04 nóvember 2008

Spenna í lofti!!!!

Það er aldeilis spenna í gangi núna. Ég tími varla að fara að sofa. Dilja búin að missa vatnið og komin á fæðingardeildina og Obama vonandi að vinna forsetakosningarnar!! 

Reyndar er ég með einhverja kvefpest og neyðist því til að koma mér í háttinn. Nemendur mínir hafa verið afskaplega duglegir að gefa mér hinar ýmsu uppskriftir sem duga gegn kvefi. Núna er ég með tilraunastarfsemi í gangi að setja fjallagrös út í hunang og láta standa í einn dag á hlýjum stað. Veiða svo grösin upp og búa til te. 

Annars er þessi aðferð með hvítlauk (eða lauk segja sumir) í stað fjallagrasanna mjög öflugt kvefmeðal. Svo var einhver uppskrift frá Lettlandi með rauðrófusafa og einhverju sem ég man ekki hvað er. 

Ég fór í dag og óskaði eftir yfirsetu í prófum í HÍ og var tekið opnum örmum enda lækkar meðalaldur þeirra sem sitja yfir verulega með mig innanborðs og er ég þó ekkert unglamb. Man eftir einni í fyrra sem kom á 10 mínútna fresti og spurði hvort hún ætti ekki að leysa mig af. Ég svaraði alltaf á sömu lund að ég myndi hóa í hana ef mig vantaði afleysingu. Held líka að margar þeirra gömlu séu hálf nervusar við tölvuprófin en það er alltaf að aukast að tölvurnar séu notaðar við próftöku. 

En mikið verður gaman þegar litli Sindra- og Diljusonur verður kominn í heiminn :D

Engin ummæli: