Mér líður eins og konu sem tilkynnir að hún eigi von á sjötta barninu. Það er nefnilega komin þriðja kisan á heimilið. Sú stutta heitir Skotta og ber nafn með réttu því hún skottast um alla íbúð. Í kvöld tókst henni einhvern veginn að troða sér INN Í stofusófann og komst ekki út aftur. Ég heyrði vælið í henni og fór að leita og ætlaði aldrei að finna hana. Ég kíkti meira að segja inn í ísskáp, örbylgjuofn, ofan í skúffur og inn í skápa enda henni vel trúandi til að hafa troðið sér inn á ólíklegustu staði. Á endanum notaði ég baulaðu nú Búkolla mín aðferðina og rak loks augun í litla loppu sem veifaði út um rifu neðan á sófanum. Sófinn er eðalmubla keypt í Góða hirðinum og níðþungur svo ég get varla bifað honum þannig að ég gat ekki hvolft honum til að komast betur að. Það tók því dágóða stund að ná henni þaðan og tókst ekki fyrr en ég var búin að setja disk með túnfisk undir sófann, þá loksins gat hún troðið sér allri út um rifuna. Guð sé lof, ég var farin að sjá það fyrir mér að þurfa að skrúfa fjandans sófann í sundur.
Skotta er búin að vera hérna síðan á miðvikudagskvöldið og þær gömlu eru að jafna sig á komu hennar. Frú Scarlet umber hana með þögulli fyrirlitningu en fröken Snædís var logandi hrædd við þetta gerpi í byrjun. Hún er nú aðeins að koma til blessunin. Frú Scarlet var afskaplega móðguð við mig fyrstu tvo dagana og sneri bara upp á sig og strunsaði í burtu þegar ég ætlaði að klappa henni. Eftir að hafa smjaðrað fyrir henni daginn út og inn þá er ég smám saman að komast aftur í náðina.
Skotta er búin að vera hérna síðan á miðvikudagskvöldið og þær gömlu eru að jafna sig á komu hennar. Frú Scarlet umber hana með þögulli fyrirlitningu en fröken Snædís var logandi hrædd við þetta gerpi í byrjun. Hún er nú aðeins að koma til blessunin. Frú Scarlet var afskaplega móðguð við mig fyrstu tvo dagana og sneri bara upp á sig og strunsaði í burtu þegar ég ætlaði að klappa henni. Eftir að hafa smjaðrað fyrir henni daginn út og inn þá er ég smám saman að komast aftur í náðina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli