12 október 2007

Minnisglöp

Hversu pínlegt er það ekki að heilsa bráðókunnugu fólki. Ég var í búð í dag og sá þá mann álengdar sem ég þekki lítillega. Ég veifa honum um leið og ég geng til hans og segi brosandi: Nei hæ, gaman að sjá þig. Hann heilsar en er hálfkindarlegur í framan og það rennur upp fyrir mér að ég er að taka feil. Fyrirgefðu ég hélt þú værir annar. En hann var ekki á því að samþykkja það strax og spurði: Nú hver? Ég varð eins og asni því allt í einu var nafnið þurrkað út úr höfðinu á mér: uuuuhh ég veit það ekki, ég man ekki nafnið. Mér finnst ég nefnilega líka kannast svo við þig sagði hann, ég heiti Steingrímur. Nei nei nafnið er örugglega ekki Steingrímur sagði ég vandræðalega og dreif mig í burtu. Enn man ég ekki nafnið en það er samt í höfðinu á mér. Hrikalega óþægilegt þegar eitthvað dettur svona úr manni. Þetta bendir líklega til þess að ég sé að safna upp einhverju stressi. Eins gott að staldra við og hægja á mér.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta telst nú bara eðlilegt hjá mér, annaðhvort að taka feil á fólki eða bara alls ekki að þekkja viðkomandi. Einhverntíma hitti ég mann sem ég kannaðist svo við á biðstofu hjá lækni. Ég heilsaði með miklum virktum og hann mér á móti, við vorum komin á það stig í samræðunum að spurjast fyrir um líðan fjölskyldunnar þegar ég var kölluð inn. Nokkrum dögum síðar sá ég manninn í sjónvarpinu. Þetta var Ragnar skjálfti. Hann er örugglega jafn ómannglöggur og ég.