóðir




Þetta er hann Baldur Logi sem varð guðsonur minn í dag. Hann var nú orðinn soldið lúinn eftir daginn og fékk sér blund í fangi guðmóðurinnar. Hann er algjör engill og tók öllu umstanginu með stóískri ró.

29 desember 2007

Mér vera þig velkomna...

Eitthvað á þessa leið hefur það litið út þegar ég ætlaði að slá um mig á ítölsku. Eins og Roberto svaraði þá er Babelfish alveg glatað þýðingarforrit. Ég hef nú samt getað notað það til að stauta mig fram úr því sem Rafael vinur minn skrifar á spænsku. Nú veit ég sem sagt að það er ekki Rafael sem er glataður í spænsku (þó ekki væri, enda móðurmál hans) heldur er þýðingarforritið svona lélegt ha ha ha. Roberto er ítalskur sófagestur sem ætlar að passa kettina og íbúðina fyrir mig á meðan ég er í Danmörku. Hann er á leiðinni í líffræðinám í HÍ og vantar húsnæði í einhverja daga eftir að hann kemur.

Talandi um kisur. Ég hef verið að veigra mér við því að blogga um hana Snædísi mina en nú held ég sé kominn tími á það. Ég tók þá erfiðu ákvörðun fyrir u.þ.b. mánuði síðan að láta svæfa hana eftir að hún var byrjuð að taka upp á því að æla alltaf lyfjunum. Ég var búin að verða vör við ælur hér og þar í smátíma og skildi ekkert í þessu, hélt að maturinn væri að fara eitthvað illa í þær. Einn daginn varð ég svo vör við að mín fór bara beint fram og ældi eftir að ég hafði gefið henni lyfin. Þá fór ég nú að fylgjast með frökeninni og jú jú hún var eins og versta bulimia og ældi umsvifalaust eftir að hafa fengið lyfin. Þetta þýddi að hún var aftur byrjuð að pissa hér og þar og var þar að auki í stöðugri paranoju gagnvart fólki. Ég sá það að þetta var ekkert líf fyrir litla skinnið og ekki um annað að ræða en að láta hana sofna svefninum langa. Ég grét svo mikið á meðan hún var að sofna að Helga dýralæknir varð hálfmiður sín og er þó sjálfsagt ýmsu vön. Í skjóli nætur tók ég gröfina hennar í blómabeðinu í garðinum mínum við hliðina á honum Amor. Hún hélt á sínum tíma utan um hann í heilan dag þegar hann var að deyja enda voru þau óaðskiljanleg. Mér skilst að maður megi ekki grafa gæludýr í húsgörðum en er sko nokk sama. Þetta blómabeð er minn einkagrafreitur fyrir mínar kisur. Scarlet hefur gengið Skottu í móðurstað eftir að Snædís fór og sýnir henni einstakt umburðarlyndi og ástúð.

26 desember 2007

Dásemdarlíf

Þvílíkir dásemdardagar og hvít jól að auki. Kertaljós, konfekt og ljúf tónlist. Þetta gerist ekki betra. Ég fékk svo ansi góðar jólagjafir og hef verið að njóta þeirra í gær og í dag. Í gærkvöldi var Johnny Cash kvöld hjá mér sem endaði á því að ég horfði á Walk the Line sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í dag var ég að hlusta á Mugison og Hjálma sem ég hafði pantað í jólagjöf frá sonum mínum. Ég ætla að geyma mér að njóta jólagjafarinnar frá systrum mínum sem er borvél með öllum græjum. Hún verður samt tekin í gagnið mjög fljótlega því hér hafa beðið myndir mánuðum saman eftir því að komast upp á vegg. Svo get ég líka notað hana til að skrúfa með, algjört þarfaþing. Á morgun byrjar svo vinnan aftur, ég á nú eftir að sjá hvernig mér gengur að vakna í fyrramálið þar sem svefntími hér á bæ er stilltur á jólasvefn. Ég er allavega vel úthvíld.

25 desember 2007

Gleðilega hátíð!

Í dag er besti dagur ársins hinn hefðbundni náttfatadagur. Ég dröslast fram úr og fæ mér að borða en síðan er skriðið aftur upp í með bók meðferðis. Ég hef nokkrar bækur að lesa svo ég er vel birg þetta árið. Sem betur fer á ég ekki sjónvarp sem glepur mig frá bókalestrinum. Annars einkennast þessi jól af mikilli innri ró hjá mér sem lýsir sér í því að ég hef aldrei verið jafn afslöppuð með þrif og fyrir þessi jól og viti menn jólin komu fyrir því!
Á Þorláksmessukvöld rölti ég Laugaveginn eins og alltaf, þetta er ein af mínum hefðum enda bý ég rétt hjá honum. Það er alveg ótrúlegt hvað veðrið er alltaf gott þetta kvöld. Í ár fannst mér miklu meiri ró yfir fólki en oft áður en kannski var það bara ég sem var rólegri. Ég tók eftir því að barðastórir hattar eru í tísku hjá körlum á miðjum aldri og upp úr. Sveitarstjórinn í Hvalfjarðarstrandarhreppi var ansi reffilegur með sinn hatt og í brúnum frakka.
Núna sitjum við Skotta við stofugluggann og horfum á snjóinn mulla niður í kyrrðinni úti. Fuglarnir syngja í trjánum í garðinum, nokkrar gæsir flugu gargandi yfir áðan og meira að segja krunkaði hann krummi fyrir okkur.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og innri friðar.

21 desember 2007

Hjúúúkkkk!!!!!!!

Þá er þessi törn á enda. Ég veit nú orðið varla hvað ég heiti en til allrar hamingju þá er ég búin með öll jólainnkaup og get því bara dúllað mér hér heima um helgina. Mér til mikillar ánægju þá er HÍ bara grand á því og gaf okkur jólagjöf, eðalkonfekt frá Belgíu. Nei ég kíkti ekki í pakkann! Kassinn er bara með slaufu utan um svo ég komst ekki hjá því að lesa utan á hann. Mér dettur náttúrlega ekki í hug að opna hann fyrr en á aðfangadagskvöld.

Ég er með einn sófagest fram á sunnudag, það er hann Harry frá Ástralíu sem verður 19 ára í byrjun janúar. Alveg einstaklega kurteis og ljúfur strákur sem er gaman að hafa í heimsókn. Hann fór á kaffi París í kvöld að hitta eitthvað fólk og er víst búinn að mæla sér mót við Val og Daníel á Gauknum seinna í kvöld á einhverja hiphop tónleika. Ég á nú eftir að sjá hann vakna sjö fyrramálið til að þrælast Gullna hringinn í rútu ha ha ha.




10 desember 2007

Jólagosið

Bara svo þið vitið það þá hefur allt leikið á reiðiskjálfi hjá Upptyppingum síðustu tvo daga. Svo sem ekkert stórir skjálftar en alveg mýgrútur af þeim. Varð bara að deila þessum skjálfta áhuga mínum með ykkur. Ég gæti allt eins trúað því að von sé á jólagosi og þá á ég ekki við kóklestina frá Vífilfelli.

Á fjórum fótum

Bakið á mér gaf sig endanlega í dag. Ég skreiðist á fjórum fótum ja eða höndum og fótum eiginlega, en næ að rísa á fætur af og til. Er stokkbólgin og dofin í mjóbakinu og langt niður á rasskinnar. Búin að maka á mig voltaren kremi og hakka í mig íbúfen fyrir svefninn. Ekki mjög heppilegur tími að lenda í þessu en hvenær er svo sem heppilegur tími? Er í prófyfirsetu í HÍ næstu tvær vikurnar og var að fá 32 möppur frá nemendum mínum þar, sem þýðir að ég þarf að sitja næstu vikurnar við að lesa. Er svo að klára íslenskukennsluna í Plastprent og útskrifa þar á fimmtudaginn. Mon Dieu!!!

09 desember 2007

Stuð hjá þessum

Brúsi og Pippilínus ættu að sjá þennann snilling!!

Laufabrauð og magadans

Í gær var bakað laufabrauð hér í Holtinu. Sem höfuð fjölskyldunnar hér á höfuðborgarsvæðinu þá sé ég um að smala börnum og systkinabörnum saman til mín til að halda við þessari skemmtilegu hefð. Því miður komust ekki allir, Valur var út á sjó og Daníel þurfti að vinna. Að sjálfsögðu er notast við uppskrift frá Hafursá sem er miklu betri en þessar búðarkökur. Ég var því miður í prófyfirsetu til klukkan eitt þannig að við byrjuðum ekki fyrr en seinnipartinn. Við látum okkur nú nægja að gera eina uppskrift og eitthvað var ég kærulaus við flatninguna í ár því við fengum tíu kökum færri en í fyrra. Í staðinn var samt fullt af afgöngum sem er heldur ekki slæmt. Í dag ákvað ég að hafa náttfatadag og njóta þess að vera í fríi með kisunum mínum. Ég dundaði mér þó aðeins við hilluþrif á milli þess sem ég tók nokkrar mjaðmasveiflur enda að fara að læknisráði. Kolbrún grasalæknir setti mér nefnilega það fyrir að dansa magadans á hverjum degi, ekki slæmt læknisráð það og ég mæli eindregið með því. 

06 desember 2007

Máttur Norðurljósanna

Sarah frá Alaska fræddi mig á því að Japanir flykktust á hennar heimaslóðir á veturna í leit að Norðurljósum. Þeir munu víst trúa því að barn sem getið er í skini Norðurljósanna verði einstaklega farsælt og hamingjusamt barn. Það fylgdi þó ekki sögunni hvort þætti jafnvænlegt til árangurs að geta barnið undir þaki hótelsins. Þá veit maður hvað allir þessir Japanir eru að gera hérna í kringum áramótin, þeir halda kannski að flugeldarnir séu Norðurljós.

04 desember 2007

Gaman gaman!!

Ég er aldeilis að njóta lífsins þessa dagana með sófagestunum mínum. Karine hin franska er algjör himnasending og við erum búnar að hafa það frábært saman. Fórum út á Gróttu á sunnudaginn að leika okkur í vindinum og sandinum og í gær tók ég mér frí vegna veðurs til að fara með henni upp að Tröllafossi í Mosfellsdal. Skelltum okkur svo í sund og heitu pottana þegar ég var búin að kenna. Í fyrramálið ætlum við að fara í Bláa Lónið saman og Sarah frá Alaska sem kom í morgun ætlar að slást í för með okkur. Mér veitti ekki af að taka mér smáfrí því í næstu viku byrjar mikill vinnutörn hjá mér fram til 21. desember. Karine fer til Akureyrar á fimmtudagsmorguninn og ég á sko eftir að sakna hennar við skemmtum okkur svo vel saman. Tökum morgunleikfimi fyrir letingja á morgnana og eldum saman kvöldmat. Í gærkvöldi var hún með sýningu fyrir mig á listaverkunum sínum sem hún er að fara að sýna á Akureyri. Hún kom með ææææðislega góða osta handa mér og ég á heimboð hjá henni í París. Sarah kom í morgun og stoppar fram á fimmtudagsmorgun, hún er að flakka um heiminn og fer næst til Þýskalands. Allgjör snilld þessi sófaskipti.  

30 nóvember 2007

Bingó og kýr

Skellti mér á bingó hjá Félagi erlendra kvenna í Alþjóðahúsinu í gærkvöldi. Ég sat á réttum stað í salnum og vann auðvitað!! 3000 kr. inneign á bensínkort frá N1 he he he. Allir vinningarnir komu til þeirra sem sátu mín megin í salnum. Ég er líka komin með barmmerki sem á stendur hvernig á að fallbeygja KÝR. Ég var náttúrlega ekki með það á hreinu frekar en flestir Íslendingar en er búin að komast að því svo ég verði mér nú ekki til skammar ef ég er spurð. Ekki gott afspurnar fyrir íslenskukennara að vita þetta ekki he he he. Það er sem sagt ekki: hér er kýr um kú frá kusu til belju heldur hér er kýr um kýr frá kú til kúar. 

28 nóvember 2007

Skjálftagabb

Ég sá það á jarðskjálftakorti veðurstofunnar að Malarvinnslan var að sprengja fyrir utan Egilsstaði um kvöldmatarleytið. Ég læt ekki gabbast aftur.

Muahahahaha

Ég fékk hláturskast í íslenskutíma í dag, ég og allir nemendurnir. Tárin voru farin að renna við hlógum svo mikið. Ekki veit ég hvað fólk hefur haldið ef það hefur heyrt hlátursrokurnar fram. Þeir eru svo miklir húmoristar þessir karlar sem ég er að kenna núna. Algjörar perlur. 

27 nóvember 2007

Sófagestir

Það kemur sjálfsagt fáum á óvart að ég er komin í netfélagasskap nokkurn sem heitir Couchsurfing eða sófagestir sem mér finnst lýsa þessu fyrirbæri nokkuð vel. Ég fékk minn fyrsta sófagest um síðustu helgi en það var hún Katharina sem býr í Berlín. Alveg frábær sófagestur og mjög notalegt að hafa hana í heimsókn. Í kvöld ætla Outi og Emmi frá Finnlandi að kíkja til mín í mat, þær eru sófagestir annars staðar en við hittumst á kaffihúsi um daginn. Ég á svo von á 37 ára franskri listakonu um næstu helgi. Hún er á leiðinni norður til Akureyrar að vera viðstödd brúðkaup bestu vinkonu sinnar og að halda sýningu skilst mér en langar að stoppa aðeins í Reykjavík og kíkja á mannlífið og listalífið hér. Ég á alveg pottþétt eftir að nýta mér það einhvern daginn að vera sófagestur einhverra í Berlín, París, Prag, Varsjá o.s.frv.

20 nóvember 2007

Bílaborgin Reykjavík

Það er greinilegt að Reykjavík er ekki skipulögð með tilliti til gangandi eða hjólandi vegfarenda a.m.k. ekki öll hverfi. Ég þurfti að taka strætó í gær upp á Lyngháls þar sem ég er að kenna. Það var jú allt í lagi að komast á staðinn, aðeins þriggja mínútna gangur frá stoppistöðinni sem var sömu megin og Lyngháls. Annað mál var með heimförina. Þá varð ég að komast yfir Vesturlandsveginn til þess að ná strætó í bæinn en það er ekki fyrir nema fuglinn fljúgandi að komast þar yfir. Ég þurfti því að ganga upp á að ég held Höfðabakkabrúna sem tekur þó nokkurn tíma og yfir mörg gönguljós að fara. Ég endaði fyrir neðan Húsgagnahöllina og gekk þaðan í Ártún þar sem strætó stoppar og þurfti auðvitað að bíða dágóða stund eftir næsta strætó. Sem betur fer var vorblíða svo þetta var ekki svo slæmt en ég vildi ekki þurfa að fara alla þessa leið í roki og rigningu. Ég var 20 mínútur á leiðinni uppeftir en það tók mig klukkutíma að komast heim. Ég segi nú bara guðsélof að ég átti ekki erindi í hverfið fyrir neðan Vesturlandsveginn þá hefði ég lent í verulegum vandræðum. Að sjálfsögðu er ég komin á bíl núna til að lenda ekki í þessu veseni aftur.

18 nóvember 2007

Pínulítil frænka

Jiiiii hvað það er gaman að vera búin að eignast nýja systurdóttur. Sigurbjörg átti pínulitla stelpu 17. nóvember. Bara 10,5 merkur og 48 cm. Það eru komnar myndir af henni á Valbjörgu, algjör dúlla eins og Vordís segir.

15 nóvember 2007

Ég varð orðlaus í dag

Ég var að útskrifa einn hópinn í íslenskukennslunni í dag og er eiginlega bara enn hálfklökk þau voru svo yndisleg. Haldiði að þau hafi ekki verið búin að slá saman í stóran og fallegan blómvönd handa mér og svo var ég kysst og knúsuð í bak og fyrir. Síðan voru teknar endalaust myndir af mér með þeim til skiptis. Ég vissi nú bara ekki hvernig ég átti að vera þetta var svo yndislegt. Ég er búin að eiga frábæran tíma með þeim í kennslunni síðasta einn og hálfan mánuð en átti svo sannarlega ekki von á svona góðri kveðjustund. Brosið er enn fast á milli eyrnanna á mér ég er svo glöð í hjartanu :-D

13 nóvember 2007

Pestir á sveimi

Hér ligg ég eins og skata og get ekki annað. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að næla sér í einhverja pest af þeim aragrúa sem er á sveimi allt um kring. Sem betur fer er það samt ekki magapestin ógurlega sem hefur lagt svo marga að velli í kringum mig enda er ég á tvöföldum acidophilus skammti þessa dagana til að tryggja mig gegn henni. Nei ég er bara með höfuðverk og beinverki og ákvað að halda mig við rúmið í dag svona milli íslenskukennslustunda. Nú eru bara tveir tímar eftir á Grund, en ég á samt eftir að sakna þeirra. Það er svo frábært fólk sem ég er að kenna þar.

Af ómegðinni er það að frétta að ég hef verið tekin í sátt af frú Scarlet sem er aftur farin að hrjóta á kvöldin í bælinu sínu við hliðina á rúminu mínu. Hún entist nú ekki að sofa úti nema svona þrjár nætur og sá þá að sér. Fröken Snædís virðist vera búin að jafna sig á hræðslunni við litla gerpið sem er löngu hætt að hræðast þær gömlu. Nú er mikið sport að liggja í leyni og stökkva fram til að bregða gamalkisunum sem hrökkva í kút og hvæsa aðeins svona til að lýsa vanþóknun sinni á þessari unggæðislegu hegðun. Hún kann sig þó það mikið að láta þær algjörlega í friði þegar þær eru að leggja sig, sem er ansi oft enda orðnar nokkuð aldurhnignar og með síþreytu.


09 nóvember 2007

Bakslag

Þetta er búin að vera mjög stíf vika hjá mér og ég hef fundið orkuna hreinlega leka út. Þegar ég var búin að kenna um hádegið í dag var ekki um annað að ræða fyrir mig en að druslast heim og upp í rúm að sofa. Hef varla orku til að fara fram að borða. Þetta þýðir að þessa helgi mun ég ekki lyfta litla fingri né litlu tá ef ég á að geta tekist á við næstu viku. Mér tekst alltaf að fara fram úr sjálfri mér! Annars er ég að klára námskeiðið á Grund í næstu viku svo það fer aðeins að hægjast um. 

04 nóvember 2007

Ómegð

Mér líður eins og konu sem tilkynnir að hún eigi von á sjötta barninu. Það er nefnilega komin þriðja kisan á heimilið. Sú stutta heitir Skotta og ber nafn með réttu því hún skottast um alla íbúð. Í kvöld tókst henni einhvern veginn að troða sér INN Í stofusófann og komst ekki út aftur. Ég heyrði vælið í henni og fór að leita og ætlaði aldrei að finna hana. Ég kíkti meira að segja inn í ísskáp, örbylgjuofn, ofan í skúffur og inn í skápa enda henni vel trúandi til að hafa troðið sér inn á ólíklegustu staði. Á endanum notaði ég baulaðu nú Búkolla mín aðferðina og rak loks augun í litla loppu sem veifaði út um rifu neðan á sófanum. Sófinn er eðalmubla keypt í Góða hirðinum og níðþungur svo ég get varla bifað honum þannig að ég gat ekki hvolft honum til að komast betur að. Það tók því dágóða stund að ná henni þaðan og tókst ekki fyrr en ég var búin að setja disk með túnfisk undir sófann, þá loksins gat hún troðið sér allri út um rifuna. Guð sé lof, ég var farin að sjá það fyrir mér að þurfa að skrúfa fjandans sófann í sundur.
Skotta er búin að vera hérna síðan á miðvikudagskvöldið og þær gömlu eru að jafna sig á komu hennar. Frú Scarlet umber hana með þögulli fyrirlitningu en fröken Snædís var logandi hrædd við þetta gerpi í byrjun. Hún er nú aðeins að koma til blessunin. Frú Scarlet var afskaplega móðguð við mig fyrstu tvo dagana og sneri bara upp á sig og strunsaði í burtu þegar ég ætlaði að klappa henni. Eftir að hafa smjaðrað fyrir henni daginn út og inn þá er ég smám saman að komast aftur í náðina.

02 nóvember 2007

Framtíðarsýn

Ég átti leið í verslun Símans í Kringlunni í dag. Eins og alltaf var þó nokkur bið svo ég fékk mér sæti á einum af þessum setpúðum sem þarna eru. Stuttu seinna koma tvær konur inn, líklega mæðgur. Sú eldri um áttrætt vildi tylla sér á sama setpúða og ég en hin fór að skoða síma á meðan þær biðu. Þetta var smávaxin fíngerð kona með sítt grátt hár tekið saman í hnút ofan á höfðinu. Smástund leið en þá byrjar sú aldraða allt í einu að syngja dægurlag frá stríðsárunum á ensku. Hún var nú bara með ágæta rödd sú gamla en dóttirin brást strax við og sagði: ekki syngja hérna! Æ já, ég gleymdi mér sagði sú gamla og þagnaði, en ekki lengi því nú sneri hún sér að mér og sagði: mamma sagði alltaf við mig, Gunna mín ef þér leiðist þá skaltu bara syngja. Stundum gleymi ég mér bara þegar ég er innan um fólk, það heldur náttúrulega að ég sé orðin rugluð. Ég er nú orðin áttatíu og eins árs og þegar þú verður komin á minn aldur þá manstu eftir því sem gamla konan sagði. Ég brosti til hennar og sagðist sjálf lenda í því nú þegar af og til að fara að raula lag úti á götu. Ég hefði gjarnan viljað spjalla meira við hana en þá var mitt númer kallað upp. Eftir rúm þrjátíu ár verð ég þessi kona að syngja lag eftir Nick Cave.

31 október 2007

Lækjarnes prinsessan

Það eru komnar myndir af dúllunni á Valbjörgu :-D

28 október 2007

Veisla í Holtinu

Hér er búin að vera standandi veisluhöld í allan dag. Kolbrún A kom í heimsókn með krakkana þannig að ég ákvað að baka eplaköku og pönnsur. Ég stóðst að sjálfsögðu ekki freistinguna og gúffaði í mig vænum skammti af heitri eplaköku með rjóma. Daníel og Kolbrún tóku sig svo til og klipptu nokkra dreadlokka úr feldinum á Snædísi þannig að í stað þess að líta út eins og rastafari þá er hún núna eins og miðaldra pönkari. Daníel er svo kominn með það verkefni að sjá um að kemba henni þegar hann kemur í heimsókn. Ég fæ auðvitað ekki að koma nálægt henni, hræðilega konan með lyfjadæluna.
Í kvöld eldaði ég svo lambalæri a la mamma fyrir allt strákastóðið mitt og var sannkölluð jólastemning í holtinu. Við borðuðum nefnilega inn í stofu, kveiktum á kertum út um allt og drukkum malt og appelsín með matnum. 

25 október 2007

Burðardýr óskast!!

Mér skilst að það jaðri orðið við neyðarástand á landinu. Það lítur nefnilega út fyrir að íbúfen sé uppurið í öllum apótekum landsins og ný sending ekki í sjónmáli á næstunni. Nú er lag fyrir þá sem lúra á gömlum birgðum að notfæra sér þennan skort og koma pillunum sínum í verð. Ég væri alveg til í að borga tvöfalt verð fyrir eins og tíu töflur. Ég er nefnilega með slitgigt í axlar- og hnjáliðum og íbúfenið svínvirkar á hana af því það er bæði verkjastillandi og bólgueyðandi. Eins og fleiri þá er ég löngu búin með allt mitt íbúfen og hef svo sem ekkert þurft á því að halda lengi fyrr en í fyrrakvöld að ég fékk þetta hrikalega verkjakast í hægri axlarlið. Það var sama hvað ég reyndi að anda mig í gegnum verkinn, ekkert gekk og þegar ég var farin að gnísta tönnum af sársaukanum þá lét ég mig hafa það að taka 3 parasetamól sem var skárra en ekkert. Daginn eftir kveikti ég allt í einu á perunni að ég hafði af rælni keypt Voltaren krem um daginn og var fljót að maka því á mig. Það virkar svo sem ágætlega en jafnast samt ekki á við íbúfenið. Ég vil bara koma því á framfæri að ef einhver sem mig þekkir er á leið til útlanda þá væri vel þegið að viðkomandi myndi smygla inn svona eins og einum pakka fyrir mig af íbúfeni (það heitir víst ibuprofen í Danmörku og kannski í fleiri löndum). Það er kannski vissara að taka það fram að það er algjör óþarfi að 
fela það innvortis.

21 október 2007

Læknisvitjun

Ég get sko ekki kvartað yfir þjónustunni hjá henni Kolbrúnu grasalækni. Hún vitjar manns líka í draumi!! Síðasta vika var ansi strembin hjá mér. Byrjaði á því síðustu helgi að þrífa og stjórnast bæði laugardag og sunnudag enda búin að koma mér í stjórn AA hússins míns og held utan um peningamálin þar. Við vorum að taka húsið í gegn, þrífa og mála og ég var auðvitað mætt 9 bæði laugardag og sunnudag og var á fullu báða dagana. Síðan tók við alla vikuna að fara yfir ein 35 viðtöl nemenda minna sem er afskaplega seinlegt verk enda sum þeirra allt upp í 50 bls. ásamt náttúrulega íslenskukennslunni. Heldur var farið að draga af mér þegar leið á vikuna og á endanum fékk ég Kolbrúnu grasalækni í heimsókn eina nóttina, greinilega að minna mig á að ganga ekki fram af mér. Sem betur þarf ég ekki að fara yfir nein nemendaverkefni þessa vikuna. Verð þó með kynningu á rannsókninni minni á fimmtudagskvöldið og þarf að undirbúa hana en það verður nú ekkert erfitt.

16 október 2007

Reyniberjadýrð

Ég held ég hafi aldrei séð reyniberjatrén jafnfalleg og þessa dagana. Þau eru flest orðin algjörlega lauflaus en þakin eldrauðum berjum. Alveg unaðsleg sjón. Fuglarnir eru samt byrjaðir á veislunni fyrir einhverju síðan en magnið er þvílíkt að það gengur ekkert hjá þeim. Mér sýnist þeir geta gert ráð fyrir berjaveislu nánast fram að jólum. Það væri nú magnað ef trén væru svona á jólunum, bara með jólaskrautið tilbúið á sér :-)

12 október 2007

Skjálfti á Egilsstöðum

Hvað er eiginlega að gerast þarna fyrir austan?! Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að það sé eini staðurinn á landinu þar sem maður er öruggur fyrir jarðskjálftum! Sé ég þá ekki á jarðskjálftakortinu sem ég skoða daglega að kl. 18.39 í dag varð jarðskjálfti á 2 m dýpi upp á 2,5 á Richter 3,3 km ANA af EGILSSTÖÐUM!!! Er þetta eitthvað tengt Kárahnjúkum? Jarðskjálftafræðingarnir hafa víst komist að þeirri niðurstöðu að lætin við Upptyppinga í sumar tengist fyllingu Hálslóns. Það er eins gott ég fylgist með. Reyndar sá ég heilmikla hrinu í byrjun vikunnar í Bárðarbungu (stærsti 3,5 á Richter) og í kringum Upptyppinga og Öskju. Ég er kannski eitthvað hysterísk en mér finnst skrítið hvað er gert lítið úr þessu.

Minnisglöp

Hversu pínlegt er það ekki að heilsa bráðókunnugu fólki. Ég var í búð í dag og sá þá mann álengdar sem ég þekki lítillega. Ég veifa honum um leið og ég geng til hans og segi brosandi: Nei hæ, gaman að sjá þig. Hann heilsar en er hálfkindarlegur í framan og það rennur upp fyrir mér að ég er að taka feil. Fyrirgefðu ég hélt þú værir annar. En hann var ekki á því að samþykkja það strax og spurði: Nú hver? Ég varð eins og asni því allt í einu var nafnið þurrkað út úr höfðinu á mér: uuuuhh ég veit það ekki, ég man ekki nafnið. Mér finnst ég nefnilega líka kannast svo við þig sagði hann, ég heiti Steingrímur. Nei nei nafnið er örugglega ekki Steingrímur sagði ég vandræðalega og dreif mig í burtu. Enn man ég ekki nafnið en það er samt í höfðinu á mér. Hrikalega óþægilegt þegar eitthvað dettur svona úr manni. Þetta bendir líklega til þess að ég sé að safna upp einhverju stressi. Eins gott að staldra við og hægja á mér.

10 október 2007

Illur grunur

Haldiði ekki að Valur hafi hringt í mig í kvöld utan af sjó til að segja mér að kokkurinn á bátnum þyrfti að tala við mig. Drengurinn er þá búinn að vera að væla í honum um að búa til baunajafning eins og mamma. Ég gaf manninum ítarlega lýsingu á jafningnum góða en síðan fór hann að bara að spjalla um hitt og þetta og lofaði Val auðvitað í hástert ásamt því að fræða mig aðeins um sína hagi. Eftir símtalið læddist að mér illur grunur. Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki sami kokkur og var í fyrra! Þá vildi Valur helst að ég klæddist búrku þegar ég var að sækja hann eða keyra um borð svo kokkurinn sæi mig ekki. Hann væri nefnilega hinn mesti kvennaflagari og minn kæri sonur vildi náttúrulega ekki að móðir hans lenti í klónum á þess háttar kóna. Það skyldi þó aldrei vera að ég hafi verið seld fyrir skál af baunajafningi!!

09 október 2007

Saumakonur nútímans

Ég þurfti að koma við í fyrirtæki í gær sem er með ráðgjafaþjónustu fyrir tölvur, tækni og hugbúnað. Þegar ég kom að dyrunum með nafni fyrirtækisins þá var harðlæst en á veggnum við hliðina var svona box sem maður slær inn aðgangskóda og á því var líka dyrabjalla. Ég hringdi bjöllunni og til dyra kom ung kona. Ég sagðist komin að hitta mann sem ynni þarna og hún hleypti mér inn. Mér eiginlega dauðbrá þegar ég kom inn því ég gekk inn í stóran sal með um 30 tölvum og nánast dauðaþögn var þar inni. Fyrir framan tölvurnar sátu þegjandi karlmenn niðursokknir i vinnuna sína. Það var að vísu ekki setið við allar tölvur en þetta var hálf súrrealísk upplifun. Mér leið fyrst eins og ég hefði gengið inn í einhvern dularfullan heim ekki síst vegna þess hvað það var mikil þögn á staðnum. Eftir að hafa jafnað mig aðeins þá fór mér að finnast þessi vinnustaður minna mig á saumastofur í gamla daga þar sem konurnar sátu niðursokknar við að sauma. Í stað saumavélahljóðsins var bara lágvært suð í tölvum. Mikið held ég að þetta sé leiðinleg vinna og lítið gefandi.

08 október 2007

Kaffið bætir hressir og kætir....eða var það maltið?

Mér tókst að vera kaffilaus í gær en verð að viðurkenna svindl í dag. Þetta var langur dagur og klukkan fjögur var ég að byrja að kenna í tvo tíma og augnlokin farin að síga verulega. Ég freistaðist því til að fá mér hálfan kaffibolla og réttlætti það auðvitað með því að líkaminn þyrfti að trappa sig niður ha ha ha. En á morgun kemur nýr dagur og ég geri mitt besta til að eiga kaffilausan dag. Í dag lærði ég að segja kaffi á pólsku og kínversku það er kaffa og jahveh. Á morgun ætla ég að læra að segja kaffi á rússnesku, litháísku, portúgölsku og singalísku. Ætli ég sé nokkuð komin með kaffi á heilann!!

06 október 2007

Hræðileg fráhvörf

Loksins komst ég til Kolbrúnar grasalæknis og er afskaplega ánægð með það. Að hennar sögn er allt að gefa sig inni í mér vegna óhóflegs álags á líkamann síðustu tvö ár. Lifrin er ekki að standa sig, nýrnahetturnar hálf losaralegar og brisið veit ekkert hvað það er að gera. Ég verð því að gera nokkrar breytingar á mataræðinu, sem betur fer borða ég yfirleitt nokkuð heilsusamlega þannig að þetta verða engar róttækar breytingar. Það versta er að þurfa að hætta kaffidrykkju og í dag er fyrsti kaffilausi dagurinn. Líðanin er mjög einkennileg núna, er ekki syfjuð en augnlokin haldast varla uppi og ég á erfitt með að hugsa. Nú er bara drukkið mjólkurbland s.s. heitt vatn með dash af hunangi og slettu af mjólk. Að auki fékk ég einhverjar góðar jurtir til að hjálpa líffærunum að komast í gang aftur. Planið er sem sagt að lifa afskaplega regluföstu og heilsusamlegu lífi á næstunni þar sem hreyfing og hugleiðsla verða fastir liðir. Magadansinn verður því tekinn upp aftur enda alveg glimrandi góð alhliða hreyfing. Á morgun skrifa ég upp vikuáætlun fyrir þetta nýja líf en nú þarf ég hreinlega að nota vökustaura ef ég á að halda augunum opnum lengur ZZZZzzzzzzzzz

03 október 2007

Húff púff...

Ég húffa nú bara og púffa eins og stóri ljóti úlfurinn. Það er nefnilega soldið mikið að gera hjá mér þessa dagana. Er að aðlagast nýja lífinu og skipuleggja mig svo ég komist í rútínu. Ég er búin að sitja yfir bunka af rannsóknaráætlunum í dag sem ég á að skila á föstudag. Notaði svo kvöldið til að undirbúa mig fyrir kennsluna á morgun. Fór samt fyrst  í góðan göngutúr svona til að ná úr mér þreytunni eftir lestur dagsins. Orkan er öll á uppleið, finn heilmikinn mun á mér frá því í síðustu viku þó svo það hafi verið svona mikið að gera hjá mér síðustu daga. Nú ætla ég að fara að sofa svo ég mæti hress á Grund í fyrramálið því ég ætla að syngja fyrir þau :-) já þið lásuð rétt ég ætla að syngja einsöng!!! Þau þurfa að vísu að syngja öll í kór á eftir. Nú eru það tölurnar sem verið er að læra. Ég er búin að raula lagið með sjálfri mér í allan dag: Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir fingur, fjórir litlir, fimm litlir, sex litlir fingur......... :-D

30 september 2007

Afmælis prinsessan

Jiiiiii hvað það er gaman að eiga afmæli!! Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar sem hefur rignt yfir mig í dag með sms-um og á netinu og í síma. Ég er nefnilega ein af þeim sem finnst ægilega gaman að eiga afmæli og fer sko alls ekkert á bömmer yfir að verða einu árinu eldri. Stína systir bauð mér út að borða í kvöld og við fundum nýjan sjávarréttastað sem heitir Sjávarbarinn og er út á Granda. Mælum svo sannarlega með honum. Okkur langaði að smakka sem flest og dembdum okkur því á fiskihlaðborðið. Þar var boðið upp á Löngu, Keilu, Steinbít, silung og margt fleira afar bragðgott og girnilegt. Mér heyrðist að vísu einn rétturinn vera flugfiskur en það reyndist þá vera plokkfiskur. Það er náttúrulega ekki eins exótískt og flugfiskur en þetta var allavega góður plokkfiskur. Það eina sem skyggði á ánægjuna voru einhver fræ eða kryddkorn ofan á einum réttinum. Ég er nefnilega eins og hrossin, það er hægt að sjá aldurinn með því að líta upp í mig. Tennurnar mega muna sinn fífil fegri þannig að ég reyni að forðast allt sem er mjög hart undir tönn. Hélt það væri farin fylling en þá reyndist það vera grjóthart kryddkorn en tönnin hélt samt, hjúkket! Nú fer ég sæl og ánægð að sofa enda þarf ég víst að fara að breytast í morgunhana og vakna kl. 7. Er að kenna íslensku á Grund milli 8 og 9. Eins og flestir vita þá er ég EKKI morgunmanneskja en það er samt fínt að fá svona aðhald til að vakna á skikkanlegum tíma. Góða nótt og takk aftur mín kæru :-D

28 september 2007

Bremsulaus kona og spangólandi köttur


Dagurinn í dag byrjaði eiginlega í gærkvöldi. Mér gekk hálfbrösuglega að sofna og þegar ég loks var við það að festa svefn þá byrjar fröken Snædís að ráfa um vælandi eins og sírena. Þá mundi ég að hún átti eftir að fá lyfin sín og staulaðist fram úr en hún var að sjálfsögðu fljót að láta sig hverfa þegar ég birtist enda veit hún alveg hvenær er komið að lyfjagjöf. Ég þurfti því að sitja fyrir henni og bíða eftir að spangólsþörfin kæmi aftur yfir hana því svei mér þá þetta er eins og hún sé að spangóla. Jeminn góður nú átta ég mig á að það var fullt tungl í gærkvöldi. Það skyldi þó ekki vera eitthvað varúlfsblóð í henni! Nú jæja ég náði henni á endanum og skaut upp í hana þessum 0.1 ml (ekki 1.0 í þetta skiptið) af geðlyfjum. Rek ég ekki augun í að járnmixtúran mín hafði fokið úr glugganum á gólfið, tappinn brotnað og restin af mixtúrunni (sem betur fer var ekki mikið í flöskunni) á gólfinu. Ástæðan fyrir því að hún var út í glugga ásamt fullt af öðru úr ísskápnum er að Adam uppgötvaði að sósuskál hafði farið á hliðina inn í ísskáp og fullt af sósu runnið úr. Ég var farin í háttinn og við ákváðum að þurrka mestu sósuna upp og svo ætlaði ég að þrífa þetta í dag. Nú jæja aftur að mixtúrunni, ég gríp einhvern tuskubleðil og hef ekki einu sinni fyrir því að bleyta hann heldur moppa mestu bleytuna og skríð svo aftur í rúmið. Heldur var aðkoman að eldhúsinu óspennandi þegar ég skreiddist á lappir kl. 9 í morgun. Scarlett ræfillinn var að reyna að kroppa í sig einhvern þurrmat úr matardallinum sem staðsettur var við vegginn en fyrir framan hann var brúnt klístur, sem sagt mixtúran sem ég hafði dreift úr með tuskunni. Hún gat ekki staðið í klístrinu og hafði troðið sér á hlið upp fyrir dallinn og þurfti hálfpartinn að snúa sig úr hálslið til þess að ná einhverju upp í sig. Ég hafði engan tíma til að þrífa þetta, átti að byrja kennslu niður í HÍ kl. 10 og færði því matardallinn hennar á þokkalega hreinan flöt á gólfinu. Þetta var langur og strangur dagur sem einkenndist af þessari slæmu byrjun. Rúmlega sex kom ég heim og fór beint upp í rúm því ég var orðin örmagna. Já já Ingileif ég er strax farin að klikka á bremsunum. Lofaði mér í fullt af kennslu í október. Eftir að hafa skroppið á kaffihús sá ég hverslags vitleysa þetta er í mér og afþakkaði strax eitt námskeið. Þóttist samt geta leyst af á öðru fyrstu tvær vikurnar í okt. Ég held ég hringi á morgun og afþakki það líka. Þrjú námskeið eru alveg nóg með kennslunni í HÍ og meistaraverkefninu. 


27 september 2007

Til hamingju með glaðninginn!!

Ég er á útsendingarlista hjá Núinu. Ef maður svarar pósti frá þeim þá getur maður unnið hitt og þetta. Fyrst var ég voða ánægð þegar ég var að fá póst frá þeim þar sem stóð: Til hamingju með glaðninginn!! Nú tek ég orðið þátt til að skemmta mér yfir þeim glaðningum sem ég vinn. Um daginn fékk ég tvær vikur fríar í SKVASSI!! Já já ég í skvassi, glætan! Það myndi þurfa að skafa mig upp af gólfinu eftir hálfan tíma í svoleiðis sjálfspíningu ef ég væri ekki rotuð eftir að hafa fengið boltann í hausinn. Annar vinningur var 15% af naglaásetningu muahahahahaha ég með langar neglur. Það mætti reyna það á mér þegar ég verð orðin liðið lík og á leiðinni í gröfina. Annars fór ég í fótsnyrtingu síðasta mánudag (bingóvinningurinn minn síðan í vor) og reyndist vera með svona svakalega flottar tær og táneglur að konan stakk upp á því að ég fengi mér svona skraut á táneglurnar ha ha ha ha. Kannski ég taki upp á því næsta sumar að ganga í opnum sandölum með skartaðar neglur (ekki kartneglur). Maður verður víst að tjalda því sem til er og fyrst ég er með svona svakalega fínar tær þá er eins gott að láta þær sjást almennilega he he he.

26 september 2007

Komin á ferð....

Það er bara ekkert lát á frábærum hlutum í mínu lífi. Nú fékk ég póst frá formanni Samfélagsins (félag framhaldsnema) með boð um að ríða á vaðið á fyrstu samdrykkju vetrarins 18. okt. og kynna rannsóknina mína. Að sjálfsögðu þakkaði ég gott boð og fer strax að undirbúa mig. Bara fínt fyrir mig að þurfa að taka saman það sem ég er búin að komast að. Nú og svo fékk ég íslenskukennslu á Grund kl. 8 - 9 fimm morgna í viku sem er aldeilis gott aðhald fyrir mig til að druslast á lappir á skikkanlegum tíma á morgnana. Svo er þetta rétt hjá háskólanum þannig að staðsetningin gæti ekki verið betri. Hjólin eru sko meira en tekin að snúast þau eru bara komin á góðan snúning.

25 september 2007

Hjólin farin að snúast

Ja hérna það er bara allt að gerast hjá mér. Ég fékk tilboð áðan frá henni Adrijenne sem ég var að aðstoða aðeins í vor. Hún er að sækja um styrk frá Rannís fyrir rannsóknina sína um útrás Íslendinga og var að spyrja mig hvort ég vildi verða aðstoðarmaður hennar ef hún fær styrkinn. Þetta yrði ekkert svo mikið, bara 50 klukkutímar en maður minn hvort ég vil!! Frábært tækifæri fyrir mig því hún er að vinna við mannfræðideildina í Árósum og heldur utan um allt doktorsnámið í Danmörku. Fyrir utan að vera frábær kona sem ég kann mjög vel við, já og svo þekkir hún Robert í Finnlandi, var með honum í íslensku fyrir útlendinga í HÍ 1994 minnir mig. Nú krosslegg ég bara fingur að hún fái styrkinn. Já og svo er best að auglýsa fyrir hana því hún er væntanleg sem gestakennari við HÍ í nóvember og vantar litla íbúð fyrir sig og manninn sinn. Ef einhver er tilbúinn að leigja þeim íbúð frá 5. nóv. til 5. des. eða að skipta á íbúð við þau í Árósum þennan mánuð þá hafið endilega samband við mig. Líka ef þið vitið um einhvern sem hefði áhuga á því. Aldeilis fínt tækifæri fyrir þá sem eiga ættingja í Árósum (fullt af þeim í fjölskyldunni) að taka mánaðarfrí í Danmörku.

24 september 2007

Nýtt líf

Jæja þá er ég byrjuð nýtt líf. Formlega hætt á sambýlinu og farin að kenna íslensku fyrir útlendinga hjá Alþjóðahúsi. Enn sem komið er kenni ég einum hópi en ég reikna með að fá fleiri á næstunni. Heilsan er smám saman að koma til baka. Ætli ég sé ekki komin í svona 50% orku en í þar síðustu viku var hún ekki nema 10% þannig að ég er á uppleið. Verð samt að passa mig á því að fara mér hægt svo ég fái ekki bakslag. Ég fékk grænt ljós á að fresta útskrift þar til í vor þannig að þá er sú pressa frá. Það var eiginlega ekki fyrr en í síðustu viku sem ég áttaði mig á hvað ég var búin að ganga nærri mér líkamlega. Svo nærri mér að ég þurfti að endurskoða líf mitt algjörlega. Ég er samt mjög sátt við þá endurskoðun og hlakka til að takast á við ný verkefni. Það verður svo bara að koma í ljós hvernig mér gengur að skrapa saman fyrir reikningum. Hingað til hefur það bjargast og ætli það geri það ekki áfram, ég ætla að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur.

19 september 2007

Nálykt í nösum

Á mánudag fór að bera á undarlegum fnyk í kjallaranum sem olli okkur Adam miklum heilabrotum. Í gær hafði þessi viðbjóðslegi fnykur magnast það mikið að hann lagði um allt hús. Mér var orðið um og ó því fýlan minnti mig á nályktina sem lagði um allt þegar hann Kalli minn dó í kjallaraherberginu sínu. Ég var alvarlega farin að íhuga að brjótast inn hjá leigjandanum sem tók við herberginu þegar Kalli var allur og var farin að halda að það hvíldu einhver álög á þessu blessaða herbergi svo þeir sem þar byggju enduðu ævi sína þar. Sem betur fer ákvað ég nú að fara fyrst inn í herbergið hans Vals og þar mætti mér hreinlega veggur af þessum ógeðslega fnyk. Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú hefði frystikistan dottið aftur úr sambandi eins og í vor þegar allur humarinn sem Valur var búinn að nurla saman eyðilagðist. Ég opnaði kistuna en guð sé lof þá var þar allt eðlilegt og gaddfreðið. Þá fór ég að leita að upptökum fýlunnar og viti menn, sé ég ekki plastpoka á gólfinu við hliðina á kistunni með einhverjum pakkningum í. Haldið þið að það hafi ekki verið humarinn hans Vals sem hann er búinn að vera að safna í haust!! Það lá við að kvikindin skriðu á móti mér svo úldnir voru þeir orðnir. Ég held að herra Valur ætti bara að hætta að koma heim með humar því hann virðist allur enda í ruslatunnunni. Ég var samt grútsvekkt því ég var búin að plana að elda dýrindis veislu úr skötusel og humri næst þegar hann kæmi í land. Jæja það verður þá bara skötuselsveisla í þetta skiptið. Sem betur fer eru heldur ekki álög á herberginu hans Kalla.

16 september 2007

Jethro Tull

Ég fór á frábæra tónleika með Steini vini mínum í kvöld. Við vorum sko búin að tryggja okkur miða á Tullinn fyrir löngu síðan og þeir klikkuðu ekki. Ian gamli skoppaði um sviðið með þverflautuna eins og unglingur en ekki sextugur gamlingi og sagði sögur á milli laga. Það vantar ekki húmorinn í karlinn né hina, þeir geisluðu allir af húmor og spilagleði enda var mikil stemming í troðfullum salnum alveg frá því þeir birtust á sviðinu. Ég er sko ekkert feimin við að klappa og góla á frábærum tónleikum. Ég læt fylgja með 16 ára gamalt sýnishorn af tónleikum hjá þeim svo þið fáið smá nasaþef af því hvernig þeir eru á sviði og heyrið stemminguna hjá áhorfendum. Þeir hafa pottþétt ekkert misst dampinn síðan þá. Já og Steinn: takk fyrir frábært kvöld, ég lofa að missa mig ekki í nammið þitt á næstu tónleikum sem við förum á ;-)

15 september 2007

Einstein páfagaukanna

Páfagaukurinn Alex er víst horfinn til fiðraðra feðra sinna. Þetta myndband ætti að vekja áhuga páfagaukavina í fjölskyldunni. Brúsi og Pippilínus verða heldur betur að spýta í fæturna ef þeir eiga að ná viðlíka árangri.

Gamli skólinn minn

Þið sem þetta lesið og voruð í Hallormsstaðaskóla, farið inn á þessa síðu og skráið ykkur. Látið svo endilega fleiri gamla nemendur vita af henni.

14 september 2007

Hvar er klósettið?

Danskir jafnréttisfrömuðir eru í miklu uppnámi yfir mynd af þremur ungum konum í hernum af því þær eru að pissa úti í guðsgrænni náttúrunni. Myndina tók kona í fjölmiðlanámi í Árósum og fylgir myndin grein um hvernig það er að vera kona í hernum. Þær sem á myndinni eru höfðu ekkert á móti birtingu myndarinnar enda væri þetta bara eðlilegasti hlutur í heimi að pissa. Persónulega þá sé ég ekkert athugavert við myndina og finnst hún í raun bara mjög vel heppnuð af því hún er svo lýsandi og segir meira en mörg orð.
Hvað felst í því að vera hermaður? Jú meðal annars að það er ekki alltaf hægt að komast á klósett og maður þarf jafnvel að gera þarfir sínar fyrir allra augum, bæði karlar og konur. Það þýðir ekki að vera með einhvern pempíuskap þegar maður er í miðri eyðimörk að leita að al kaída talíbönum. Það kemur einmitt fram í greininni sem myndin birtist með, að konurnar hafi átt erfitt með bara að segjast þurfa á klósettið í byrjun þjálfunar og þó höfðu þær aðgang að venjulegu salerni þá. Eins og alltaf þá er þetta bara spurning um viðhorf og aðstæður. Það er allt í lagi að liggja berbrjósta á ströndinni fyrir allra augum en maður fer ekki þannig út í búð, eða er það?

09 september 2007

Asísk lækning

Það er ótrúlega erfitt að gera ekki neitt. Ég er samt að reyna mitt besta að hlýða og safna orku. Hef svo sem ekki þurft annað en að ryksuga eða eitthvað annað smálegt til þess að minna mig á því ég fæ þá handskjálfta eins og parkisons sjúklingur. Daníel hefur lagt sitt af mörkum til að ég sé til friðs og lánað mér asískar myndir til að horfa á. Er búin með tvær, Oldboy sem er mjög góð japönsk mynd en Daníel gleymdi samt að vara mig við að atriði í henni séu ekki fyrir viðkvæma ehemm. Hin myndin House of flying daggers  sem er japönsk/kínversk er sannkallað augnakonfekt og hreinlega eins og eitt langt málverk. Fyrri myndin fékk mig til að reka upp ógeðishljóð af og til, ég meina að borða lifandi kolkrabba ojjjjjjj eða rífa allar tennur úr manni kræst! Það voru samt ekki minni hljóð frá mér í lok síðari myndarinnar enda ég farin að hágrenja með ekka af allri dramatíkinni ha ha ha. Ég á eina eftir Restless, kóreska ævintýramynd í anda WOW skilst mér. Eftir að hafa skoðað trailerinn þá á ég von á svipuðu táraflóði og áðan he he he. Af hverju ætli asískar myndir endi yfirleitt alltaf sorglega? 

06 september 2007

Jebb

Úrskurðurinn er ofþreyta og ekkert hægt að gera nema hvíla sig. Ég hefði átt að hneykslast meira á móðursystkinum mínum fyrir að vinna sér til óbóta. 

Riverbend

Loksins! Ég var farin að hafa áhyggjur af afdrifum Riverbend því hún hafði ekki bloggað síðan í apríl. Fjölskyldan komst sem betur fer heil á húfi til Sýrlands. Alhamdulillah.

05 september 2007

Hingað og ekki lengra

Ég er komin í veikindaleyfi frá sambýlinu um óákveðinn tíma. Er ekki enn búin að fá niðurstöður úr blóðprufum en er eiginlega komin á þá skoðun að ég sé búin að níðast of mikið á líkamanum mínum síðasta árið og hann sé búinn að segja stopp. Það kemur víst alltaf að því og ætli maður verði ekki að horfast í augu við það að ekki yngist maður he he he.

02 september 2007

Djúpa laugin

Ekki hefði mér dottið það í hug þegar ég byrjaði í skólanum fyrir nokkrum árum síðan að ég ætti eftir að sitja í hópi SAMkennara í Háskóla Íslands. Það gerðist samt á föstudaginn og mér fannst það eiginlega hálf óraunveruleg upplifun. Á eftir var svo haustfagnaður Félagsvísindadeildar þar sem kennarar og annað starfsfólk deildarinnar kom saman og gerði sér glaðan dag. Enn óraunverulegra takk fyrir. En allavega þá hlakka ég bara til að takast á við þetta verkefni og trúi því að heilsan fari öll að koma til baka. Ég er búin að taka þá ákvörðun að skella mér bara í djúpu laugina og segja upp á sambýlinu í þeirri trú að mér takist að snapa einhver verkefni til þess að eiga í mig og á. Að vísu er þriggja mánaða uppsagnarfrestur en ég ætla að reyna að fá að minnka strax eitthvað við mig. Svo er auðvitað að koma frá sér blessuðu meistaraverkefninu. Unnur Dís ætlar að setja smá pressu á mig enda þarf ég þess til að komast í fjórða eða fimmta gír. Markmiðið er útskrift í febrúar!

30 ágúst 2007

Aftur á byrjunarreit

Jæja ekki reyndist þetta vera Einkyrningasótt og eins er búið að útiloka streptokokka þannig að nú erum við aftur á byrjunarreit. Ég fór því á læknavaktina í kvöld og bar mig illa svo doksi ákvað að senda mig í allsherjarblóðprufu á morgun þar sem 24 atriði verða tékkuð. Á að fá niðurstöðu á mánudag og krosslegg fingur að einhver skýring finnist.

28 ágúst 2007

The great mystery???

Musso musso! Þetta er halló á japönsku, mér finnst það svo fyndið. Var að horfa á japanska mynd og hélt fyrst að þeir væru að fíflast þegar þeir svöruðu í svona í gemsana sína ha ha ha.
Síðustu vikur hefur einhver dularfull veiki verið að hrjá okkur Daníel. Ég er búin að vera svona frá því um miðjan júlí og er orðin frekar þreytt á þessu. Grunur leikur á að þetta geti verið einkyrningasótt því mörg einkennanna benda til þess. Bara svo þið vitið það þá smitast hún ekki eingöngu með kossum enda höfum við Daníel pottþétt ekki verið í neinu kossaflensi a.m.k. ekki við hvort annað. Annars á hann að fara í blóðprufu á morgun og fær niðurstöðu á fimmtudag svo ég bíð og sé til hver niðurstaðan verður. Ég er samt allavega laus við kvefið sem ég fékk um daginn en DAMN hvað ég er búin að fá nóg af þessu pestarveseni. Já og svo er ég víst járnlaus og á að dæla í mig járni þar til ég segi bojojojong.

26 ágúst 2007

Álfamærin í skóginum

Eivør Pálsdóttir - Brostnar Borgir (live)

23 ágúst 2007

Islam og kristni

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er ég annað slagið með stutta pistla á mannfræðiblogginu mínu um Islam. Er búin að skrifa tvo um Adam og Evu og Jesús og Maríu.

Valbjörg

Ég vil benda fjölskyldunni á að Valbjörg hefur verið uppfærð enda hefur yours truly stjórnsama tekið við stjórninni þar. Það er linkur á hana hérna á Netfrænkunni undir Forfeður og frændgarður.

22 ágúst 2007

Bílar í dag

Ég er greinilega enn í gamla tímanum þegar kemur að bílum. Allt þetta rafmagnsdót og þjófavarnir eru fyrir ofan minn skilning. Ég fékk nýja bílinn hans Vals lánaðan og lenti í ægilegum hremmingum. Það er auðvitað þjófavörn í honum og ef opnað er með lykli þá fer hún í gang með miklum látum. Ég var eitthvað klaufsk með fjarstýringuna og fékk hana engan veginn til að aflæsa bílfjandanum. Einhvern veginn tókst mér samt að starta bílnum og hann enn læstur!!! Það greip mig að sjálfsögðu algjör panik og ég sá bílinn fyrir mér bruna af stað á undan mér. Því greip ég til þess ráðs að opna með lyklinum sem setti náttúrulega þjófavörnina í gang. Mér tókst á einhvern hátt að slökkva á henni og hef ekki hugmynd um hvernig, en það drapst líka á bílnum. Nú þá ætlaði ég að starta honum með lyklinum en nei nei fer ekki bölvuð þjófavörnin aftur í gang og mér brá svo að ég ýtti eins og brjálæðingur á alla takka á fjarstýringunni og tókst á endanum að slökkva á þessu drasli. Held ég sé búin að ná tökum á þessu núna.

21 ágúst 2007

Já konan

Jæja þá er ég búin að bæta við mig vinnu. Algjör já kona þessa dagana, en maður verður að grípa hvert tækifæri sem kemur á framabrautinni er það ekki? Mér bauðst sem sagt að taka að mér einn umræðuhópinn í Eigindlegum rannsóknum I. Það er bara 40 mínútur einn morgun í viku en að vísu er hellings vinna að fara yfir öll verkefnin sem þau skila. Þetta er bara svo ansi gott fyrir ferilskrána mína, ekki veitir af að bæta
á hana áður en ég sæki um doktorsnámið. Ég er heldur ekki í neinum kúrsum núna svo þetta ætti ekki að ganga alveg frá mér.
Sveppurinn er að skila sínu og orkan á uppleið. Kvefið nánast horfið.

19 ágúst 2007

Á sveppum

Það er ekki svo slæmt að ég sé farin að tína sveppi á umferðareyjum he he he. Ég kom við í Jurtaapótekinu í gær og bar mig illa vegna eilífs pestargangs. Kolbrún var ekki lengi að rétta mér malaðan kínverska svepp sem er víst algjör töfrasveppur þegar kemur að því að byggja upp ónæmiskerfið. Nú er bara að sjá hvort Reishi sveppurinn magnaði komi mér
ekki til heilsu á ný. Í bónus yngist maður víst upp við að taka hann svo fylgist
með breytingunni á mér :-D

Annars langar mig til að benda fólki á að ef það vill láta gott af sér leiða og getur séð af einhverjum aur þá sér hin frábæra kona Jóhanna Kristjónsdóttir um að útvega styrktaraðila til náms fyrir börn og konur í Yemen. Menn skuldbinda sig aðeins til eins skólaárs í einu. Yemen er eitt af fátækustu arabalöndunum en með því að hjálpa einum einstakling til að
mennta sig þá ertu að auka líkurnar á t.d. auknum réttindum kvenna í framtíðinni. Hvert lóð á vogarskálina skiptir máli. Smelltu hér til að skoða heimasíðuna hennar Jóhönnu.

17 ágúst 2007

Tengslamyndun

Jiiiiii hvað það er búið að vera gaman síðustu tvo daga. Fyrsta mannfræðiráðstefnan mín og ég stýrði tveimur málstofum sem gekk aldeilis prýðilega. Ég var nú alveg búin á því eftir fyrri daginn og var dauðhrædd um að slá niður. Fór því beint heim og í rúmið og sem betur fer slapp það til. Ráðstefnunni lauk svo í kvöld með kokkteilboði en ég þurfti að skreppa heim í millitíðinni að hvíla mig til að hafa það af. Það er nefnilega algjört möst að mæta í svoleiðis því þar er góður vettvangur til að koma á tengslum við annað fólk í mannfræðinni sem geta nýst á margan hátt. Ég var því dugleg að spjalla við fólk og er komin með fullt af nýjum tengslum sem verður spennandi að sjá hvert leiða mig. Það var líka alveg ótrúlega gaman að tala við fólk sem maður hefur ýmist heyrt um eða verið að lesa greinar eftir í náminu því þarna komu íslenskir mannfræðingar alls staðar að. Ýmist fólk í doktorsnámi erlendis eða með stöður við erlenda háskóla.
Ég sem hef aldrei verið sérlega góð í að mingla var bara eins og ég hefði aldrei gert annað. Er svoleiðis í skýjunum eftir ráðstefnuna og full af starfsorku. Nú hlakka ég bara til að demba mér út í að byrja að skrifa og ná hausnum upp úr bókunum. Þetta var bæði mikið pepp fyrir mig og eins náði ég að staðsetja mig svolítið út fyrir verkefnið og fá þá yfirsýn sem ég þarf til að halda áfram. Lífið er bara frábært :-)

16 ágúst 2007

Loftbretti

Ég er búin að finna vetraríþróttina mína!!
Öfugt við snjóþotubrun sem var í uppáhaldi hjá mér, þá er nokkuð auðvelt að stjórna loftbrettunum. 
Var að horfa á þátt á Aljazeera um þessa nýju íþrótt. Íslendingar verða örugglega ekki lengi að tileinka sér hana. Algjör snilld!! 

14 ágúst 2007

Jinxed

Ég var varla búin að vista síðustu færslu þegar yfir mig helltist hálsbólga, höfuðverkir og beinverkir sem hafa hlekkjað mig við rúmið í heila fimm daga! Nú nokkrum snýtirúllum síðar held ég að þetta sé loksins að taka enda. Ég er a.m.k. farin að geta andað þokkalega aftur þökk sé vallhumalsblómunum góðu. Eins gott þvi á fimmtudag og föstudag verður mannfræðiráðstefna þar sem ég á að stýra tveimur málstofum sitt hvorn daginn. 

08 ágúst 2007

Ég er læknuð!!!

Segið svo að íslenskar jurtir séu ekki kraftmiklar. Pabbi er á sömu skoðun og ég. Hann hafði það eftir Gutta á Hallormsstað að vallhumalsblóm læknuðu krónískar kinnholsbólgur og "lagði til" að ég reyndi þau á mér. Ég kom því nú aldrei í verk að tína blómin þegar ég var fyrir austan en fyrir viku síðan fékk ég senda krukku frá mömmu með að mér sýnist ársbirgðum af þurrkuðum vallhumalsblómum (við systur kölluðum þau nú alltaf gæsablóm, ekki veit ég afhverju). Ég sauð mér strax seyði og hef drukkið eitt glas á dag síðan og sleppt því að nota sterana. Viti menn í gær fann ég að eitthvað var að gerast og var alveg óstífluð í nefinu í nótt. Í dag finn ég varla fyrir þessu svo það fer ekki á milli mála að ÉG ER LÆKNUÐ!

Það sama á víst ekki við um fröken Snædísi. Hún tók aftur upp gamla ósiði og því ekki um annað að ræða en halda áfram að svæla í hana kvíðalyfjunum. Ég held ég reyni ekki aftur að trappa hana niður af þeim. Annars má ég víst reikna með því að sitja uppi með annan kattarsjúkling ef ég fer ekki að halda í við hana Scarlet. Ég sá í fréttunum í kvöld að sykursýki hjá köttum er að verða ansi algeng, orsökin er víst ofeldi og Bónus kattamatur sem mun jafnast á við ruslfæði eins og hamborgara og franskar hjá okkur mannfólkinu. Reyndar dekra ég mínar kisur svo mikið að þær fá sko Euroshop túnfisk með þurrmatnum (ruslfæðinu) á hverjum degi. Ég held það sé nú samt langt í það að Scarlet verði jafn akfeit og kattarræfillinn sem sýndur var í fréttunum. Hann gat varla gengið fyrir spiki og minnti helst á útblásna blöðru með fjóra stubba sem stóðu út í loftið á hliðunum. Enda þurfti greyið aðstoð við að komast um og púða undir höfuðið því þegar hann lá á hliðinni þá náði hausinn ekki niður svo út tútinn var hann. Svo var breitt lítið teppi yfir hann. Bwahahaha þetta minnti mig á þegar ég var í dúkkuleik með svarta Dónald, köttinn sem við áttum þegar ég var lítil. Hann var með hringað skott eins og hundur og afskaplega barnvænn köttur.

02 ágúst 2007

Krydd dagsins í strætó!

Eitt það skemmtilegasta við að ferðast með strætó eru óvæntar uppákomur sem krydda daginn hjá mér. Í dag fór ég með strætó í Mosó og var ferðin uppeftir nokkuð tíðindalaus fyrir utan nokkra unga Svía á leið upp á Esju. Blessaðir drengirnir veltu því fyrir sér alla leiðina (í hálftíma) muninn á fahrenheit og celcius og í hvert sinn sem sást skilti með hitatölum var byrjað að reikna og rökræða.
Á bakaleiðinni var keyrður rúntur í gegnum Mosfellsbæinn og fylltist vagninn svo af fólki að einhverjir þurftu að standa. Eins og við er að búast þar sem margt fólk er saman komið þá heyrist mikið skvaldur og hávaði. Nú er vagninn kominn að síðustu stoppistöðinni áður en hann leggur af stað í bæinn en þá bregður svo við að vagnstjórinn neglir niður, stendur upp, snýr sér að farþegunum og þrumar yfir liðið: ÉG VIL SJÁ HVERT SÆTI SETIÐ Í VAGNINUM!!!! ÞAÐ VERÐUR EKKI LAGT AF STAÐ FYRR EN ÖLL SÆTI ERU SETIN!! Það hefði mátt heyra saumnál detta svo mikil þögn varð í stappfullum vagninum. Sem snöggvast var ég fimm ára aftur og átti það greinilega við um fleiri, andrúmsloftið var eins og vagninn væri fullur af skömmustulegum börnum þrátt fyrir að farþegar væru á öllum aldri. Síðan stikaði gjammarinn aftur í vagninn: ÞARNA ER LAUST SÆTI...OG ÞARNA...OG ÞARNA. Hann þurfti ekki að segja fólki það tvisvar, menn stukku umsvifalaust í lausu sætin þegjandi og hljóðalaust. Á leiðinni í bílstjórasætið kom hann auga á tvo unglingspilta sem stóðu fremst í vagninum og benti um leið og hann þrumaði: ÞIÐ TVEIR....ÉG VIL SJÁ YKKUR Í MIÐJUM VAGNINUM!! Strákgreyin hröðuðu sér á "réttan" stað og nú var loks hægt að leggja af stað. Hjúkk hvað ég var fegin að hafa verið með sæti.
Já Strætó klikkar ekki ha ha ha!!

Ranimosk

er búðin þeirra Maríu frænku og Braga. Þau voru að opna hana aftur í gær eftir fæðingarorlof á þessum fína stað á Laugavegi 20. Ég fór á opnunina í gær og hvet alla sem eiga leið um Laugaveginn að líta þar við. Þarna má fá alls konar skrýtna og skemmtilega hluti allt frá póstkortum úr svampi eða tré, jesúplástrum, skartgripum, áprentaða boli, stílabækur og margt fleira. Þau eru bæði með vörur sem þau gera sjálf eins og stílabækurnar sem þau prenta kápurnar á, póstkort í gömlum stíl og líka vörur frá öðrum eins og svamp og trépóstkortin. Endilega að kíkja við og sjá hvort þið finnið ekki eitthvað sniðugt.

31 júlí 2007

Eeiiinnn.....hættu að telja þetta er ÉG

Ég var að telja saman hversu margir úr stórfjölskyldunni minni eru á MSN hjá mér og þau eru orðin 32 og þetta er bara fólk úr móðurfjölskyldunni! Ef einhver sem þetta les heldur að hann sé ekki kominn inn hjá mér þá láttu mig vita. Takmarkið er að ná öllum inn sem nota MSN í fjölskyldunni.

26 júlí 2007

Kötturinn með ljáinn

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is í dag þar sem sagt er frá kettinum Óskari sem býr að mér skilst á elliheimili í Bandaríkjunum. Hann hefur það fyrir sið að hreiðra um sig við hliðina á einhverju gamalmenninu og undantekningarlítið þá deyr viðkomandi nokkrum klukkustundum síðar. Starfsfólkið er farið að taka það mikið mark á þessum heimsóknum hans að það gerir fjölskyldu "þess dauðadæmda" viðvart þegar það sér að Óskar er mættur svo þau geti eytt síðustu klukkutímunum saman. Ég verð að viðurkenna að ef Snædís tæki upp á að kúra hjá mér þá myndi mér ekki verða um sel því í fyrsta lagi þá er hún enginn kúruköttur, enda skíthrædd við að koma nálægt mér eftir öll lyfin sem ég er búin að pína ofan í hana. Í öðru lagi þá gerði hún nákvæmlega þetta þegar Amor minn dó. Það var eins og hún vissi að hann væri að fara. Þegar ég fór í vinnu um morguninn þá lá hún og hélt utan um hann og var enn í sömu stellingu þegar ég kom heim. Um leið og ég kom inn til þeirra þá stökk hún fram en Amor minn dó 10 mín. seinna í fanginu á mér.
Annars er það af henni að frétta að hún er búin að vera lyfjalaus í tvær vikur og hegðar sér enn eins og eðlilegur köttur, ég krosslegg fingur!

22 júlí 2007

Öskjuhlíð og Harðaflugan ógurlega

Ég er byrjuð að þjálfa mig fyrir Esjugöngu ja eiginlega líka bara til að auka orkuna mína. Tvo daga í röð er ég búin að fara í rösklega göngu í Öskjuhlíðinni og komið endurnærð heim. Að sjálfsögðu get ég ekki farið troðnar slóðir frekar en venjulega og klöngrast því á milli trjáa og steina enda er það bara betra fyrir líkamann. Ég þarf líka að fylgjast með plöntum og trjám og fann eitt blóm í kvöld sem ég var ekki viss um hvað heitir fyrir utan að það væri einhver depla. Fletti því upp þegar ég kom heim og jú jú þetta er Hárdepla.
Annars varð mér hugsað til göngutúrs í Öskjuhlíðinni fyrir þó nokkuð mörgum árum með manni sem ég var að kynnast og pínlegu atviki því tengdu. Eftir göngutúrinn bauð ég honum í kaffi heima og sem við sitjum og spjöllum rek ég þá ekki augun í flugu á handleggnum á mér. Ég ætlaði að strjúka hana af mér þegar ég sá mér til skelfingar að þetta var Harðaflugan ógurlega á fleygiferð upp handlegginn á mér. Í miðju samtali stekk ég sem sagt á fætur æpandi og öskrandi, berjandi mig alla að utan og djöflast í hárinu á mér eins og geðsjúklingur. Stekk síðan gólandi inn á bað, ríf mig úr fötunum og undir sturtuna. Eftir dágóða stund kem ég fram heldur kindarleg á svipin og mér til undrunar situr maðurinn ennþá við borðið, að vísu með skelfingarsvip á andlitinu ha ha ha ha ha ha!!

18 júlí 2007

Ofvirkir ánamaðkar

Fyrir þá sem það ekki vita þá er kaffikorgur afskaplega góður í garðinn því ánamaðkarnir virðast sólgnir í hann. Einar A sagði mér einhvern tíman að á bæ einum í Fljótsdal hefði húsfreyjan alltaf hent korginum út um eldhúsgluggann og þar var hægt að ganga að stórum og bústnum ánamöðkum vísum fyrir veiðiferðir. Ég fór að velta þessu fyrir mér eftir að hafa séð heimildamynd um kaffi í sjónvarpinu um daginn. Í henni var sagt frá því að geitasmali nokkur hefði uppgötvað kosti kaffis eftir að hafa séð geiturnar sínar svona eiturhressar og sprækar þegar þær voru búnar að gæða sér á rauðum berjum kaffitrésins. Ætli ánamaðkarnir séu svona sólgnir í kaffikorginn af því þeir verða svo hressir af honum? Aha! Þá hljóta þeir að afkasta miklu meira í jarðvinnunni og éta meira sem er þá ástæðan fyrir hvað þeir verða feitir og stórir.

Nú býð ég öllum ánamöðkum hverfisins í kaffiveislu og hendi korginum í óræktarbeðin í garðinum mínum. Sem meðlæti fá þeir fjallagrasaúrgang og tel ég nokkuð víst að næsta sumar þurfi ég ekki að vinna heldur geti framfleytt mér á sölu gæðaánamaðka plús það að ég verð komin með þessa fínu mold í beðin.

12 júlí 2007

Komin heim í Rónaholtið

Ekki fékk ég neinar filmstjörnumóttökur þegar ég kom heim í kvöld. Varð að byrja á því að siga löggunni á rónagengið á neðri hæðinni og frétti að hér hefðu verið blóðug átök um síðustu helgi. Komu tveir vörpulegir lögregluþjónar áðan (tveim tímum eftir að ég hringdi!!) og voru afskaplega almennilegir. Það skyldi þó ekki ætla að endurtaka sig sama rónasagan og þegar ég bjó í Skipasundinu. Þá hringdi ég reglulega á lögguna út af Snorra gamla á efri hæðinni og tókst á endanum að koma honum í Víðines eftir gott samstarf við afar viðkunnalegan varðstjóra í lögreglunni. Mér er alveg sama þó rónar bæjarins haldi til á neðri hæðinni á meðan að þeir eru til friðs því einhvers staðar verða jú vondir að vera. En vei þeim sem raska ró minni með djöfulgangi og látum. Þá er mér að mæta grrrrrr.

08 júlí 2007

Hótel mamma og systur!

Mér finnst ég vera síborðandi þessa dagana ýmist hjá systrum mínum eða mömmu. Það besta við matinn hjá mömmu er þessi frábæru salatgarður hér úti sem er fullur af alls konar salati og grænmeti. Ég er eins og kanína í paradís þegar ég úða mig grænkálinu hennar sem er í uppáhaldi hjá mér. Það er ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við mig en ég læt nú svoleiðis smámuni ekki ergja mig of mikið. Bara það að vera í faðmi fjölskyldunnar er endurnærandi og gaman. Ég las Rauðhyltingabók sem er ein ættin mín og skildi þá hvaðan Davíð Þór hefur alla þessa hagmælsku, frá Einari á Staka-Hjalla auðvitað. Öll ömmusystkin hans og langömmusystkin mín (nema langamma) voru alveg ótrúleg þegar kom að bundnu máli. Þau skrifuðust á í ljóðabréfum og á stórafmælum þeirra systkina fór hvert þeirra með eigin kveðskap til afmælisbarnsins, alveg magnað finnst mér.
Það er verst hvað tíminn líður hratt og fimmtudagurinn næsti nálgast óðum. Hér er svo gott að vera og mig langar að heimsækja marga ásamt því að taka því rólega. Þyrfti mun lengri tíma til þess. Ætli ég verði bara ekki að reyna að koma aftur í haust. Við sjáum til.

03 júlí 2007

Skógurinn virkar vel

Komin heim í skóginn minn! Yndislegt að finna spennuna líða úr líkamanum við að sitja úti i kvöldkyrrðinni. Byrjaði á því þegar ég kom að setjast út í sólina og hreinsa blóðberg með mömmu. Síðan hefur lítil sól sést en það er allt í lagi. Pabbi og mamma fóru með okkur þrjár elstu systurnar niður á Norðfjörð í dag að heimsækja ömmu sem er enn hin hressasta þrátt fyrir að vera komin á tíræðisaldur. Ekki margar konur á hennar aldri sem búa einar heima og ég get eiginlega ekki ímyndað mér ömmu á elliheimili enda hefur hún engan áhuga á því að fara þangað.

27 júní 2007

Pizzaveisla

Eins og alþjóð veit þá baka ég bestu pizzur á Íslandi ;-) Valur var að kvarta yfir því hvað væri langt síðan ég hefði bakað pizzu svo ég ákvað að bretta upp ermarnar og bjóða til veislu. Þið getið skoðað myndir af dýrðinni hér

25 júní 2007

Fluga á vegg

Það er dularfull fluga sem situr á veggnum fram á gangi. Hún er pínulítil og gul, ja eða kannski glær því veggurinn er gulur, og með risastór svört augu (flugan sko ekki veggurinn). Þetta er kannski stökkbreytt ávaxtafluga sem hefur sloppið út af rannsóknarstofu. Minna vinkona mín sem er líffræðingur sagði líffræðingana á kaffistofunni í Háskólanum í Árósum og Helskinki (þar sem hún hefur verið að krukka í froska) alltaf þekkjast á ávaxtaflugunum sem sveimuðu í kringum þá.

24 júní 2007

Má bjóða þér í pappamat?

Ég rakst á áhugaverða myndasyrpu sem heitir What the World eats
Það sem stakk mig mest eru allar þessar umbúðir í löndum þar sem ríkir svokölluð velmegun. Spurning hvort sé heilsusamlegra fyrir líkamann, umbúðirnar eða innihaldið með öllum sínum E-efnum og öðrum aukaefnum.

Limra

Sjáðu fuglana frændi minn.
Ja frændi, hvur andskotinn.
Fljótur hér, framundan þér.
Þeir fljúga með rófuna á undan sér.

Ég er afskaplega hrifin af limrum og má líklega rekja það til Þorsteins Valdimarssonar og limrunnar hér að ofan. Ég var ekki gömul þegar ég lærði hana og finnst hún alltaf jafnskemmtileg. Hann myndskreytti limrurnar sínar og með þessari var mynd af strák sem góndi upp í himininn á svani sem flugu yfir. Bókin hans Limrur er svo sannarlega skemmtileg lesning bæði fyrir börn og fullorðna.

21 júní 2007

Make love not terror

Skemmtilegt myndband sem ég nappaði af bloggi Lisu Goldman

20 júní 2007

Sautjándi júní í hundana

Ég var á röltinu í bænum allan 17. júní (í vinnunni) og tók eftir því að önnur hver fjölskylda var með hund með sér. Þarna mátti sjá allar stærðir og tegundir allt frá gjammandi smáhundum í sparifötum upp í vígalega dobermann. Merkilegasti hundurinn fannst mér vera hvítur stór hundur sem leit út eins og ísbjörn með hramma og stutt breitt trýni en hann var ósköp gæðalegur á svipinn þó. Ekki sá ég einn einasta bastarð eins og Bangsa minn heitinn sem var blanda af mörgum tegundum, það lætur ekki nokkur maður sjá sig með svoleiðis hund á almannafæri í dag. Mér fannst líka athyglisvert að skoða eigendurna. Pínulitlir smáhundar henta greinilega konum og börnum á meðan að karlarnir láta ekki sjá sig með minni hund en labrador eða boxer. Dobermann er augljóslega hundur handrukkarans og sjálfsagt vænlegri til árangurs en hafnaboltakylfa. Reykjavík er greinilega að verða stórborg þar sem hundar eru jafnvelkomnir og fólk. Mér finnst það nú bara góð þróun.

14 júní 2007

Aldraðir ómagar

Tómas gamli á neðri hæðinni er kominn á Grund mér til mikils léttis. Ekki af því að það hafi verið eitthvað vesen fyrir mig að hann væri heima heldur fannst mér sorglegt til þess að vita að hann lægi í rúminu sínu vikum og mánuðum saman án þess að fá nokkra umönnun og biði þess bara að deyja. Karlanginn er orðinn blindur og er með krabbamein. Hann stóð varla í fæturna og sonarómyndin gaf honum að borða þegar honum hentaði. Ég heimsótti hann á Litlu Grund á þriðjudaginn og þvílík breyting á karlinum. Þarna voru gamlir skólafélagar hans úr MR og hann fær alla þjónustu, aðstoð við böðun (sem hann er sérdeilis ánægður með he he he), þvegið af honum og reglulegar máltíðir. En Adam var ekki lengi í Paradís því Tryggingastofnun var fljót að þefa hann uppi (með hjálp Grundar) og nú fer allur ellilífeyrinn hans beint inn á reikning Grundar. Honum er svo úthlutað 5000 kr. á mánuði í vasapening. Þetti setti strik í reikninginn því hann er ekki tilbúinn að selja íbúðina sína og þarf að borga af henni 30.000 kr. á mánuði sem eru dregnar sjálfkrafa af ellilífeyrinum við hver mánaðamót. Ég benti honum á að það væri nú kannski kominn tími til fyrir soninn (fimmtuga) að leggja til heimilisins og ekki seinna vænna fyrir hann að takast á við það að standa á eigin fótum áður en sá gamli fer til feðra sinna. Jaaaá það væri liklega rétt en hann hafði nú ekki neina óskaplega trú á því að það tækist. Við sjáum til þegar ég er komin í málið ha ha ha, nú fæ ég smáútrás fyrir stjórnsemina í mér. Hann fær að vísu 40.000 frá Lífeyrissjóðnum 15. hvers mánaðar sem ætti að dekka afborgun af íbúðinni svo það verður örugglega hægt að leysa þetta einhvern veginn. En mikið óskaplega er ömurlegt að þurfa að verða hreinlega ómagi þegar maður er orðinn gamall.

09 júní 2007

Kóngulóin gerir ekki flugu mein!

Ég heyrði nýlega auglýsingu frá meindýraeyði sem var að auglýsa að hann hreinsaði kóngulær utan af húsum og rak upp stór augu. Kóngulærnar sem eiga heima utan á mínu húsi eru nefnilega vinkonur mínar. Mér finnst frábært ef einhver þeirra kemur sér fyrir utan á glugganum og ég get fylgst með henni frá því hún er pínulítil á vorin og þar til hún er orðin stór og spikfeit á haustin. Ég leyfði einu kríli að hafa vetursetu fram á gangi hjá mér enda fór lítið fyrir henni greyinu. Hún kom sér fyrir uppi við ljósið og kúrði sig í litla kúlu svo ég var ekki viss hvort hún væri lifandi eða dauð. Þar var hún í sömu stellingu sofandi þar til fór að hlýna í vor en þá staulaðist hún að glugganum og ég opnaði fyrir henni. Hún fór samt ekki langt heldur bjó sér til vef utan á glugganum og nú fylgist ég með henni í lífsbaráttunni. Enn er hún ósköp veimiltítuleg enda búið að vera frekar lítið um flugur í kuldanum, það er nefnilega rangt að kóngulóin geri ekki flugu mein.

08 júní 2007

Kínamaður

Ég var að horfa á viðtal við 93ja ára gamlan karl í Peking sem er enn sprækur sem lækur þrátt fyrir að hafa lifað nærri heila öld. Hann er laufléttur á fæti og byrjar daginn á að fá sér göngutúr á einni af mörgum stigvélum sem standa í röð á gangstéttinni. Svo er bara að skella sér í vinnuna og klippa nokkra hausa á rakarastofunni sem er stóll á annarri gangstétt. Lífsgleðin skín af þeim gamla þegar hann spjallar hlægjandi við fréttamanninn. Svo fær hann sér smók af sígarettunni sinni!!!!

Velkomin á nýja "heimilið"

Þegar ég byrjaði að blogga þá fannst mér svo ógnvekjandi tilhugsunin um að fólk læsi það sem ég skrifaði þannig að ég takmarkaði lesendur við fjölskylduna. Með tímanum jókst mér ásmegin og ég opnaði fyrir fleiri en eftir að hafa fengið þó nokkrar kvartanir um að geta ekki kommentað á það sem ég skrifa, þá hef ég tekið þá ákvörðun að flytja "að heiman" og hreiðra um mig hér á blogspot. Eins og venjulega þegar maður flytur í nýtt húsnæði þá er hálftómlegt um að litast en ég bæti úr því smám saman.