Ég þurfti að koma við í fyrirtæki í gær sem er með ráðgjafaþjónustu fyrir tölvur, tækni og hugbúnað. Þegar ég kom að dyrunum með nafni fyrirtækisins þá var harðlæst en á veggnum við hliðina var svona box sem maður slær inn aðgangskóda og á því var líka dyrabjalla. Ég hringdi bjöllunni og til dyra kom ung kona. Ég sagðist komin að hitta mann sem ynni þarna og hún hleypti mér inn. Mér eiginlega dauðbrá þegar ég kom inn því ég gekk inn í stóran sal með um 30 tölvum og nánast dauðaþögn var þar inni. Fyrir framan tölvurnar sátu þegjandi karlmenn niðursokknir i vinnuna sína. Það var að vísu ekki setið við allar tölvur en þetta var hálf súrrealísk upplifun. Mér leið fyrst eins og ég hefði gengið inn í einhvern dularfullan heim ekki síst vegna þess hvað það var mikil þögn á staðnum. Eftir að hafa jafnað mig aðeins þá fór mér að finnast þessi vinnustaður minna mig á saumastofur í gamla daga þar sem konurnar sátu niðursokknar við að sauma. Í stað saumavélahljóðsins var bara lágvært suð í tölvum. Mikið held ég að þetta sé leiðinleg vinna og lítið gefandi.
09 október 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli