18 febrúar 2009

Ljóðaslamm Bríetar






Skotta

Skotta hún er skrítið skott
skoppar mjög svo vel
hoppar, skoppar, glettir glott,
sér um að ég frjósi ekki í hel.

Skarlett

Skarlett hún er svört og smá
borðar hvað sem er
segir voða sjaldan mjá
enda gömul er.

Það er ekki amalegt að fá gesti í heimsókn sem þakka fyrir sig í bundnu máli :)Þær mæðgur Hrefna, Bríet og Rán brugðu sér af bæ og gistu hjá mér eina nótt.

04 febrúar 2009

Kreppurof?

Dauðaþögn síðustu mánaða hefur verið rofin af LOFTPRESSU hér fyrir utan. Ég rauk á fætur og út í glugga til að athuga hvort svo ólíklega skyldi vilja til að framkvæmdir væru hafnar að nýju við stúdentagarðana hér hinum megin við götuna. Að sjálfsögðu reyndist svo ekki vera og þeir verða líklegast áfram fjarlægur framtíðardraumur. Mér sýnist þetta vera starfsmenn Reykjavíkurborgar að bauka við einhvern tittlingaskít, svona klukkutíma verk sjálfsagt sem enginn verður feitur af.
Valur fór á sjóinn í gær á "nýjan" bát. Ekki leist okkur á blikuna þegar við mættum á bryggjuna í Hafnarfirði. Annan eins ryðdall höfum við ekki séð ef frátaldir eru rússneskir togarar sem stundum hafa dagað uppi mánuðum saman einmitt í Hafnarfjarðarhöfn. Valur leit þó jákvæðum augum á þetta, hann gæti alltaf sagt barnabörnunum söguna af því þegar hann hér um árið var á honum Skafta, það var nú aldeilis skítadallur krakkar mínir!

Litli sófagesturinn minn



Svona líka fyrirmyndar gestur, afskaplega skrafhreifin og brosmild lítil dama :D Ég hefði svo sannarlega verið til í að hafa hana lengur hjá mér en þær mæðgur tóku rútuna norður í morgun. Í kvöld kemur svo kona frá Japan til mín. Fyrsti Japaninn sem gistir hjá mér svo ég hlakka til. Þar að auki talar hún víst ekki mikla ensku hahahaha en ég er nú vön að tala við "mállaust" fólk ;)

01 febrúar 2009

Grátt eða blátt eða kannski ekki neitt

Það má reikna með að gráu hárunum fjölgi verulega á höfðinu á mér á næstunni. Ég keypti að vísu lit í gær til að flikka upp á útlitið en varð heldur betur um þegar ég sá verðið. Síðast þegar ég keypti hárlit kostaði hann um 1100 kr en er núna á tæpar 2.600 kr !!! Daníel stakk upp á því að ég krúnurakaði mig bara og hver veit nema það verði næsta sparnaðaraðgerð hjá mér.
Í dag kom til mín yngsti sófagestur sem ég hef hýst og mun varla hýsa þá yngri. Þetta er lítil þriggja og hálfsmánaðargömul stelpa og algjört krútt. Mamma hennar er þýsk en pabbi hennar frá Gíneu. Hún er hérna með mömmu sinni sem hefur verið á Íslandi oftar en einu sinni og er núna á leiðinni norður á Sauðárkrók að heimsækja vinafólk. Þær mæðgur verða hjá mér í þrjár nætur og ég er himinlifandi yfir heimsókninni.
Valur tók sig til og gekk á Esjuna í gær. Hann týndi vettlingunum, húfunni, sólgleraugunum og batteríunum úr myndavélinni í ferðinni. Ég þakkaði bara fyrir að hann komst heilu og höldnu niður af fjallinu. Hann fer út á sjó á morgun á einhvern ísfisktogara úr Hafnarfirði.