02 nóvember 2007

Framtíðarsýn

Ég átti leið í verslun Símans í Kringlunni í dag. Eins og alltaf var þó nokkur bið svo ég fékk mér sæti á einum af þessum setpúðum sem þarna eru. Stuttu seinna koma tvær konur inn, líklega mæðgur. Sú eldri um áttrætt vildi tylla sér á sama setpúða og ég en hin fór að skoða síma á meðan þær biðu. Þetta var smávaxin fíngerð kona með sítt grátt hár tekið saman í hnút ofan á höfðinu. Smástund leið en þá byrjar sú aldraða allt í einu að syngja dægurlag frá stríðsárunum á ensku. Hún var nú bara með ágæta rödd sú gamla en dóttirin brást strax við og sagði: ekki syngja hérna! Æ já, ég gleymdi mér sagði sú gamla og þagnaði, en ekki lengi því nú sneri hún sér að mér og sagði: mamma sagði alltaf við mig, Gunna mín ef þér leiðist þá skaltu bara syngja. Stundum gleymi ég mér bara þegar ég er innan um fólk, það heldur náttúrulega að ég sé orðin rugluð. Ég er nú orðin áttatíu og eins árs og þegar þú verður komin á minn aldur þá manstu eftir því sem gamla konan sagði. Ég brosti til hennar og sagðist sjálf lenda í því nú þegar af og til að fara að raula lag úti á götu. Ég hefði gjarnan viljað spjalla meira við hana en þá var mitt númer kallað upp. Eftir rúm þrjátíu ár verð ég þessi kona að syngja lag eftir Nick Cave.

Engin ummæli: